Svefnvana gekk ég um húsið á daginn með kúst og klút að þrífa upp eftir hann. Pínulitlar kúkakúlur voru úti um allt! Það var nánast fullt starf.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Ákvarðanir geta verið misgóðar og öll höfum við lent í því að taka rangar ákvarðanir, oft í hugsunarleysi eða vegna hvatvísi. Stundum er þó hvatvísi blessun því margt gott getur komið út úr því að hugsa ekki um of áður en maður framkvæmir. Ég fór til að mynda einu sinni alein til Kúbu með stuttum fyrirvara því áður en ég vissi af var ég búin að kaupa flugmiða. Reyndar kom svo í ljós að ég hafði keypt miða frá Kúbu til Washington D.C. en vélin til Íslands fór frá allt öðrum flugvelli. Sem sagt tveggja tíma keyrsla í leigubíl í stresskasti sem kostaði á við eina flugferð. En jæja, Kúba var æðisleg.

Flest okkar hafa lent í að kaupa flík í fljótfærni sem síðan aldrei er notuð. Ég keypti mér um daginn ógeðslega ljótar beige-litaðar stretsbuxur. Það sést í appelsínuhúðina í gegnum þær! Ég mun aldrei nokkurn tímann fara í þeim út fyrir hússins dyr, enda gæti fólk jafnvel haldið að ég væri ekki í neinu að neðan. Þær eru jú jafnfölar og húð mín nú um hávetur. Hvernig mér datt í hug að þetta væri góð hugmynd veit ég ekki.

Svo var það fyrir allnokkrum árum að ég álpaðist inn í dýrabúð og lét glepjast af krúttlegheitum og stórum brúnum augum. Þann dag fór ég heim með Konna kanínu, sætustu kanínu sem ég hafði nokkru sinni augum litið. Á þessum tíma var ég enn gift og eiginmaðurinn í útlöndum. Ekki var hann par kátur við heimkomuna, skiljanlega, enda voru þetta mikil mistök.

Þar sannaðist máltækið að oft er flagð undir fögru skinni. Konni reyndist haldinn illum anda og var með styrk á við ljón, því á hverri nóttu kastaði hann sér ítrekað á búrið þar til það opnaðist og hann fékk að valsa um húsið, skítandi og mígandi. Enginn var svefnfriðurinn og allir skíthræddir við Konna. Drengirnir voru farnir að læsa að sér. Dag og nótt.

Svefnvana gekk ég um húsið á daginn með kúst og klút að þrífa upp eftir hann. Pínulitlar kúkakúlur voru úti um allt! Það var nánast fullt starf. Ljóst er að kanínur eru ekki góð húsdýr, að minnsta kosti ekki eintakið mitt!

Tveimur taugatrekkjandi og svefnlausum mánuðum síðar var Konni gefinn á Selfoss en þangað fara allar óþekkar kanínur. Hann beit mig til blóðs í litlu tána að skilnaði.