Stórkostlegir „Fagnaðarlátum ætlaði skiljanlega aldrei að linna en þetta voru stórkostlegir tónleikar,“ segir í rýni um tónleika Anne-Sophie Mutter.
Stórkostlegir „Fagnaðarlátum ætlaði skiljanlega aldrei að linna en þetta voru stórkostlegir tónleikar,“ segir í rýni um tónleika Anne-Sophie Mutter. — Ljósmynd/Mummi Lú fyrir Hörpu
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Anne-Sophie Mutter og Mutter Virtuosi ★★★★★ Gran Cadenza fiðludúett eftir Unsuk Chin (Íslandsfrumflutningur), konsert fyrir fjórar fiðlur eftir Antonio Vivaldi, Chevalier de Sainte-Georges fiðlukonsert Nr. 5, opus 2 eftir Joseph Bologne og Árstíðirnar fjórar eftir Vivaldi. Flytjendur: Anne Sophie Mutter stofnandi Mutter Virtuosi og leiðari, Carla Marrero, Ryan Meehan, Elias Moncado, Samuel Nebyu, Mikhail Ovrutsky, Agata Szymczewska og Nancy Zhou á fiðlur; Sara Ferrández og Hwayoon Lee á lágfiðlur; Margarita Balanas og Lionel Martin á selló; Dominik Wagner á kontrabassa og Knut Johannessen á sembal. Tónleikar í Eldborg Hörpu föstudaginn 27. janúar 2023.

Tónlist

Magnús Lyngdal Magnússon

Það ríkti gríðarleg eftirvænting í Hörpu föstudagskvöldið hinn 27. janúar þegar Anne-Sophie Mutter steig á svið ásamt hljómsveit sinni, strengjavirtuósum og semballeikara. Salurinn var þétt setinn og án efa einhverjir viðstaddir sem sáu Mutter þegar hún kom síðast fram á Íslandi í nóvember 1985 (þá í Háskólabíó með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Jean-Pierre Jaquillat). Þannig háttaði til að hluti af efnisskránni núna og þá var sá sami, það er að segja Árstíðirnar fjórar eftir Vivaldi.

Mutter þarf ekki að kynna. Hún hefur fyrir löngu skipað sér í hóp fremstu tónlistarmanna heims og leikur sígild verk jafnt sem samtímaverk. Hún hefur frumflutt 31 verk eftir samtímatónskáld á borð við Adès, Rihm, Lutosławski og Chin (verk sem hafa verið samin sérstaklega fyrir hana). Efnisskrá hennar spannar því afar vítt tímabil og tónleikarnir í Hörpu endurspegluðu þá breidd, enda fengu hlustendur að heyra barrok, klassík og samtímaverk.

Mutter hefur frá 2011 komið reglulega fram með hljómsveit kvöldsins, Mutter Virtuosi, en hana skipar ungt tónlistarfólk hvaðanæva að úr heiminum. Allir eiga hljóðfæraleikararnir það sammerkt að hafa notið liðsinnis Mutter í gegnum Vinasamtök Anne-Sophie Mutter (stofnuð 1997) og sérstakan styrktarsjóð, Anne-Sophie Mutter Foundation (stofnaður 2008), sem gerir þeim meðal annars kleift að koma fram á tónleikum um heim allan og öðlast þannig ómetanlega reynslu.

Það kom bersýnilega í ljós í fyrsta verkinu á efniskránni, konserti fyrir fjórar fiðlur op. 3 eftir Antonio Vivaldi (1678–1741), að það er valinn maður í hverju rúmi. Mutter lék þar einleik með þremur fiðluleikurum úr hljómsveitinni (Agötu Szymczewska, Nancy Zhou og Mikhail Ovrutsky) og öryggið geislaði af flutningnum, ekki bara einleikurum heldur einnig hljómsveitinni og samleikur var eins og best verður á kosið.

Verkið Gran Cadenza eftir suðurkóreska tónskáldið Unsuk Chin (f. 1961) var næst á efnisskránni. Það var samið sérstaklega fyrir Mutter og var um frumflutning á Íslandi að ræða. Þar kölluðust á tvær fiðlur, önnur lék allt að því taktfastan undirleik (Samuel Nebyu) á meðan hin sveif yfir vötnum (Mutter). Verkið er gríðarlega erfitt tæknilega en flutningurinn var öruggur og fumlaus; samleikurinn var óaðfinnanlegur enda náið augnsamband milli þeirra Mutter og Nebyus á meðan á flutningum stóð.

Síðasta verk fyrir hlé var svo sjaldheyrður fiðlukonsert op. 5 eftir Joseph Bologne (1745–1799), einnig nefndur Chevalier de Saint-Georges. Mutter kynnti verkið stuttlega til sögunnar á tónleikunum, en Bologne var samtímamaður Mozarts. Hún gat þess sérstaklega að Bologne hefði verið mikill skylmingamaður og verkið bæri þess merki. Um var að ræða ákaflega áheyrilegt verk í klassískum anda með tilþrifamikilli einleiksrödd sem hljóp upp og niður tónskalann. Flutningurinn var afar músíkalskur og tæknilega fullkominn, fullur af spennu og enn var samleikur einleikara og hljómsveitar afbragð. Mutter stjórnaði flutningnum sjálf á milli þess sem hún lék.

Að öðrum verkum tónleikanna ólöstuðum ríkti mesta eftirvæntingin eftir flutningi á Árstíðunum fjórum eftir Vivaldi, en hann fór fram eftir hlé. Kannski ríkti mesta eftirvæntingin einmitt vegna þess að það verk þekktu flestir tónleikagestir. Mutter hefur tvisvar hljóðritað verkið, í fyrra skiptið árið 1984 (þá með Vínarfílharmóníunni og Karajan fyrir EMI) og í seinna skiptið með Trondheim Solisterne árið 1999 (fyrir Deutsche Grammophon). Þetta er eitt mest spilaða verk tónlistarsögunnar, en um er að ræða fjóra aðskilda fiðlukonserta sem saman mynda eina heild. Fyrri hljóðritun Mutters er í rómantískum anda en sú síðari undir miklu áhrifum upprunastefnunnar í klassískri tónlist, en þar er reynt að flytja tónlist því sem næst eins og hún hljómaði á dögum viðkomandi tónskálds, oft á eldri gerð hljóðfæra. Flutningurinn í Hörpu var mjög í anda upprunastefnunnar, hraður og snarpur og allar hendingar afar skýrar. Það sem vakti kannski mesta athygli var munurinn í dýnamík, en sumt lék Mutter sterkt en annað afar veikt. Undirritaður man ekki eftir að hafa heyrt önnur eins blæbrigði, en tónn Mutter berst afar vel og það var hrein unun á að hlýða. Hljómsveitin lék frábærlega undir stjórn konsertmeistarans, Mikhails Ovrutskys, en þar sem einungis einn til þrír hljóðfæraleikarar skipuðu hvert púlt (hverja rödd í raddskránni) má segja að flestir ef ekki allir hafi leikið einleik á sinn hátt. Sérstaklega var eftirtektarvert hvernig einleikari og hljómsveit voru samhent í ryðma, sem stundum var allt að því ögn hikandi og minnti á leik blásturshljóðfæra sem þurfa að anda milli hendinga.

Mutter hefur einn fallegasta fiðlutón sem undirritaður hefur nokkru sinni heyrt. En það segir ekki alla söguna; hún syngur með hljóðfærinu og myndar þannig línu sem sjaldheyrð er á tónleikasviðinu. Flutningur hennar (og hljómsveitarinnar) á Árstíðunum fjórum myndaði þannig nokkurs konar frásögn í tónmáli; það er galdur sem fáum er gefinn. Oft helgast flutningur á þessu verki (nærri) einungis af tæknilegum ljóma en í Hörpu upplifðu áhorfendur sannarlega árstíðir með öllum sínum fjölbreytileika. Það var því eins og að verkið væri að hljóma í fyrsta sinn.

Allt ætlaði um koll að keyra í Hörpu að flutningi loknum og fór svo að Mutter og hljómsveitin léku tvö aukalög, fyrst „Long Goodbye“ í útsetningu Johns Williams og svo að lokum endurfluttu þau kafla úr Árstíðunum fjórum. Fagnaðarlátum ætlaði skiljanlega aldrei að linna en þetta voru stórkostlegir tónleikar.