Ranny nýtur þess að sjá fólk fara brosandi heim úr tannlæknastólnum hjá sér.
Ranny nýtur þess að sjá fólk fara brosandi heim úr tannlæknastólnum hjá sér. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er svo mikill hraði og þetta getur verið dálítið harkalegt. Ég datt og braut í mér rifbein.

Á tannlæknastofunni Tannlind finnur blaðamaður hina íslensku Rannveigu Grímsdóttur sem er að ljúka sínum síðasta vinnudegi á Íslandi í bili. Rannveig, ávallt kölluð Ranny, býr í Santiago í Síle þar sem hún rekur tannlæknastofu, en síðustu árin hefur hún starfað hér um tvo til þrjá mánuði á ári. Þegar hún var ellefu ára flutti fjölskyldan búferlum til Síle þar sem faðir hennar fékk starf sem útgerðarstjóri hjá fiskvinnslunni Friosur í Patagoníu og fjölskyldan ílentist þar ytra.

„Við ætluðum að vera þar í eitt ár, en það eru komin 29 ár,“ segir Ranny og brosir.

Alltaf heiðskírt í Síle

Ranny segist strax hafa orðið spennt þegar hún heyrði að flytja átti yfir hálfan hnöttinn.

„Þetta var ekki erfitt fyrir mig, heldur mikið ævintýri og allt var svo nýtt. Ég hef alltaf átt auðvelt með að eignast vini, en þetta var auðvitað allt öðruvísi en á Íslandi. Þarna eru flestir dökkhærðir og brúneygðir og því voru allir í kringum ljóshærðu stelpuna,“ segir hún og brosir.

„Þarna er gott veður allt árið, þótt það kólni alveg um veturinn, en það er alltaf heiðskírt. Það er mjög þægilegt veður þarna, en getur orðið mjög heitt á sumrin í Santiago. Það talaði enginn ensku þarna þannig að ég var fljót að læra spænsku, en ekki kannski mamma og pabbi,“ segir hún og segir þau hafa búið í Patagóníu í Suður-Síle, en átján ára flutti hún til höfuðborgarinnar Santiago.

„Þar lærði ég tannlækningar og fór einnig í sérnám,“ segir hún, en Ranny hefur sérhæft sig í tann- og munngervingalækningum og rekur þar stofuna Clínica El Mañio.

Að vinna með höndunum

Ranny segir fjölskylduna alltaf hafa haldið góðu sambandi við fólkið sitt á Íslandi og reynt að koma heim árlega, þótt stundum hafi liðið lengri tími.

„Þegar ég hafði klárað námið opnaði ég tannlæknastofu og þá liðu alveg sex ár á milli Íslandsferða. Ég vildi því láta meta námið mitt á Íslandi svo ég gæti unnið hér á landi því þá myndi ég koma oftar,“ segir Ranny en það gerði hún einmitt og vinnur því hér á landi tvisvar til þrisvar á ári, einn mánuð í senn.

Spurð hvers vegna tannlækningar hafi orðið fyrir valinu, segist Ranny satt að segja ekki vita það.

„Mig langaði alltaf að læra eitthvað í heilbrigðisgeiranum og var að hugsa um læknisfræði eða tannlækningar,“ segir hún, en þess má geta að afi hennar var Ólafur Ólafsson landlæknir.

„Ég ákvað að henda mér í tannlækningar og fannst það rosalega skemmtilegt strax. Mér finnst svo gaman að vinna með höndunum,“ segir hún en Ranny var alls níu ár í háskóla í náminu.

„Ég er mikið að byggja upp tennur og setja krónur í fólk,“ segir hún og veit fátt meira gefandi en að sjá fólk fara úr stólnum hjá sér skælbrosandi af gleði yfir nýjum tönnum.

Ókeypis bros á einum degi

„Það vantar mikið tannlækna á Íslandi þannig að ég byrjaði að koma hingað á fjögurra mánaða fresti og vinna mánuð og það hefur virkað mjög vel og margir ánægðir viðskiptavinir. Hingað kemur fólk og fær nýjar tennur samdægurs,“ segir hún og segir frá því að Magnús Eiríksson hafi komið til sín áður en hann þurfti að syngja í Hörpu.

„Ég ásamt Nobel Biocare tannplantamerki frá Svíþjóð héldum fyrirlestur um „Immediate Loading“ í Salnum í Kópavogi ásamt því að framkvæma þrjár aðgerðir í „beinni”. Þar fengu þrír einstaklingar ókeypis bros á einum degi, þar á meðal frændi minn Magnús Eiríksson, söngvari og lagahöfundur, en hann er nú byrjaður að syngja og brosa á ný eftir aðgerðina,“ segir Ranny og bendir á að fólk yfir 67 ára fái styrk frá Sjúkratryggingum Íslands fyrir slíkum aðgerðum.

„Um daginn fékk karlmaður nýtt bros á einum degi eftir að hafa barist við að geta talað og borðað með heilgóm í mörg ár,“ segir hún og nefnir að þann 25. og 26. ágúst verður Nobel Biocare með ráðstefnu í Hörpu þar sem verða einungis konur með erindi alls staðar úr heiminum að kynna ýmsar aðferðir við tannplanta.

Sjódrekaflug í brúðargjöf

Eiginmaður Rannyar, Felipe Tocornal, vinnur nú fyrir íslenska tæknifyrirtækið Trackwell, en hann er verkfræðingur.

„Hann er núna heima í Síle í fjarvinnu, en venjulega komum við hingað saman. Hann kemur svo í mars og krakkarnir líka,“ segir hún en þau eiga börnin Florenciu og León, ellefu og níu ára.

„Við kynntumst á skíðasvæði í Santiago fyrir sextán árum þegar ég var 25 ára,“ segir hún og segir þau hjón hafa fengið í brúðargjöf námskeið í sjódrekaflugi, eða „kitesurfing“ eins og það heitir á ensku.

„Síðan þá hefur þetta verið fjölskyldusport,“ segir hún.

„Við höfðum áður verið mikið á brimbrettum og á skíðum, en við vorum bæði skíðakennarar í Bandaríkjunum í jólafríunum. Það eru mjög falleg skíðasvæði í Andesfjöllunum, fjörutíu mínútur frá Santiago, en þangað hef ég farið síðan ég var barn.“

Sjódrekaflugið heltók Ranny algjörlega og hefur hún náð afar góðum árangri í íþróttinni.

„Það er svo mikið frelsi að svífa í vindinum yfir sjónum. Það er keppt í ýmsum mismunandi greinum í íþróttinni, eins og að stökkva eða að keppa í hraða. Í dag eru atvinnumenn í sportinu en ég keppi í þessu og er margfaldur kvennameistari í Síle,“ segir hún en hún hefur einnig keppt með góðum árangri i Argentínu, Mexíko, Spáni, Brasilíu og á Ítalíu. Ranny slasaðist einmitt í síðustu keppni sem haldin var í Brasilíu.

„Það er svo mikill hraði og þetta getur verið dálítið harkalegt. Ég datt og braut í mér rifbein,“ segir hún, en hægt er að fylgjast með Ranny á Instagram undir nafninu Ranny_kite.

Skotin í tannlækningum

Ranny stundar einnig sjódrekaflug á Íslandi og segist fara í sjóinn við Gróttu, á Akranesi og Álftanesi.

„Þar er kaldur sjórinn, en mjög gaman! Hér er mjög hress hópur af „kitesurfurum“, aðallega karlmenn,“ segir hún.

„Dóttir mín Florencia er byrjuð í sportinu líka,“ segir hún og nefnir að börnin tali bæði íslensku, en fjölskyldan flutti heim í eitt og hálft ár á tímum Covid.

„Ég kom hingað upphaflega til að fá námið mitt metið, en svo hélt Covid áfram og ástandið var yfir höfuð betra hér fyrir krakka. Þá var manninum mínum einmitt boðin vinna hjá Trackwell þannig að við ákváðum að vera hér um stund, þótt auðvitað sé líf okkar úti. En það var dásamlegt að vera hér og krakkarnir lærðu almennilega íslensku og eignuðust hér góða vini. Við ætlum því nú að reyna að halda betri tenglsum og vera meira hér en áður. Ég er alltaf glöð að koma og hitta mitt fólk.“

Ætlar þú á Ólympíuleikana að keppa í sjódrekaflugi?

„Það væri auðvitað draumur en þá þyrfti ég að hætta tannlækningum og fara að æfa stíft. Og ég er dálítið skotin í tannlækningunum,“ segir hún og hlær.

„En ég held áfram að keppa og gera mitt besta, en mér finnst svo gaman í vinnunni að ég get ekki hætt í henni. Mér finnst það líka mín skylda að hjálpa fólki og geri það með tannlækningum.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir