Dapurlegt Halldór Benjamín kveður stöðu mála dapurlega í kjaradeilunni sem fór fyrir tvo dómstóla í gær.
Dapurlegt Halldór Benjamín kveður stöðu mála dapurlega í kjaradeilunni sem fór fyrir tvo dómstóla í gær. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atli Steinn Guðmundsson Karítas Ríkharðsdóttir „Mín megin eru það aðildarfyrirtæki SA og í tilviki forystu Eflingar er um að ræða 21.000 manns sem nú bíða og geta ekki haft nein áhrif á atburðarásina. Þau eiga allt sitt undir aðferðafræði Eflingar, sem mætti kannski kalla „telja og velja“. Að fara inn á vinnustaði, velja svo þá vinnustaði sem þau telja að séu líkleg til að greiða atkvæði með verkfalli og nota það fólk til að velja fyrir alla hina.“

Atli Steinn Guðmundsson

Karítas Ríkharðsdóttir

„Mín megin eru það aðildarfyrirtæki SA og í tilviki forystu Eflingar er um að ræða 21.000 manns sem nú bíða og geta ekki haft nein áhrif á atburðarásina. Þau eiga allt sitt undir aðferðafræði Eflingar, sem mætti kannski kalla „telja og velja“. Að fara inn á vinnustaði, velja svo þá vinnustaði sem þau telja að séu líkleg til að greiða atkvæði með verkfalli og nota það fólk til að velja fyrir alla hina.“

Þetta sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi um yfirvofandi verkföll og kvað málflutning Eflingar þar kominn út fyrir öll mörk að því er honum fyndist.

Skæðadrífa kærumála

„Forysta Eflingar er ekki bara í stríði við aðildarfyrirtæki SA heldur virðist hún komin í stríð við bæði félags- og forsætisráðherra, miðað við hvaða orð hafa verið látin falla síðustu daga,“ sagði framkvæmdastjórinn enn fremur. Bættist það stríð ofan á stríð við fyrrverandi bandamenn Starfsgreinasambandsins, Alþýðusambands Íslands, aðra stjórnarmenn Eflingar og starfsfólk.

Sagði Halldór það dapurlegt. „Þetta er dapurleg staða því þessi deila er auðvitað viðfangsefni okkar og Eflingar og ekki annarra,“ hélt hann áfram. „Það er auðvelt að missa sjónar á því, í allri þessari skæðadrífu útspila og kærumála, að mikilvægasta verkefnið, sem fer ekki frá okkur og er beinlínis skylda okkar, er að ná kjarasamningum fyrir okkar umbjóðendur.“

Atkvæðagreiðsla hafin

Félagsfólk Eflingar hefði að hans mati verið svipt möguleikanum til að hafa áhrif á eigin hag.

„Við erum með deilu sem er linnulaust í fjölmiðlum, frá morgni til miðnættis, forystu sem talar eins og nánast sé um landráð að ræða og samningarnir séu aðför að félagsfólki Eflingar,“ sagði Halldór Benjamín í gær. Atkvæðagreiðsla um boðun vinnustöðvunar hjá starfsfólki Eflingar hófst í hádeginu í gær og stendur fram á þriðjudagskvöld. Nær atkvæðagreiðslan til 570 félagsmanna, annars vegar starfsmanna á hótelum Reykjavík Edition og Berjaya Iceland Hotels og hins vegar flutningabifreiðastjóra Samskipa, Olíudreifingar og Skeljungs. Verði aðgerðirnar samþykktar er reiknað með verkföllum frá hádegi 15. febrúar.

Krafin um félagatalið

Gærdagurinn var fréttnæmur á fleiri vígstöðvum kjaradeilu undanfarinna vikna og var hildin háð fyrir tveimur dómstólum, Félagsdómi og Héraðsdómi Reykjavíkur. Í þeim fyrrnefnda var mál SA gegn Alþýðusambandi Íslands vegna Eflingar flutt og tekist á um hvort yfirvofandi verkfall Eflingar teldist ólögmætt þar sem stéttarfélagið hygðist ekki afhenda félagatal sitt.

Fyrir héraðsdómi fór aðalmeðferð í innsetningarmáli ríkissáttasemjara gegn Eflingu hins vegar fram. Kröfur sáttasemjara í því máli eru að Eflingu verði með dómi gert að afhenda embættinu félagatal sitt sem einnig er kjörskrá og þar með forsenda þess að félagsmenn í Eflingu geti greitt atkvæði sín um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilunni.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson