— Morgunblaðið/Eggert
Á daginn kom að Rússland hafði enga getu til að leggja úkranísku höfuðborgina Kænugarð undir sig á þessum tíma. Það er fyrst núna, ári eftir innrás, sem flestir sérfræðingar viðurkenna að Rússar hafi loks náð yfirhöndinni í styrjöldinni. Það er ömurlegt.

Menn skipa sér í fylkingar af minnsta tilefni og stundum er ekki augljóst hvers vegna. Bréfritari, sem kann mannganginn í skák, en ekkert umfram hann, reyndi að komast á sem flestar skákir í Laugardalshöllinni, þegar þeir kepptu Fischer og Spassky og háðu einvígi aldarinnar. Eins og skákin hefur þróast, kannski einvígi allra alda. Og það komst ekki mikið annað að þá dagana. Kunningjahópar sátu yfir skákskýringum nafntogaðra stórmeistara í hliðarsölum og bréfritari ímyndaði sér framan af að hann væri ekki minna með á nótunum en hinir. Sérstaklega urðu skýringar Bents Larsen eftirminnilegar og ekki síður samtöl Sigurðar fréttamanns Sigurðssonar við Friðrik Ólafsson, sem Útvarp Matthildur lagði út með sínum hætti: „Jæja Friðrik, Fischer lék þarna biskupi út í fyrsta leik.“ „Það var nú peð,“ sagði Friðrik.

Líður betur í liði

Við, hér heima, höfðum þegar skipað okkur í lið Friðriks gegn andstæðingunum, hvort sem það var í Hastings eða hér heima í Sjómannaskólanum árið 1956, þegar Friðrik og við fórum gegn Bent Larsen. En Fischer og Spassky kveiktu rækilega í efnilegum mönnum svo að skákstirnum fjölgaði hratt. Bréfritara þótti mjög til skýringa Danans koma og hann galt ekki þá fyrir slag þeirra Friðriks tæpum tveimur áratugum fyrr. Eftir því sem bréfritari tefldi sjálfur fleiri skákir á þessu æsilega tímabili, og það án þess að taka merkjanlegum framförum, vöknuðu síðar efasemdir um að hann hefði haft eitthvað upp úr skýringum Larsens í Laugardagshöll forðum. Þarna sátu þá nokkrir tugir og jafnvel hundruð og þar voru býsna mörg „elóstig“ í salnum og við sem höfðum alla ævi verið án þeirra, skárum okkur ekkert úr. Og enn lifir í minningunni að maður hló varfærnislega með, til að draga ekki að sér óþarfa athygli, þegar að okkar helstu skákmenn skelltu upp úr í framhaldi af fyndnum ályktunum Larsens á líklegum 4-5 leikjum eða svo og helstu annmörkum þeirra og stundum hrikalegum ógöngum sem „kapparnir“ gætu lent í, veldu þeir þá leiki eða sambærilega, sem töluverðar líkur virtust standa til á nokkurra mínútna fresti.

Við vorum flest í þeim sölum og vítt og breitt um landið á bandi Fischers og í fylkingu hans, ef svo má segja. Í þennan hóp sagt, þá benti samt æði margt til og er þá vægt til orða tekið, að Boris Spassky hafi verið á mælikvarða um manneskju, meira aðlaðandi persóna en vinur okkar og foringi, Fischer, sem bréfritari beitti sér rækilega fyrir síðar, þegar hann þurfti verulega á því að halda. Spassky er elsti núlifandi fyrrverandi heimsmeistari í skák, varð 86 ára fyrir fáeinum dögum, og mun enn búa í íbúð sinni í Moskvu. Sagt var frá því í íslenskum fjölmiðlum að gamli heimsmeistarinn hefði orðað þá spurningu hvort hugsanlegt væri að hann fengi, þegar þar að kæmi, legstað í kirkjugarðinum í Laugardælum og gæti eftir það hvílt við hlið eða nærri sínum félaga og keppinaut eftir að þeirra skákir hefðu endanlega verið settar í bið. Ekki kom fram hvort þetta var í spaugi eða alvöru. Við, sem vorum flest öll í liði með Bobby Fischer og eftir þeim atvikum í andstöðu við Spassky, lituðumst á þeim tíma að hluta til af lífsskoðunum og staðsetningu okkar í veröldinni. Spassky keppti fyrir Sovétríkin og Fischer „fyrir hinn frjálsa heim.“ Þegar af þeirri ástæðu vorum við flest með Fischer í liði. Og kannski spilaði inn í að Sovétríkin voru yfirburðaríki í skák og þaðan komnir margir illsigranlegir heimsmeistarar. Fischer gerði lítið með það að gestgjafaþjóðin fylkti sér á bak við hann. Hann hafði flest á hornum sér og varðaði ekkert um það að Bandaríkin væru stolt af honum og því afreki hans að „vinna kommann“, fyrstur Bandaríkjamanna. Fischer afþakkaði að hitta Richard Nixon forseta í Hvíta húsinu, enda lá þá ekki fyrir, að hans sögn, hvað Nixon væri tilbúinn að borga sér fyrir að líta þar við. Þó hafði Nixon, þegar ótryggast var að einvígið færi fram, beðið ráðgjafa sinn hinn mikla, Henry Kissinger, að ýta undir og tryggja að Fischer klúðraði þessu ekki, með því að mæta ekki til keppni á Íslandi, eins og hann hafði hótað. Henry kláraði sitt og er enn að, en hann verður 100 ára hinn 27. maí nk. Fischer-fylkingin hér heima var ekkert að pæla í því að sennilega væri Boris Spassky mun geðþekkari persóna en áskorandinn. Fischer var undramenni og mesti skáksnillingur sem heimurinn hafði þá, og sumir segja síðar, augum litið. Spassky hefur allt frá sínu þunga tapi, lagt gott eitt til ólíkindatólsins sem hann tapaði fyrir uppi á Íslandi.

Við og heimurinn með Selenskí

Með sama hætti og þarna var lýst tóku Íslendingar „og heimurinn,“ sem hið næsta þeim er, afgerandi afstöðu með Úkraínu gegn Rússlandi Pútíns. Það skiptir svo sem ekki öllu fyrir aðra en okkur, hvar vopnlaus þjóð, stendur gagnvart stríðinu. Sú sama sem ekki hefur einu sinni efni á að halda úti einni björgunar- og eftirlitsflugvél fyrir Landhelgisgæsluna, en gæti þó gert út tíu slíkar fyrir skrifstofukostnaðinn einan á umstanginu í eitt ár við stjórnlaust flóttamannafár og er þá uppihaldið við „gestina“ þá ekki talið með. Enda er ekki létt eða ódýrt að gramsa sig í gegnum flóttamennina frá Venesúela, þar sem drjúgur hluti þeirra mun vera frá Sýrlandi og önnur kippan samsett af rígfullorðnum börnum. Meginreglan um flóttamenn gekk lengst af út frá því, að ábyrgð á þeim lægi hjá þeirri þjóð sem fyrst yrði fyrir þeim. Hvernig Sýrlendingar fóru að því að næla sér í skilríki frá Venesúela áður en þeir lögðu sig til sunds til Íslands, er óljóst og eins hitt að olíuveldið Venesúela skuli unga út svo mörgum „flóttamönnum“ til síns næsta nágranna, Íslands. Jú, vissulega eru þarna vinstrikommar sem breytt hafa olíuríki í fátæktarholu. En þá er verkefnið að hrinda þeim af sér. Íslendingar vissu vel að algjört óvit væri fyrir þá að ganga í Schengen-samstarfið. Þáverandi forsætisráðherra og fleiri ráðherrar vísuðu í ríkisstjórn til aðvarana Breta um að ana ekki í Schengen. Þeir voru þó þá í EB, en létu sér ekki til hugar koma að ganga í Schengen, sem voru skelfileg mistök. „Þið eruð eyland, eins og við,“ sögðu Bretarnir réttilega. Ríkisstjórnin er ekki „fjölskipað stjórnvald“ og „fagráðherrarnir tveir, sem þetta mál heyrði undir, dómsmálaráðherrann og utanríkisráðherrann“ sem síðar kom á daginn að höfðu báðir hallast illa að hinu vandræðalega sambandi, höfðu tekið saman ráð um að best væri að þetta mál gengi fram, enda væri það skref í „hina réttu átt.“

Nató, þar sem Bandaríkin ráða langmestu, með allar sínar fjölmennu leyniþjónustur, og bera enda þyngstu byrðarnar, virtust ekki hafa séð langt fram, að styrjöld væri yfirvofandi í Evrópu. Hálfum mánuði fyrir innrás deildu æðstu menn á þeim bæ um það opinberlega hvort innrásin væri yfirvofandi og var þó búið að raða upp þungavopnum í tugakílómetraröð meðfram landamærunum ríkjanna þriggja, sem komu að. Það er svo sem alls ekki útilokað að Pútín hafi látið stilla upp þessum leiktjöldum, svo óhugnanleg sem þau voru, sannfærður um að þau myndu knýja stjórnina í Kænugarði til undanláts, ef ekki til uppgjafar. Enda gengu spár á Vesturlöndum í þá átt að stríðið yrði stutt. Sú niðurstaða, sem spáð var, rættist ekki, en gæti bent til þess, sem skyndilega blasti við, að rússneski herinn væri illa búinn til stríðsátaka og hin óhugnanlega uppstilling væri sýndarstyrkur. Á daginn kom að Rússland hafði enga getu til að leggja höfuðborg Úkraínu undir sig á þessum tíma. Það er fyrst núna, ári eftir innrás, sem flestir sérfræðingar viðurkenna að Rússar hafi loks náð yfirhöndinni í styrjöldinni. Það er ömurlegt.

Stjórnin í Kænugarði hafði, þegar nokkuð var liðið á stríðið, óskað eftir skriðdrekum að vestan og horft þá á þýsku skriðdrekana Leopard II. Þýski kanslarinn Olaf Scholz hafði lengi talið það af og frá og eins hitt að heimila að þau ríki, sem keypt höfðu þessa týpu af Þýskalandi, mættu framsenda hluta af sínum skriðdrekaflota til Úkraínu, eftir þjálfun í þrjá til fjóra mánuði. Það síðasta sem Þýskaland bar fyrir sig var að Bandaríkin yrðu fyrst að senda nokkur eintök af sínum öflugu nýju skriðdrekum, Abrams, til Úkraínu, áður en Scholz tæki sína ákvörðun. Biden forseti samþykkti þetta loks þegar árs stríðsafmælið í Úkraínu nálgaðist hratt. Daginn eftir að loforðin um bandaríska skriðdreka lágu fyrir, óskaði Selenskí og reyndar krafðist þess að vestræn ríki sendu Úkraínu F-16 herþotur, svo fljótt sem verða mætti. Biden hafnaði þessu, en virtist þó draga í land tveimur dögum síðar. Bent var á að Úkraínumenn yrðu að senda sinn mannskap í þjálfun á orrustuþotunum, ef þær fengjust og hún tæki, varlega áætlað, heilt ár. Í nýliðinni viku tók Rishi Sunak, forsætisráðherra Breta síðustu 100 dagana, af skarið. Fullnægjandi þjálfun flugliða á F-16 herþotur myndi taka í minnsta lagi 35 mánuði. Engum manni hefur fram til þessa dottið í hug að stríðið í Úkraínu, sem á „afmæli“ í lok mánaðarins, standi í þrjú ár til viðbótar. Það datt reyndar engum annað í hug en að sama stríð stæði aðeins í fáeinar vikur eða í mesta lagi mánuði þegar það hófst fyrir rétt tæpu ári síðan. Svo miklir voru yfirburðir Rússar taldir.

Spurningin stendur og fellur um mannskap

Vandinn er sá að Úkraínustjórn hefur reglubundið kallað inn nýtt lið í stað þeirra sem falla, særast eða eru teknir til fanga af óvininum. Samkvæmt leyniþjónustu Eistlands þá var komið að 5. lotu í þeirri innkvaðningu og þá voru kallaðir inn 60 ára gamlir menn og eldri. Nú er fullyrt að Rússlandsher muni innan fárra vikna senda yfir 200.000 hermenn fullþjálfaða til Úkraínu. Þá verða enn engir nýir skriðdrekar komnir. Reyndar er sagt að floti 31 Abrams-skriðdreka Bandaríkjamanna, sem senda skal til Úkraínu, sé nú kominn í framleiðslu. Það á að létta þau eintök og brynvörnin á þeim verður önnur og lakari. Brynvörnin á Abrams-skriðdrekunum, sem eru á lager hersins, er enn flokkuð sem hernaðarleyndarmál. Það gætu verið 6-7 mánuðir í Abrams-skriðdrekana. Hætt er við að næstu vikur verði Úkraínu mjög erfiðar og hafa þó síðustu 50 vikur aldrei verið auðveldar.