Ragna Kristín Árnadóttir fæddist 9. júní 1931. Hún lést 3. janúar 2023. Kveðjuathöfn fór fram 17. janúar 2023.

Jarðarför verður frá Drangsneskapellu í dag, 4. febrúar 2023, klukkan 14.

Móðir mín Stína frá Hafnarhólmi er nú látin. Hún var alltaf brosandi og í góðu skapi. Ég man ekki eftir að hafa hitt á hana í vondu skapi. Hún kvartaði mjög sjaldan. Mamma var búin að eignast níu börn aðeins 29 ára en yngsta barnið fæddist eftir að við fluttum á Drangsnes 1969. Frá æsku minni minnist ég aðdraganda jólanna. Við þurftum að koma okkur snemma í bólið annars kom Grýla með pokann sinn. Mamma bakaði nefnilega alltaf á nóttunni, margar kökusortir. Sjálfsagt bakaði hún á nóttunni svo gríslingarnir borðuðu ekki jafnóðum. Svo var sett í box og límt fyrir. En boxin voru þó ekki alltaf full þegar þau voru svo opnuð því bræðurnir stóðust ekki freistinguna. Á Hafnahólmi bjuggum við til 2. nóvember 1968 en þá fluttum við í Hamar á Drangsnesi, sem bræður mínir höfðu keypt. Það var alltaf gestkvæmt hjá þeim hjónum og ekki minnkaði það þegar við fluttum. Alltaf fullt hús af krökkum, sérstaklega á kvöldin. Hamar var sem sé nokkurs konar félagsmiðstöð og gekk undir nafninu Glaumbær, þarna áttu þau góða tíma.

En áföllin voru rétt að byrja hjá þessari einstöku manneskju. Tveir synir drukknuðu með fimm mánaða millibili, annar ásamt besta vini pabba. Svo bara virtist þetta ætla að vera endalaust. Aldrei kvartaði hún, en sagði oft: „Enginn veit sinn næturstað,“ og „þetta er lífið“. Mamma var mjög trúuð. Eftir að hún flutti suður fór hún að gera ýmislegt sem hana hafði dreymt um. Hún fór til dæmis í kór, gönguhóp, handavinnuhóp og bæði í Kvenfélagið og bænahringinn í Seljakirkju. Á tímabili þurfti eiginlega að panta tíma ef maður vildi koma í heimsókn. Hún var alltaf að syngja hér og þar fyrir „gamla“ fólkið en henni fannst hún alltaf miklu yngri en þau. Síðastliðið sumar veiktist hún alvarlega og var um tíma á spítala, það var ekki gott fyrir hana því henni fannst hún vera í fangelsi. Hún varð eiginlega ósjálfbjarga á tímabili eða þangað til hún vissi að hún væri loksins komin með íbúð í Seljahlíð. Það var samt áfall að fara ekki heim í Æsufell og geta ekki valið hvað átti að fara með, heldur urðum við krakkarnir að gera það.

Í Seljahlíð undi hún hag sínum vel hjá góðu fólki og þar hitti hún fyrir gamla söngfélagann sinn, Jón Hilmar. Jón var henni einstaklega góður og sátu þau alltaf saman við borð í kaffitímum ásamt Snjólfi.

Í byrjun desember greindist hún svo með krabbamein. Því tók hún með æðruleysi eins og henni var lagið og sagði: „Úr einhverju verður maður að fara.“ Hún lést svo 3. janúar og var bara rúman hálfan sólarhring á spítala þann dag.

Gengin er einstök manneskja sem margir mættu taka sér til fyrirmyndar. Vonandi hittir hún manninn sinn og synina, en því trúði hún alla vega. Vonandi áttir þú góða heimkomu.

Stormur í fangið stendur

en stefnu held ég heim

og ekkert aftrar för á heimaslóð.

(EBÞ)

Takk fyrir samfylgdina í gegnum lífið mamma mín, þín dóttir,

Hanna.

Nú er komið að því að ég fylgi elsku tengdamóður minni til grafar. Þegar ég hugsa til baka finn ég fyrst og fremst fyrir þakklæti. Þakklæti fyrir Árna minn og Árna hennar. Hann var eins og hún svo yndislegur maður. Börnunum okkar var hann góður faðir og barnabörnunum dásamlegur afi.

Ég man vel okkar fyrstu kynni en aðra eins kjarnakonu hafði ég aldrei þekkt. Ég kynntist henni árið 1977 á að ég held erfiðustu tímum hverrar konu en þá hafði hún misst Loft son sinn. Áföllin áttu eftir að verða fleiri og get ég ekki ímyndað mér hvernig hún komst í gegnum lífið, alltaf jákvæð og alltaf sterk.

Hún eignaðist tíu börn og ól þau upp á Hafnarhólmi þar sem ég og fjölskylda mín njótum þess að dvelja á sumrin og getum varla trúað hvernig allir komust fyrir. Ég er heppin að hafa kynnst henni og eignast hana fyrir tengdamóður. Hún var líka yndisleg amma barna minna og langamma barnabarna minna.

Elsku Stína mín, það var alveg sama hvað gekk á í lífi þínu þú hélst alltaf áfram og lagðir allt í hendur drottins. Þú varst hjálpsöm og góð við alla og reyndist ungum sem öldnum algert yndi. Alger hetja.

Kveðja

Kristbjörg.

Nú kveð ég elsku ömmu Stínu og fylgi til grafar. Hún var ein sú besta sem ég hef kynnst. Mér fannst ég alltaf vera uppáhaldsbarnabarnið hennar, ekki bara af því ég var alnafna hennar heldur því hún sýndi því sem ég sagði og gerði mikinn áhuga. Ég var orðin þó nokkuð stálpuð þegar ég áttaði mig á því að þetta var ömmueðlið í henni. Hún var af flestum kölluð amma Stína og öllum leið alltaf eins og þau væru uppáhaldsbarnabarnið hennar. Hún var bara þannig af Guði gerð.

Tónlist og þá aðallega söngur var hennar ástríða. Eitt sinn var hún að reyna að muna lag og bað mig að hjálpa sér. Lagið héti Kreisí, kreisí. Ég áttaði mig alls ekki á hvaða lag hún var að tala um þótt hún hafi sungið það fyrir mig, en seinna kom í ljós að lagið var Amazing Grace og hún var að syngja það með kórnum sínum. Þetta er uppáhaldslagið mitt sagði hún. Þetta var alls ekki eina skiptið sem hún „mismælti“ sig. Orð eins og túll, volka, skinnflagningur, bjórfé og blómsturvasar koma í hugann þegar ég hugsa til baka. Hún hafði sem betur fer húmor fyrir orðsnilli sinni og nú vildi ég óska að ég hefði skráð eitthvað af þessu niður því flestu hef ég gleymt.

Það er svo dásamlegt núna þegar ég sit við og skrifa, að allt sem kemur upp í huga mér kveikir bros á vör. Mikið sem mér þykir vænt um minningarnar sem ég átti með henni og á um hana.

Mér er ofarlega í huga núna þegar ég var hjá henni í nóvember síðastliðnum að kvarta undan því að hafa ekki pabba til að hjálpa mér að standsetja íbúðina sem ég keypti mér. Amma, ef ég hefði pabba væri ég löngu flutt inn. Hún svaraði að bragði: Það þýðir ekkert að tuða yfir því, þú kemst inn.

Undir það síðasta vorum við farnar að gantast með það að nú væri hún búin að gleyma hverju hún gleymdi. Það fór smá í taugarnar á henni að muna ekki en samt gat hún talað um það í gamni sínu. Hún sýndi æðruleysi og trú í einu og öllu, í sorg og í gleði.

Minningarnar eru svo margar, öll símtölin, allt skutlið, allar kökurnar, allar heimsóknirnar svo ekki sé minnst á alla handavinnuna.

Hún var einstök amma og svo einstök manneskja og fáir hafa kennt mér jafn mikið og jafn vel á lífið. Hún vissi af eigin raun hve dýrmætt lífið er.

Elsku amma, takk fyrir allt og allt, ég elska þig alltaf, alltaf.

Þín

Ragna Kristín.