Ampahópurinn Félagar sem hafa farið saman í Veiðivötnin að veiða síðustu 30 árin.
Ampahópurinn Félagar sem hafa farið saman í Veiðivötnin að veiða síðustu 30 árin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valdimar Óskar Óskarsson er fæddur 4. febrúar 1963 í Reykjavík og ólst upp í Laugarnesinu fram til 18 ára aldurs. Hann æfði fótbolta með Ármann upp í 2. flokk og körfubolta með Fram, einnig upp í 2. flokk

Valdimar Óskar Óskarsson er fæddur 4. febrúar 1963 í Reykjavík og ólst upp í Laugarnesinu fram til 18 ára aldurs. Hann æfði fótbolta með Ármann upp í 2. flokk og körfubolta með Fram, einnig upp í 2. flokk. „Ég spilaði síðan í meistaraflokki í körfubolta á námsárunum í Danmörku.“

Valdimar gekk í Laugarnesskóla og lauk gagnfræðiprófi frá Laugalækjarskóla. Hann lærði rafvirkjun í Iðnskólanum og tók sveinspróf 1983, hélt til náms í Danmörku í kjölfarið og lauk B.Sc.-námi í rafmagnstæknifræði frá SDU-háskólanum í Sönderborg 1987.

Eftir nám hóf Valdimar störf hjá Landsímanum við Gagnaflutningsdeild, starfaði hjá Tæknivali, Apple-umboðinu ásamt því að koma að stofnun þriggja fyrirtækja, Tristan sem var þjónustufyrirtæki, Lausn sem var ráðgjafa-, þjónustu- og hugbúnaðarfyrirtæki ásamt útgáfufyrirtæki sem hét Það er nú Það . „Samhliða fyrirtækjarekstri þá stundaði ég kennslu í Rafiðnaðarskólanum. Þar kenndi ég ýmis námskeið er tengdust tölvum og tölvusamskiptum og síðar varð ég viðurkenndur Microsoft kennari (MCT) og kenndi ég viðurkennd Microsoft námskeið um nokkurt skeið.“

Árið 2002 flutti Valdimar ásamt fjölskyldu sinni til Danmerkur og bjuggu þau þar í 10 ár. „Ég starfaði hjá Betware í fimm ár þar sem ég var ábyrgur fyrir rekstri og öryggi getrauna- og lottó-lausna viðskiptavina Betware en stærsti viðskiptavinurinn var í Danmörku. Síðar starfaði ég hjá Sensa, setti upp Sensa í Danmörku en flutti mig yfir til nSense þar sem ég starfaði sem ráðgjafi með fókus á meðhöndlun kortaupplýsinga.“

Á meðan Valdimar bjó í Danmörku stundaði hann fjarnám við Háskólann í Liverpool og tók meistaragráðu í upplýsingatækni með áherslu á upplýsingaöryggi.

Síðan var förinni heitið til Möltu þar sem Valdimar var öryggisstjóri Betsson, sem er sænskt fyrirtæki í leikjageiranum, með 1.100 starfsmenn, þar af 800 á Möltu. Eftir þrjú ár á Möltu gerðist Valdimar öryggisstjóri hjá Transfast, sem er amerískt fjármálafyrirtæki á Wall Street. Hann var með aðsetur í Dúbaí en eyddi líka miklum tíma í New York.

„Það var alveg yndislegt að vera í Dúbaí og ég átti sömuleiðis góð ár í Danmörku. Það var sérstakt að vera á Möltu en veðurfarslega var hvað best að vera þar, aldrei of heitt og aldrei of kalt.“

Eftir tvö ár í Dúbaí flutti Valdimar til Íslands og tók við núverandi starfi hjá Syndis, árið 2017. „Syndis er leiðandi fyrirtæki á sviði upplýsingaöryggis með viðskiptavini um allan heim. Syndis er núna með um 50 starfsmenn, á Íslandi og í Póllandi og stefnan er sett á Svíþjóð í nánustu framtíð. Syndis leggur mikið upp úr þróun, fræðslu og nýsköpun byggða á þeirri tæknilegu þekkingu sem byggð hefur verið upp á síðastliðnum 10 árum. Syndis var keypt af Origo fyrir tveimur árum og gerir það okkur kleift að stunda hugbúnaðarþróun með annarri starfsemi og er að vænta vöru frá okkur á haustmánuðum. Hugbúnaðarþróun er ekki ný af nálinni hjá Syndis, en Syndis þróaði hugbúnaðarlausn ætluð forriturum til að skrifa betri kóða. Hugbúnaðarlausnin var síðar seld til fyrirtækis í Ástralíu.“

Árið 2018 tók Valdimar þátt í verkefni á vegum Team Rynkeby, en verkefnið gekk út á að safna peningi fyrir langveik börn og hjóla frá Koldin í Danmörku suður til Parísar á sjö dögum. „Það var ógleymanlegt verkefni með einstöku fólki.“

Meðal áhugamála Valdimars er fótbolti, ferðalög, skíði og útivera. Hann fór einnig að æfa skvass þegar hann kom heim úr náminu í Danmörku, æfði það í tíu ár og spilaði með landsliðinu á nokkrum Smáþjóðaleikum. Hann kom einnig að félagsstörfum í skvassinu. „Vonandi verður tími til að grípa í skvass spaða við tækifæri.“

Fjölskylda

Börn Valdimars og Kristínar S. Guðmundsdóttur, f. 21.1. 1971, mannauðsstjóra, eru 1) Egill Örn Valdimarsson, f. 23.8. 1994, stundar nám í sálfræði, og 2) Sara Lind Valdimarsdóttir, f. 19.11. 1997, stundar prófessorsnám í Bandaríkjunum í erfðafræði.

Bræður Valdimars eru Ólafur M. Óskarsson, f. 30.11. 1952, viðskiptafræðingur, búsettur í Garðabæ, og Rúnar Óskarsson, f. 23.2. 1955, verkfræðingur, búsettur í Garðabæ.

Foreldrar Valdimars voru Óskar Kristinn Ólafsson, f. 31.5. 1924, d. 24.2. 2011, vélfræðingur, og Sigurlaug Ólafsdóttir, f. 26.9. 1927, d. 12.5. 2000, húsmóðir. Þau bjuggu í Reykjavík og voru gift frá 1952.