Sigríður Stefanía Sívertsdóttir Hjelm (Bebba) fæddist 30. ágúst 1939. Hún lést 18. desember 2022. Sigríður var jarðsungin 10. janúar 2023.

Ég kynntist Bebbu fljótlega eftir að ég byrjaði með Sigríði Heiðu konunni minni fyrir góðum fjórum áratugum enda var hún konan hans Braga tengdapabba. Við Sigga fórum í heimsókn og ég verð nú að viðurkenna að ég var nett stressaður. Sigga kynnti mig fyrst fyrir pabba sínum með hefðbundnum hætti, handabandi. Síðan kynnti hún mig fyrir Bebbu sem sagði strax: „Guð hvað þú ert sætur, komdu og sestu hérna hjá mér.“ Síðan var spjallað um heima og geima eins og henni einni var lagið. Það var eins og við hefðum lengi þekkst.

Bebba var falleg kona og mér fannst hún líka sæt en hafði aldrei orð á því öfugt við hana sem hikaði aldrei við að segja það sem henni fannst. Að því leyti var hún eins og konan mín en þær hafa báðar haft orð á sér fyrir að vera kannski aðeins of hreinskilnar. Bebba var í mínum huga svolítill hippi í sér, gerði hlutina eftir sínu nefi og hikaði ekki við að fara sínar eigin slóðir sem fáir hefðu fetað.

Ein skemmtileg saga af Bebbu kemur upp í hugann sem sýnir hvernig hún tók á hlutunum á óhefðbundinn hátt. Hún hafði komið að konunni minni ungri að árum að reykja en var ekkert að skammast yfir því. Þegar pabbi konunnar minnar kom heim stuttu seinna sagði hún: „Bragi minn, hún Sigga er byrjuð að reykja,“ bauð henni sígarettu og kveikti í. Sígarettan sú var sú bragðversta sem konan mín hafði reykt enda undir þungbúnu augnaráði föður síns.

Ég vissi út undan mér að lífið hennar Bebbu hafði ekki alltaf verið dans á rósum en þegar lífshlaup hennar kom út á prenti í sögunni frábæru, Tvísaga, sem Ásdís Halla dóttir hennar ritaði, kom ótrúlega margt fram sem maður hafði ekki hugmynd um. Við lestur sögunnar jókst virðing mín fyrir þessari frábæru konu og maður skildi ekki hvernig hún komst fram úr sumu af því sem hafði hent hana á lífsleiðinni.

Kæra Bebba, þakka þér kærlega fyrir samfylgdina í gegnum lífið.

Með kveðju góðri,

Ágúst (Gústi).