Búskapur Karólína Elísabetardóttir með lambhrút í Hvammshlíð.
Búskapur Karólína Elísabetardóttir með lambhrút í Hvammshlíð.
„Það er mjög misjafnt hvernig þeir standa sig. Almennt vita þeir lítið því tengingin við landbúnaðinn er lítil. Flestir þingmennirnir eru af höfuðborgarsvæðinu og þekkja fæstir af eigin raun störfin í landbúnaðinum,“ segir Karólína…

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Það er mjög misjafnt hvernig þeir standa sig. Almennt vita þeir lítið því tengingin við landbúnaðinn er lítil. Flestir þingmennirnir eru af höfuðborgarsvæðinu og þekkja fæstir af eigin raun störfin í landbúnaðinum,“ segir Karólína Elísabetardóttir, bóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð í Austur-Húnavatnssýslu. Hún er í forsvari fyrir „Áhugahóp um framfaramál í íslenskum landbúnaði“ en hópurinn útbjó dagatal fyrir árið 2023 og sendi sérstaka útgáfu af því til allra alþingismanna, sveitarstjóra, bæjarstjóra og fleiri áhrifamanna.

Þar er þingmönnum boðið að hoppa í annan heim, þó ekki væri nema einu sinni í mánuði, með því að skoða dagatalið. Þar og í fylgiskjölum eru ýmsar upplýsingar um landbúnaðinn.

„Markmiðið með dagatalinu er að gefa innsýn í lífið í sveitinni á jákvæðan og skemmtilegan hátt. Koma með rök og staðreyndir til að hjálpa stjórnmálamönnum að taka réttar ákvarðanir,“ segir Karólína. Áður hefur hún gefið út slíkt dagatal í eigin nafni í fjögur ár.

Neikvæð umræða er ógn

Henni finnst að umræðan í samfélaginu sé orðin neikvæð gagnvart landbúnaði og bændum almennt. Atvinnugreinin sé orðin þægilegur sökudólgur í ýmsum málum, svo sem í loftslagsmálum og gróðurverndarmálum. „Það er svo lítil þekking á bak við þessa umræðu og mér finnst það virkilega ógnandi gagnvart bændum og framtíð landbúnaðarins á Íslandi,“ segir Karólína.

Hún beitti sér fyrir stofnun fyrrgreinds áhugahóps. Í honum eru sex sauðfjárbændur á Norðurlandi vestra og Snæfellsnesi. Karólína telur árangursríkt að vera með lítinn hóp. Annars sé starfið á byrjunarreit.

Það brennur á hluta hópsins að miklar breytingar hafa orðið í sumum sveitum þar sem landbúnaðurinn hefur verið að hopa en í staðinn komið fólk sem hafi aðra hagsmuni og hafi jafnvel horn í síðu bændasamfélagsins, að sögn Karólínu, sem verið hafi um aldir og vilji eyðileggja það. Hún segir að hópurinn vilji reyna að bæta stöðu bænda sem eru í þessum aðstæðum þannig að þeir geti einbeitt sér að búskapnum. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum sem áhugamannahópurinn hefur áhuga á að beita sér í. Karólína nefnir viðameiri verkefni, rannsóknarverkefni sem þarfnist fjármögnunar, til dæmis úr Þróunarsjóði landbúnaðarins.

Spurð hvort þetta séu ekki allt verkefni sem Bændasamtökin ættu að vinna að segir Karólína að vissulega ættu þau samtök að sinna þessu en þau hefðu ekki gert það og telur hún vonlaust að það gerist.

Frumkvæði að riðurannsókn

Karólína hafði frumkvæðið að því að hafin var leit að verndandi arfgerðum gegn riðu í íslensku sauðfé. Í gegn um rannsóknarverkefni hafa fundist gripir sem hafa þessar arfgerðir. Hún segir ítarlega frá því í dagatalinu hvernig henni leið þegar þessar upplýsingar voru smám saman að koma í ljós. Karólína fékk landbúnaðarverðlaun matvælaráðuneytisins á síðasta ári fyrir frumkvæði sitt.