Frændsystkinin Aðalsteinn Leifsson og Sólveig Anna Jónsdóttir hafa fátt hvort við annað að segja þessa dagana.
Frændsystkinin Aðalsteinn Leifsson og Sólveig Anna Jónsdóttir hafa fátt hvort við annað að segja þessa dagana. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Vikan hófst eins og þeirri fyrri lauk, með ófriði á vinnumarkaði. Áfram var þrefað um miðlunartillögu ríkissáttasemjara og Eflingarfólk, sem vinnur á veitinga- og gistihúsum, samþykkti tillögu um að boða til verkfalls

28.01-03.02

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Vikan hófst eins og þeirri fyrri lauk, með ófriði á vinnumarkaði. Áfram var þrefað um miðlunartillögu ríkissáttasemjara og Eflingarfólk, sem vinnur á veitinga- og gistihúsum, samþykkti tillögu um að boða til verkfalls. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fagnaði þeirri niðurstöðu ógurlega, svo Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, misbauð.

Víðar var fagnað, svo sem í Danmörku þegar karlalandslið þjóðarinnar í handbolta varð heimsmeistari í þriðja skipti í röð, Vores drenge.

Vikan hófst á algjöru stafalogni. Eins og elstu menn vita þá boðar það storm. Enda kom djúp lægð askvaðandi um hádegi á mánudag og gerði usla víða um land. Fjölmargir vegir lokuðust og björgunarsveitarfólk þurfti að bretta upp ermar. Sum sé venjuleg aðalfundarstörf í lok janúar.

Boðið er nú upp á blóðprufur hér á landi sem greina krabbamein á frumstigi með 90% nákvæmni.

Hrun í sölu á kiljum í heimsfaraldrinum hefur ekki gengið til baka.

Enski boltinn rauk upp í verði, það er vilji menn glápa á hann heima í stofu.

Kolmunna var landað í akkorði á Fáskrúðsfirði.

Greint var frá því að Góði hirðirinn myndi tvöfalda húsakost sinn í mars þegar flutt verður í gamla Kassagerðarhúsið.

Ítrekaður glæfraakstur á Seltjarnarnesi er áhyggjuefni og bæjarstjórinn kallar eftir aðgerðum.

Lífrænar mjólkurvörur seljast vel.

Einangrunarvist í gæsluvarðhaldi er beitt óhóflega á Íslandi, samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International.

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis heimsótti Skotland og kynnti sér m.a. nýtingu vindorku.

Auður Þorbergsdóttir, fv. héraðsdómari, lést, 89 ára að aldri.

Bílstjórar eru varaðir við brotholum í malbiki á vegum.

Heimir Örn Árnason, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, nýtur fyllsta trausts meirihlutans en hann hefur verið ákærður vegna hoppukastalaslyss sumarið 2021.

Tveir ungir piltar komust út þegar kviknaði í íbúð í Kópavogi. Íbúðin er illa farin.

Dalví

+k skrapp í vetrarfrí til Ameríku og kallast nú Ennis. Þökk sé sjónvarpsþættinum True Detective. Sumir velta þó fyrir sér hvers vegna bærinn skellti sér ekki til Dallas, fyrst hann var á annað borð að þessu.

Dr. Guðni A. Jóhannesson, fyrrverandi orkumálastjóri, lést, 71 árs að aldri.

Ættfróður maður hér á blaðinu gróf upp þá staðreynd að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Aðalsteinn Leifsson ríkisssáttasemjari eru náskyld. Bæði niðjar Árna frá Múla og frú Ragnheiðar. Stuð verður væntanlega á ættarmóti sumarsins.

Þakíbúð í Vesturvin á Héðinsreit í Reykjavík seldist á 416 milljónir króna, daginn sem sala hófst.

Verulegur áhugi virðist vera á uppbyggingu á athafnasvæði á Hólmsheiði.

ÁTVR er komið í stórsókn varðandi afhendingu vara sinna á landsbyggðinni. Þannig má nú fá gin og Gammel Dansk í Gunnubúð á Raufarhöfn.

Þetta var almennt góð vika fyrir vínelska en þeir fagna líka fyrirhuguðu frumvarpi um afnám banns við heimabruggun á áfengi til einkaneyslu.

Áhugafólk um almenningssamgöngur fékk ekki eins góðar fréttir. Fjárhagsstaða Strætó er bág. Og það vantar nýja vagna. Kallað er eftir róttækum breytingum á rekstrinum.

Einkaskjalasafn Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta, er enn ekki aðgengilegt almenningi og fræðimönnum enda þótt sjö ár séu liðin frá því að hann afhenti Þjóðskjalasafninu skjölin. Dregist hefur að klára málin vegna annríkis hjá Ólafi.

Innflutningur á kjötvörum jókst stórlega á nýliðnu ári, t.a.m. var 70% meira flutt inn af svínakjöti.

Hertha Wendel Jónsdóttir, fv. framkvæmdastjóri Barnaspítala Hringsins, lést, 86 ára að aldri.

Biblíufélagið hefur tekið aftur við útgáfu Biblíunnar.

Verðbólgan er enn að gera usla en vonir standa til þess að hún lækki. Einhvern tíma. Menn spá hækkun stýrivaxta í næstu viku.

Hugsanlegt er að nýr spítali í Reykjavík verði kenndur við Burknagötu.

Ríkislögreglustjóri mun hugsanlega óska eftir aðstoð lögregluliðs frá Norðurlöndunum vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins í vor. Slíkt hefur ekki áður verið gert. Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, er á gestalistanum.

Öryggisgæsla í húsnæði ríkissáttasemjara hefur verið aukin.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra „plankaði“ þegar hann ræsti Lífshlaupið. Og þótti standa sig nokkuð vel.

Hrun er í bréfamagni hjá Póstinum. Bréfum hefur fækkað um 80% frá árinu 2010.

Gert er ráð fyrir að minnsta kosti 650 milljóna króna hagræðingu með sameiningu tíu stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í þrjár.

Eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar verður seld vegna hagræðingar. Sár vonbrigði og mikil afturför, segir forstjóri Gæslunnar. Ýmsir aðrir hreyfðu andmælum. Á föstudag útilokaði dómsmálaráðherra ekki að draga áformin til baka.

Andlit Karls Bretakonungs mun ekki prýða ástralska peningaseðla eins og venjan hefur verið. Frumbyggjar koma í hans stað.

Arnaldur Indriðason rithöfundur er mjög sáttur við kvikmyndina Napóleonsskjölin sem gerð hefur verið eftir samnefndri bók hans.

Aldarfjórðungur er liðinn frá því að fréttavefur Árvakurs, Mbl.is, var opnaður. Þá er Morgunblaðið aftur orðið mest lesna dagblað landsins.

Til stendur að auka öryggi vegfarenda á Akureyri með nýrri göngu- og hjólabrú yfir Glerá.

Heildargjöld ríkisins vegna lyfjakostnaðar hafa aukist verulega á umliðnum árum.

Áfram var rætt um útlendingafrumvarpið á Alþingi.

Olíubílstjórar í Eflingu vilja meiri kauphækkun en aðrir hafa samið um að undanförnu og hafa boðað verkfall. Fram kom í vikunni að meðalheildarlaun bílstjóra í olíudreifingu voru 893.000 krónur árið 2022.

Kvika vill sameinast Íslandsbanka.

51 lést að meðaltali í hverri viku á síðasta ári.

Anna hefur steypt Guðrúnu af stóli sem vinsælasta kvennafnið á Íslandi. Karlamegin trónir Jón enn á toppnum.

Metumferð var á hringveginum í nýliðnum mánuði.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, hefur verið ráðinn í starf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið vísaði frá stjórnsýslukæru Eflingar vegna miðlunartillögu ríkissáttasemjara.

Fram er Reykjavíkurmeistari karla í knattspyrnu í 28. skipti.

Glódís Perla Viggósdóttir er nýr fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu.