Hópurinn Yuliia Sapiga (t.v.) ásamt fjórum af þeim listamönnum sem eiga verk á sýningunni í Norræna húsinu.
Hópurinn Yuliia Sapiga (t.v.) ásamt fjórum af þeim listamönnum sem eiga verk á sýningunni í Norræna húsinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sjö úkraínskir listamenn munu gera tilraun til þess að miðla flóknum tilfinningum sem vakna þegar stríð brýst út á sýningunni Hvernig ég komst í sprengjubyrgið sem opnar í Norræna húsinu í dag, 4

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Sjö úkraínskir listamenn munu gera tilraun til þess að miðla flóknum tilfinningum sem vakna þegar stríð brýst út á sýningunni Hvernig ég komst í sprengjubyrgið sem opnar í Norræna húsinu í dag, 4. febrúar, og stendur fram í maí. Úkraínski sýningarstjórinn Yuliia Sapiga hefur haft umsjón með verkefninu en hún fluttist hingað til lands síðastliðið sumar.

„Þegar stríðið hófst missti ég vinnuna. Ég hafði starfaði sem sýningarstjóri í fimm ár í Úkraínu en eftir að stríðið hófst var ómögulegt að starfa á þessu sviði svo ég varð að finna nýja vinnu. Ég sótti um hjá Artists at Risk. Það er verkefni sem aðstoðar ólíkar menningarstofnanir sem eru tilbúnar að taka á móti listamönnum frá stríðshrjáðum löndum.“ Þannig komst Norræna húsið í samband við Sapiga og bauð henni til starfa. „Stuttu áður en Norræna húsið setti sig í samband við Artists at Risk höfðu þeir sótt um styrk til Norrænu ráðherranefndarinnar til þess geta skipulagt viðburði tengda úkraínskri menningu. „Svo þetta passaði fullkomlega.“ Þær Sabina Westerholm, forstjóri Norræna hússins, og verkefnastjórinn Sofie Hermansen Eriksdatter settu á fót úkraníska viðburðadagskrá, fyrir börn og fullorðna en stærsta verkefni Sapiga í Norræna húsinu er þessi sýning.

Áföll og framtíðarsýn

„Ég bauð listamönnum sem ég þekki og taldi að væru færir um að lýsa þessu þema sem við völdum fyrir sýninguna.“ Listamennirnir sem taka þátt eru Kinder Album (f. 1982), Mykhaylo Barabash (f. 1980), Jaroslav Kostenko (f. 1989), Sergiy Petlyuk (f. 1981), Elena Subach (f. 1980), Art Group Sviter (f. 1982) og Maxim Finogeev (f. 1989).

Listamennirnir eru allir á svipuðum aldri en Sapiga segir það hafa verið tilviljun. „Þetta snerist ekki um tiltekna kynslóð heldur listaverkin sem ég valdi,“ segir hún.

„Á sýningunni kafa listamennirnir djúpt ofan í eigin reynslu af stríðinu, þrána eftir friðsælu lífi, leiðina til þess að þrauka af og vonina um framtíðina,“ segir í kynningartexta Norræna hússins um sýninguna.

„Verkefni listamannanna eru vissulega ólík því þau miðla persónulegri reynslu hvers listamanns. Þau nýta ólíka miðla, myndbönd, ljósmyndun og innsetningar. Þetta er margmiðlunarsýning því hún sameinar ólíkar hliðar listarinnar. Eins og ég sagði þá snúa verkefnin að persónulegri reynslu sem er það sem ég kann best að meta við þessa sýningu, í einu rými hefur maður reynslu ólíkra einstaklinga af stríðinu, bæði áföll og framtíðarsýn,“ segir Sapiga. Markmið hennar hafi verið að miðla þessum tilfinningum til gesta sýningarinnar.

Leitað í öryggi

Öll verkin voru unnin eftir að stríðið braust út og mörg þeirra voru unnin sérstaklega fyrir sýninguna í Norræna húsinu, Hvernig ég komst í sprengjubyrgið. „Meginhugmyndin á bak við titilinn er að þegar stríð brýst út missir maður allt öryggi. Þannig leið mér. Maður tapar öllu öryggi og er að reyna að finna það á ný, finna eitthvað í lífinu sem veitir manni þessa öryggistilfinningu á ný.“ Hún segir sprengjubyrgið vera tákn fyrir þá tilfinningu að finnast maður öruggur og finna fyrir von.

„Hver og einn listamaður lýsir á sýningunni sinni eigin leið að þessu sprengjubyrgi, til þessa örugga staðar þar sem hugmyndin um nýtt líf bíður. Stríð vekur upp mjög flóknar tilfinningar. Maður finnur auðvitað fyrir hörkunni og grimmdinni en um leið var mín fyrsta hugsun til dæmis um fjölskylduna mína, að ég þyrfti að fara til þeirra og vera með þeim, því það var mér mikilvægast. Þetta snýst um að finna ástina og allt það góða sem vex innra með manni. Og öll þessi listaverk sameina þessar flóknu tilfinningar og meginhugmyndin er að bjarga því bjarta sem er innra með okkur öllum.“

Það reyndist rosalega erfitt að koma listaverkunum hingað til Íslands. „Leiðin frá Úkraínu er flókin. Maður þarf að hafa mikið af skjölum og það geta verið tafir vegna viðvörunarmerkja og loftárása Rússa. Við höfðum gert ráð fyrir að það tæki mánuð að koma verkunum á staðinn en það tók tvo eða jafnvel meira. Við komumst í samband við úkraínskt gullsmíðafyrirtæki sem aðstoðaði okkur við flutningana.“ Verkin voru föst á landamærunum vegna þess að þann dag höfðu rússnesk flugskeyti lent innan við pólsku landamærin. Það olli tíu daga töf. „En núna eru öll verkin komin, þau eru í góðu ástandi og við erum tilbúin að sýna þau.“

Sérstök fararleyfi veitt

Fimm af listamönnunum sjö verða viðstaddir opnunina auk þess sem boðið verður upp á sérstakt listamannaspjall milli kl. 17 og 19 þriðjudaginn 7. febrúar. „Fólk fær þar tækifæri til þess að heyra raddir þeirra og hugmyndir þeirra um þetta allt saman.“ Hún nefnir einnig hve mikil gæfa það sé að karlkyns listamennirnir hafi getað komið á staðinn því það er erfitt fyrir unga karlmenn að yfirgefa Úkraínu þessa stundina vegna mögulegrar herskyldu. Sækja þurfti um sérstök leyfi til þess en þeim var veitt fararleyfi.

Spurð um mikilvægi svona listasýningar á stríðstímum segir Sapiga: „List er mikilvægt upplýsingavopn. Listin snýst líka um tilfinningar og markmiðið hér er að kynna áhorfendann fyrir þeim tilfinningum sem tengjast stríði og vekja samkennd. Þegar maður les eða heyrir fréttir fær maður bara tölulegar upplýsingar og fyrirsagnir um þá hræðilegu atburði sem hafa gerst.“ Það sé iðulega of mikið flóð upplýsinga til þess að maður geti upplifað tilfinningar þeim tengdar. „En á þessari sýningu þar sem maður kynnist þessum persónulegu tilfinningum verður þetta öðruvísi. Þar fær maður tækifæri til þess að skilja hvernig það er að upplifa stríð og gerir þar með vonandi allt sem í manns valdi stendur til þess að það endurtaki sig ekki.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir