Þótt orðið nár sé sjaldan notað um lík nú á dögum, er það ekki alveg týnt, en lifir einkanlega í lýsingum eins og náfölur, nábleikur og hvítur sem nár og í heitinu náhvalur. Orðið er einnig til í íðorðasöfnum, svo sem um læknisfræði, til dæmis um ótta við hið dauða, necrophobia, sem á íslensku mun vera kallað náfælni. Ekki verður annað séð en að Árni erkibiskup í Niðarósi hafi borið skynbragð á slíkt, því að í tilskipun sem hann gaf út árið 1346 segir, að „þó að manna líkamir sé nú í sínum dauða nokkuð andstyggir ásýnum“, skuli halda með þeim „kristilegan kærleik“ og fylgja þeim til grafar með góðvild, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir. Erkibiskup biður að haft sé í huga að „vorir líkamar [hafa] það yfir alla kvikinda líkama, að þar skal sálin eftir koma í á dómadegi til ævinlega lífganar eftir Guðs dómi og síðan skulu þau aldrei skiljast.“ (DI II bls. 844).
Líkaminn eftir dauðann
Trúin á upprisu holdsins var lengi ein af undirstöðum kristindóms, þótt langt sé síðan fram komu hugmyndir um að breyta orðalagi í trúarjátningunni í upprisu dauðra eða upprisu mannsins. Hið síðarnefnda varð ofan á hérlendis árið 1980, en eftir því sem ég best veit játa Danir enn trú á kødets opstandelse, en Svíar og Þjóðverjar upprisu dauðra, á meðan Norðmenn og Englendingar trúa á upprisu líkamans. Í öllum tilvikum er átt við það sama, nefnilega að sérhver maður geti risið upp frá dauðum þegar þar að kemur, en það er hins vegar alóskylt óefnislegum afturgöngum og draugum.
Upppvakningar eru sömuleiðis af öðrum toga, þótt þeir rísi vissulega upp í holdinu. Í Hávamálum gortar Óðinn af þekkingu sinni og þar á meðal kunni hann að vekja upp hengda menn, sem hann kallar virgilná: „Ef eg sé að tré uppi / váfa virgilná, / svo eg ríst /og í rúnum fá'g / að sá gengur gumi / og mælir við mig“ (snerpa.is). Virgull/virgill var taugin sem notuð var til þess að hengja menn á gálga og vísuorðin þýða í aðalatriðum þetta: Ef ég sé virgilná dingla í tré, þá kann ég að rista rúnir, svo að hann gangi og tali við mig. Í Ynglingasögu segir einnig frá því að Óðinn hafi stundum setið undir hanga og að hann hafi vakið upp dauða menn úr jörðu og þess vegna verið kallaður hanga-drottinn og drauga-drottinn. Auk þess að vera Óðinsheiti, þýðir orðið hangi, samkvæmt Orðsifjabókinni: Gálgi eða gálganár.
Athyglin beinist nú að orðinu gálgnár, ásamt þremur öðrum: Grafnár, fjallnár og skernár (hér er ekki rætt um mögulegt afbrigði særnár, sbr. Þórður Sveinbjörnsson 1829, bls. LXXXI). Fornyrði þessi eru talin upp saman í lögbók Íslendinga á þjóðveldistímanum, Grágás, nánar tiltekið í Vígslóða og Baugatali (útg. 1992, bls. 265 og 454). Þau eru ekki skráð annars staðar í gömlu máli, en stöku síðara tíma dæmi eru til og má nefna Gerplu eftir Halldór Laxness, þar er orðið gálgnár haft í merkingunni lík af hengdum manni, eins og virgilnárinn í Hávamálum. Tungumálið lýtur hins vegar öðrum lögmálum í skáldskap en lögum og hér verða færð rök fyrir því að í Grágás séu þessi orð lögfræðihugtök, sem eigi aðeins við um þá sem lifandi eru.
Lífs eða liðinn?
Í Vígslóða birtast orðin grafnár, fjallnár, skernár og gálgnár í eftirfarandi samhengi: „Það mest sem maður sé veginn ef hann er færður í hólma eða sker eða í eyjar óbyggðar þar er djúpt vatn er umhverfis, eða sé hann hengdur eða kyrktur, í gröf settur eða heftur á fjalli eða í flæðarmáli, eða sé stungin augu úr höfði honum eða höggnar af honum hendur eða fætur, eða sé hann geldur. Ef menn setja mann í útsker, sá maður heitir skernár. Ef maður er settur í gröf, og heitir sá grafnár. Ef maður er færður á fjall eða í hella, sá heitir fjallnár. Ef maður er hengdur, og heitir sá gálgnár. Og skal þessa menn alla gjalda niðgjöldum, þó að þeir hafi líf sitt, svo sem þeir sé vegnir.“
Af þessu mætti ætla að orðin grafnár, fjallnár, skernár og gálgnár eigi við, hvort sem er ef viðkomandi lifir af meðferðina sem lýst er, eða hefur bana af, en í Baugatali fer hins vegar varla milli mála að aðeins er átt við um þá sem komust undan. Þar er byrjað á orðunum: Þeir menn eru fjórir er náir eru kallaðir þótt lifi, en síðan er það skýrt nánar: „Ef maður er hengdur eða kyrktur eða settur í gröf eða sker eða heftur á fjalli eða í flæðarmáli. Þar heitir gálgnár og grafnár og skernár og fjallnár. Þá menn alla skal jafnt aftur gjalda á niðgjöldum, sem þeir sé vegnir, þótt þeir lifi.“
Til þess að reyna að átta mig á því hvaða skilningur hefur verið lagður í þessi orð hef ég flett þeim upp í ýmsum orðabókum, en hvergi er því svarað skýrt og greinilega hvað átt er við. Má raunar heita sérkennilegt hve misjöfn skilgreiningin er innan hverrar orðabókar í ljósi þess að þessi orð standa aldrei aðskilin. Í lögfræðiorðasafninu á malid.is er þó samræmd framsetning og þau sögð merkja hengdur maður; kviksettur; maður sem hefur verið skilinn eftir á skeri eða í flæðarmáli; eða á fjalli (þ.e. í óbyggðum eða helli) til að deyja. Svo er vitnað í Grágás um að hann skuli bættur niðgjöldum þótt hann lifi. Að mínu viti er það aðalatriði.
Samhengi
Nú má spyrja hvað sé sameiginlegt þeim aðstæðum sem málið snýst um? Eitt svar við því er að til þess að drepa mann með því að hengja, setja á sker, grafa lifandi og skilja eftir í óbyggðum, þarf samantekin ráð og skipulega framkvæmd. Með nokkrum rétti má þess vegna líta á þetta sem aðferð til þess að banna aftökur í landi þar sem þær tíðkuðust ekki, enda hafði engin stofnun framkvæmdavald á þjóðveldisöld, ólíkt því sem varð eftir að konungsvald kom til sögunnar. Í því samhengi er athyglisvert að fornar aftökuaðferðir í Noregi og víðar voru einmitt kviksetning og henging á gálga, ásamt að menn voru gerðir útlægir – hraktir í burtu, til dæmis í útsker og eyjar, eða á fjöll og önnur atriði sem nefnd eru samhliða umræddum orðum í Grágás eru einnig þekktar aðferðir við refsingu; að stinga augu úr höfði eða höggva af hendur eða fætur og gelding.
Það var einnig aftökuaðferð að höggva menn með sverði eða öxi, en þannig voru víg og morð einnig framin. Þau voru skóggangssök á Íslandi, einnig þótt vopn væru ekki notuð, svo sem að kyrkja mann. Um sókn í ofbeldismálum voru skýr ákvæði í lögunum, sem og um bætur fyrir bana og mismunandi sár eða skaða af vopnaskaki og mannorðsmeiðingum. Þau voru skilgreind svo að hægt væri að leggja mat á þau, svo sem holundarsár, heilundar og mergundar. Enginn tilgangur hefði verið í því að gera greinarmun á líki eftir því hvaða aðferð hafði verið notuð við dráp. Það var heldur ekki gert, nema í tilviki þeirra sem sjálf höfðu ráðið sér bana - þau mátti ekki grafa í kirkjugarði, en yfir það þurfti ekki sérstakt hugtak (bls. 9).
Ómeiddur eftir atlögu
Ef nokkur lifði af tilraun til hengingar, kviksetningar eða að vera skilinn eftir á skeri eða bundinn í helli, er hins vegar óvíst að hann hefði hlotið nokkur sár eða örkuml sem hægt væri að telja fram á þingi. Hefðu árásarmennirnir þá átt að komast undan og hann að sitja eftir óbættur? Auðvitað ekki. Þess vegna veittu ákvæðin um gálgná, skerná, fjallná og grafná þeim sem varð fyrir atlögu af þessu tagi aðild að máli og rétt til þess að sækja ofbeldismennina til saka, þótt engin sár hefðu hlotist af.
Niðurstaðan er að ákvæðin í Grágás endurspegla að tilefni var til að tryggja réttarstöðu manna þegar gerð var atlaga að lífi þeirra, þótt ekki hlytist af líkamlegur skaði. Þess vegna skilgreina þessi margnefndu hugtök aðild lifandi manns að málaferlum, sem sækja mátti svo sem þeir sé vegnir, þ.e.: Eins og hann hefði verið drepinn. Í hugtakinu niðgjöldum felst enn fremur að þessir lifandi náir máttu sækja bætur til skyldmenna þeirra sem stóðu að vígi, í allt að fimmta lið. „En ætli það sé glæpur að skilja mann eftir á skeri?“, spurði Snæbjörn Arngrímsson í viðtali í Sunnudagsblaðinu 10. desember síðastliðinn. Á þjóðveldisöld var svarið já, svo sannarlega – og eins gott að frændur væru fjáðir!