Um aldir hefur fátækt oft borið á góma. Efnahagur þjóðarinnar hefur verið misgóður enda Ísland lengi vel talist á mörkum hins byggilega heims. En veraldlegum efnum hefur oftast verið mjög misskipt og er enn.
Þegar skoðuð eru viðhorf íslenskra stjórnmálamanna í dag þá eru þau mjög misjöfn. Þingmenn hægriflokkanna, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks, hafa haft fremur takmarkaðan skilning á stöðu láglaunafólks en þeim mun meiri áhuga á að skara betur að hagsmunum þeirra sem betur standa í samfélaginu. Því miður hefur skattbyrði láglaunafólks þannig verið þyngd verulega á undanförnum áratugum svo þess verður að minnast. En hefur það alltaf verið svo?
Ritstjórar Þjóðviljans áttu oft í persónulegum deilum við einn af ritstjórum Morgunblaðsins, Eyjólf Konráð Jónsson, sem lengi var þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann var uppnefndur Eykon og þætti það vart viðeigandi í dag. Eyjólfur var einkum þekktur fyrir einarða afstöðu sína í málefnum sem varða einstaklinginn og stöðu hans í samfélaginu. Má vísa til rita Eyjólfs, sem skrifuð voru á kjarngóðu máli um nauðsyn þess að sem flestir ættu þess kost að taka þátt í rekstri samfélagsins. Í ritum sínum eins og „Alþýða og athafnalíf“ hvatti hann til að almenningur festi sparnað sinn í hlutabréfum. Með því að verja sparnaði sínum til kaupa á hlutabréfum tækju fleiri þátt í starfi í þágu alls samfélagsins og settu sig inn í rekstur fyrirtækja, sem öllum væri hollt.
Á dögunum hnaut ég um eina af greinum hans sem birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 1986: „Um fátækt á Íslandi og heimatilbúna kreppu“. Greinina má finna á https://timarit.is/files/58486852 Þessi grein ætti að vera skyldulesning allra þingmanna í dag, þar eru margar góðar og áhugaverðar ábendingar sem vert er að hafa í huga í samfélaginu. Eyjólfi er mikið niðri fyrir og bendir á að misskipting gæða gangi ekki endalaust. Það verði að tryggja hag allra, ekki einungis þeirra sem betur mega sín.
Eyjólfur spyr: „Hvers vegna er heil kynslóð nánast á gjaldþrotabarmi, sú besta, sem Ísland hefur alið?“ Hann bendir á hvernig unnt er að bæta úr. Þetta eru allt öðruvísi viðhorf en nú eru uppi í Sjálfstæðisflokknum, þar sem auðvelda á sem mest eignasöfnun þeirra sem hafa meira en nóg milli handanna af veraldlegum auði.
Ég verð að viðurkenna að viðhorf þessa ritstjóra og síðar þingmanns breytti mörgu hjá mér. Fyrir þrjátíu árum hóf ég að leggja sparnað minn í kaup á hlutabréfum. Um tíma var ég orðinn ágætis efni í kapítalista og í byrjun þessarar aldar var ég farinn að fá meira fé í arð en það sem ég hafði aflað með venjulegri launavinnu. Haustið 2008 hvarf megnið af þessum sparnaði mínum í hendurnar á bröskurum sem margir hverjir höfðu komið misjafnlega vel fengnu fé undan í aflandsfélög og leynireikninga. Hefur ekkert spurst til þessara fjármuna síðan.
Oft hefi ég hugsað út í það hverjar skoðanir og viðhorf Eyjólfs Konráðs væru til hrunsins hefði hann lifað þetta einkennilega tímaskeið. Sjaldan hefur venjulegt fólk tapað jafn miklu, á meðan fáir þénuðu á kostnað fjöldans. Hrunið hafði gríðarleg áhrif á hag nánast allra; sumir græddu en flestir sátu uppi með vaxandi skuldir sem ekki allir gátu staðið undir. Eignatilfærsla í samfélaginu var mjög mikil með bankahruninu.
Síðsumars 2008 lék allt í lyndi, ráðherrar ferðuðust alla leið til Kína, einungis í þeim tilgangi að fylgjast með handbolta. Það var eins og enginn hefði nokkurn hug á að koma í veg fyrir það mikla tjón sem varð þá um haustið, einungis nokkrum vikum áður. Innsti hringur Sjálfstæðisflokksins vissi í febrúar 2008, hálfu ári fyrir hrunið, að bönkunum væri ekki unnt að bjarga. Ekkert var gert og er þó öllum sem málið varðar skylt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að draga sem mest úr tjóni. Ekkert var aðhafst þrátt fyrir mikla ábyrgð. Þáverandi fjármálaráðherra var dýralæknir að mennt. Áleitin spurning er hvort slík menntun leiði til góðs árangurs í stjórnmálum. Það er allavega stór spurning hvaða erindi dýralæknar eiga á þing og jafnvel í ríkisstjórn.
2008 var Íslandi illa stýrt, já virkilega illa stýrt. Unnt hefði verið að draga verulega úr þessum mikla vanda með hæfari og betri stjórnmálamönnum en við sátum uppi með.
Höfundur er tómstundablaðamaður, leiðsögumaður og eldri borgari í Mosfellsbæ. arnartangi43@gmail.com