Gísli Óskarsson fæddist 27. apríl 1947. Hann andaðist 17. janúar 2023. Útför fór fram 30. janúar 2023.
Það er Fossavatnsganga á Ísafirði. Göngunni er lokið og við erum staddir á Góustöðum, gamla sveitabýlinu sem var bækistöð okkar þessa Fossavatnshelgina. Við fáum heimsóknir frá göngufélögunum sem kíkja inn til gamans að ræða upplifunina af þessari Fossavatnsgöngu. Í þessum hópi er maður sem við höfðum ekki séð áður en fangar augað. Hann er blóðugur á nefi og enni. Kveðst hafa dottið í göngunni en þetta séu nú bara smámunir. En gangan hafi verið skemmtileg og síðan lýsir hann því glaðbeittur hvernig hann hafi fengið þessar „skrámur“. Við undrumst æðruleysi þessa glaðbeitta manns en hrífumst eiginlega meira af því hvað hann er skemmtilegur og gerir þessa stund sérstaklega líflega og eftirminnilega.
Þetta voru fyrstu kynni okkar af Gísla Óskarssyni. Það má segja að upp frá þessu hafi Gísli verið vinur okkar og alltaf þegar mætt var í Íslandsgöngurnar, hvort sem þær voru á Ísafirði eða annars staðar, þá var tilhlökkun að hitta Gísla, „vonandi mætir Gísli“ hugsuðum við. Og Gísli var býsna duglegur að sækja göngurnar, naut þessarar skemmtilegu íþróttar ekkert síður en við og alltaf var hann hrókur alls fagnaðar, allir hlýddu á sögurnar hans og gamanmálin og hlógu með.
Okkur brá þegar við heyrðum af andláti Gísla og við komum til með að sakna þess mikið að hitta hann ekki lengur í skíðasportinu. En minning um góðan og skemmtilegan dreng lifir.
Um leið og við færum Borgu, eins og Gísli kallaði ávallt konu sína, og öðrum skyldmennum og venslafólki innilegar samúðarkveðjur erum við þess fullvissir að bróðurparturinn í stóru skíðafjölskyldunni hugsar á sama veg og við.
Það verður mikið fjör og þeir eru eiginlega allt að því öfundsverðir sem hitta nú Gísla fyrir í sumarlandinu. Hann verður sjálfsagt sami fjörkálfurinn og foringinn þar og annars staðar. Með þessum orðum viljum við minnast og kveðja gleðipinnann Gísla Óskarsson.
Þórhallur J. Ásmundsson,
Þóroddur F. Þóroddsson.