Steinar Berg Ísleifsson
Steinar Berg Ísleifsson
Steinar Berg: "Ábúendur í Fossatúni hafna því að vera neyddir til þátttöku í almennum samkeppnisrekstri á grundvelli lögfestrar skylduaðildar sinnar að veiðifélagi."

Þessi grein er skrifuð til að varpa ljósi á vinnubrögð stjórnsýslunnar og Alþingis Íslendinga. Hinn 26. október sl. féll dómur í máli 20/2022 í Hæstarétti. Þessi dómur markar lok málaferla okkar hjóna í Fossatúni við veiðifélag okkar og ef til vill upphaf endurskoðunar lax- og silungsveiðilaganna. Málaferlin stóðu yfir 12 ára tímabil. Voru kostnaðarsöm og hafa rýrt lífsgæði okkar umtalsvert. Þetta einfalda flókna mál hefur vakið athygli innan lögfræðinnar og er notað sem kennsluefni í Háskóla Íslands.

Í málinu var deilt um hvort Veiðifélagi Grímsár og Tunguár væri heimilt að reka veiðihús félagsins og/eða leigja til almenns gisti- og veitingarekstrar, utan skilgreinds veiðitímabils.

Við hjón í Fossatúni höfðum áður höfðað mál á hendur veiðifélaginu af sömu ástæðu. Hæstiréttur dæmdi okkur í vil í mars 2014. Í kjölfar dómsins fór formaður Landssambands veiðifélaga, Óðinn Sigþórsson, á fund landbúnaðarráðherra og hélt því fram að Hæstarétt hefði skort lagaheimildir og komist að rangri niðurstöðu sem skapaði réttaróvissu. Ráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsson, fól Óðni að semja lög til ógildingar niðurstöðu Hæstaréttar. Undirbúningur og gerð laga nr. 50/2015 var laumuspil. Önnur sjónarmið en hagsmunaaðilans sniðgengin. Því haldið fram að um minniháttar tímabæra uppfærslu væri að ræða. Ástæðulaust þótti að kanna hvort lögin samræmdust stjórnarskrár- eða mannréttindaákvæðum eða hefðu áhrif á ríkissjóð. Útsendar beiðnir til umsagna um lögin voru takmarkaðar og ekki sendar neinum sem kynnu að setja fram gagnrýnar athugasemdir. Í atkvæðagreiðslu fylgdu þingmenn svo blint niðurstöðu atvinnuveganefndar sem hafði fengið innrætingu frá landbúnaðarráðuneytinu, sem hlýddi fyrirmælum Landssambands veiðifélaga, fulltrúa veiðifélagsins sem tapaði málinu í Hæstarétti. Lýðræðið eins og það á að virka?

Í niðurstöðu Hæstaréttar frá 26.10. sl. er farið ofan í vinnubrögð Alþingis við lagasetninguna og komist að niðurstöðu:

„Við breytingar á verkefnum veiðifélaga með lögum nr. 50/2015 sinnti löggjafinn því ekki stjórnskipulegri skyldu sinni til að meta hvort lagasetningin rúmaðist innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur.“

Í stjórnarskránni er kveðið á um að engan megi skylda til aðildar að félagi. Undantekning getur komið til vegna sameiginlegra hagsmuna. Skylduaðild að veiðifélögum var lögfest 1970 á grundvelli náinna eigna- og hagsmunatengsla. Helsta markmið: að verja sjálfbærni í fiskrækt, skipta arði og gæta hagsmuna allra aðildarfélaga.

Við, ábúendur í Fossatúni, teljum að veiðifélag skuli rækja hlutverk sitt til að ná því markmiði sem stefnt var að með löggjöf og skylduaðildinni var ætlað að tryggja. En veiðifélag geti ekki víkkað út starfsemi sína t.d. til almenns samkeppnis- og áhætturekstrar nema með samþykki allra aðildarfélaga.

Veiðifélagið er ekki handhafi neins konar eignarréttarheimilda heldur teljast sjálfstæðar eignir félagsins tilheyra einstökum félagsmönnum í samræmi við hlutdeild þeirra í félaginu á grundvelli arðskrár. Þetta er sambærilegt við fjöleignarhús sem er í eigu íbúðareigenda en ekki húsfélags.

Ábúendur í Fossatúni hafa alla tíð þrifist á samkeppnismarkaði og myndu fagna heilsársrekstri sveitahótels í veiðihúsinu. Slíkur rekstur hljóti að vera á forsendum áætlaðra hagsmuna og frjálsrar ákvörðunartöku aðstandenda rekstursins. Ábúendur í Fossatúni hafna því að vera neyddir til þátttöku í áhættufjárfestingu og/eða almennum samkeppnisrekstri á grundvelli lögfestrar skylduaðildar sinnar að veiðifélagi. Slík ákvörðun er líkleg til að skerða arðsemi laxveiðitekna aðildarfélaga.

Við Fossatúnshjón fréttum fyrst af lagagjörningi Alþingis til höfuðs okkur í mars 2016 tæpu ári eftir að lögin voru samþykkt. Eftir nokkra umhugsun ákváðum við að una ekki við augljós bellibrögð. Að leggja í aðra leiðinda- og kostnaðarsama píslargöngu í gegnum réttarkerfið. Bæði Héraðsdómur Vesturlands og Landsréttur fóru grunnt ofan í málið og dæmdu okkur í óhag. Röksemdafærsla beggja var: Það er löglegt að þjónusta veiðimenn á laxveiðitíma með fæði og húsnæði. Alþingi hefur sett lög um að veiðifélög megi einnig stunda veitinga- og gistirekstur utan laxveiðitímans. Það hlýtur því að vera löglegt.

Hæstiréttur fór dýpra ofan í málið: „Sé löggjöf til þess fallin að takmarka mannréttindi ber dómstólum að meta hvort löggjafinn hafi gætt sjónarmiða um meðalhóf, jafnræði og skýrleika lagaheimilda.“

Hæstiréttur komst einnig að þeirri efnislegu niðurstöðu að Veiðifélag Grímsár og Tunguár „hafi ekki sýnt fram á að útleiga veiðihússins að Fossási utan skilgreinds veiðitímabils til almenns gisti- og veitingarekstrar feli í sér nýtingu og ráðstöfun á eignum félagsins með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn og að hún teljist nauðsynleg til þess að félagið geti náð þeim markmiðum sem skylduaðild að því er ætlað að tryggja“.

Niðurstaða Hæstaréttar er ítarlegur, vandaður og fordæmisgefandi tímamótadómur. Tekið er efnislega á málinu og óvönduð lagasetning Alþingis sett í pappírstætarann. Eftir stendur: Misnotar Alþingi löggjafarvaldið reglulega í þágu hagsmunaaðila? Hver er ábyrgð Alþingis, komist dómstólar að slíkri niðurstöðu?

Höfundur er ferðaþjónustubóndi. steinar@fossatun.is

Höf.: Steinar Berg