Árið 1947 stóð ungur maður á tröppum Háskólans og hugleiddi, eins og svo margir höfðu gert á undan honum, hvað hann ætti að taka sér fyrir hendur. Hann var ættaður vestan úr Dölum, hávaxinn, grannur og dökkhærður. Hann hafði stundað nám í Reykjavík í tíu ár og var nú orðinn lögfræðingur. Þrátt fyrir að hafa fengið freistandi atvinnutilboð í höfuðstaðnum saknaði hann átthaganna og langaði að hverfa þangað aftur. Hann starfaði þó í nokkur ár sem fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík og var einn vetur settur bæjarfógeti í Siglufirði. Þá sótti hann lögregluskóla í Bandaríkjunum. Alltaf langaði hann þó heim og sá draumur rættist er hann var skipaður sýslumaður í Dalasýslu átta árum eftir að hann hafði velt vöngum yfir framtíðinni á tröppum Háskólans. Ungi maðurinn var Friðjón Þórðarson og hann átti eftir að gegna ótal trúnaðarstörfum, fyrst sem sýslumaður en síðar sem alþingismaður Vestlendinga og ráðherra.

Þannig hófst viðtalsgrein Kjartans Magnússonar, þá blaðamanns Morgunblaðsins, við Friðjón Þórðarson, fyrrverandi sýslumann, alþingismann og ráðherra, í blaðinu 11. maí 1997, undir fyrirsögninni „Dómsmálaráðherrann úr Breiðafjarðardölum“. Hann var þá að minnka við sig störf fyrir heimabyggðina en sagðist í viðtalinu ekki sjá eftir að hafa horfið aftur vestur eftir að hafa numið og forframast í Reykjavík forðum daga.

Friðjón faðir okkar var fæddur á Breiðabólsstað á Fellsströnd 5. febrúar 1923. Foreldrar hans eru Þórður Kristjánsson, bóndi og hreppstjóri þar, og kona hans Steinunn Þorgilsdóttir kennari. Á morgun, sunnudag, verða liðin 100 ár frá fæðingu hans og minnist fjölskyldan þeirra tímamóta.

Pabbi gekk í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1941. Lagði síðan stund á lögfræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan embættisprófi 1947. Veturinn 1949 til 1950 var hann í náms- og kynnisdvöl við aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York og við ríkislögregluskólann í New Haven í Connecticut í Bandaríkjunum.

Að loknu laganámi varð pabbi fulltrúi borgardómarans í Reykjavík og síðar lögreglustjórans í Reykjavík á árunum 1947 til 1955 og var þá oft settur lögreglustjóri um skamman tíma. Hann var settur bæjarfógeti um tíma á Akranesi og síðar á Siglufirði en var skipaður sýslumaður í heimahéraði sínu, Dalasýslu, 1955 og gegndi því starfi til 1965 er hann flutti sig um set og varð sýslumaður í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu um tíu ára skeið. Við lok starfsævinnar varð hann á ný sýslumaður í Dalasýslu, árin 1991 til 1993. Pabbi tók við embættinu í Dalasýslu fyrra sinnið af Þorsteini Þorsteinssyni Dalasýslumanni sem gegnt hafði því í 35 ár.

Hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa í héraði og á landsvísu, sat meðal annars í bankaráði Búnaðarbanka Íslands 1960 til 1993 og var formaður um tíma.

Pabbi var fyrst í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Dalasýslu við kosningarnar 1953, þrítugur að aldri. „Mig minnir að Þorsteinn Þorsteinsson hafi fyrstur ámálgað það við mig að ég færi fram og síðar Bjarni Benediktsson (utanríkis- og dómsmálaráðherra, síðar formaður Sjálfstæðisflokksins). Þorsteinn var þá sýslumaður og þingmaður. Það þýddi nú ekkert annað en hlýða þessum höfðingjum þannig að ég sló bara til. Ég vildi líka gjarnan gera eitthvað fyrir mitt hérað og sá að þarna var spennandi tækifæri til þess. Ég náði ekki kjöri og rifjaði það þá upp, sem góðir menn höfðu sagt, að það væri öllum hollt að falla í fyrsta sinn. Það myndi bara ganga betur næst,“ sagði Friðjón í áðurnefndu viðtali við Morgunblaðið.

Pabbi náði kjöri 1956 og sat til vors 1959. Hann var í framboði í Vesturlandskjördæmi í næstu kosningum og sat um tíma sem varamaður á Alþingi. Hann var síðan kjörinn þingmaður 1967 og sat samfleytt til vors 1991. Hann sat á alls 30 þingum. Hann átti lengi sæti í fjárveitingarnefnd og var virkur í alþjóðlegu samstarfi Alþingis.

Í hinni sögulegu stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens í febrúar 1980 varð pabbi dóms- og kirkjumálaráðherra og jafnframt samstarfsráðherra um norræn málefni. Gegndi hans ráðherrastörfum fram í maí 1983.

Pabbi hafði góða söngrödd og varð þjóðþekktur með kvartettinum Leikbræðrum á sjötta áratug síðustu aldar og söng síðar með eldri félögum Karlakórs Reykjavíkur. Auk þess var hann fimur við vísna- og ljóðagerð.

Pabbi vann mikið í þágu íbúa síns gamla heimahéraðs, þar sem hann átti raunar lengi annað heimili, og hélt þeim störfum áfram eftir að hann lét af föstum störfum. Hann var formaður Eiríksstaðanefndar sem hafði forgöngu um rannsóknir og uppbyggingu á Eiríksstöðum í Haukadal og vann síðar að safni um Leif Eiríksson og Sturlu sagnaritara Þórðarson í Búðardal.

Pabbi var formaður Breiðafjarðarnefndar en verkefni hennar var að stuðla að verndun Breiðafjarðar, einkum landslags, jarðmyndana, lífríkis og menningarminja en þessi málefni voru honum sérstaklega hugleikin.

„Friðjón Þórðarson átti traustu fylgi að fagna á þingmannsferli sínum. Hann var fylginn sér, en jafnan prúður í málafylgjunni,“ sagði Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, þegar hún minntist Friðjóns á þingfundi 15. desember 2009 en Friðjón dó daginn áður, á 87. aldursári.

Pabbi kvæntist Kristínu Sigurðardóttur 1950. Hún lést 1989. Börn þeirra eru Sigurður Rúnar, Þórður (látinn), Helgi Þorgils, Lýður Árni, Steinunn Kristín. Seinni kona hans var Guðlaug Guðmundsdóttir húsmóðir sem lést 2011.

Sigurður Rúnar Friðjónsson

og systkini.