Jón Kristinn Ríkarðsson fæddist í Reykjavík 7. janúar 1943. Hann lést 6. janúar 2023 á Hrafnistu í Kópavogi.

Foreldrar hans voru Jóna Davíðey Kristinsdóttir, f. 12. október 1924 í Reykjavík, d. 15. maí 2001, og Ríkarður Jóhannes Jónsson, f. 21. desember 1920 í Reykjavík, d. 8. ágúst 1991.

Alsystir Jóns er María, f. 29. október 1944.

Systkini sammæðra eru Kristín, f. 1948, Sigfús Örn, f. 1949, Hrafnhildur, f. 1953, og Árni Már, f. 1959.

Jón kvæntist 26. mars 1967 Guðmundu Önnu Eyjólfsdóttur, f. í Ólafsvík 1. maí 1945, d. 11. febrúar 2018. Foreldrar hennar voru Anna Guðfinna Þórðardóttir, f. 16. maí 1904 í Borgarholti í Eyja- og Miklaholtshreppi, d. 11. september 1982, og Eyjólfur Jóhann Snæbjörnsson, f. 16. október 1906 í Ólafsvík, d. 4. október 1983.

Sonur Jóns er Ævar Þór, f. 13. september 1964, barnsmóðir Sigurbjörg M. Helgadóttir, f. 1941.

Börn Jóns og Guðmundu eru: 1) Snæbjörg, f. 22. janúar 1968, eiginmaður hennar er Sigurður Nordal, f. 19. febrúar 1956. Börn þeirra eru Dóra, f. 1993, gift Eli Toews, f. 1991, Anna, f. 1996, í sambúð með Skylar Townrow, f. 1994, og Guðjón Ólafur, f. 1997. 2) Gróa Rósinkransa, f. 10. mars 1971, eiginmaður hennar er Ragnar Kristinn Ingason, f. 7. janúar 1969. Börn þeirra eru: Ríkarður Jón, f. 1992, í sambúð með Elínu Helgu Björnsdóttur, f. 1995, Bjarki Steinn, f. 1994, og Sæunn Elín, f. 1996, í sambandi með Manuel Luna. 3) Erlingur, f. 10. október 1975, eiginkona hans er Íris Ósk Blöndal, f. 1. október 1977. Börn þeirra eru Guðmundur, f. 2014, og Þórhildur Arna, f. 2019.

Jón ólst upp í Reykjavík hjá föðurömmu sinni, Gróu Rósinkrönsu Jóhannesdóttur, f. 25. febrúar 1890, d. 30. desember 1964, frá þriggja ára aldri. Að loknu gagnfræðaprófi vann Jón ýmis störf til sjós og lands. Hann hóf störf hjá Landsbanka Íslands árið 1967 og vann þar lengstan hluta starfsævi sinnar. Á þeim árum fluttu Jón og Guðmunda til London, þar sem Jón lagði stund á nám í alþjóðagjaldeyrisviðskiptum hjá Scandinavian Bank. Síðustu starfsárin vann Jón við gæðastjórnun og eftirlit hjá Hlaðbæ Colas.

Útför Jóns fór fram frá Digraneskirkju 17. janúar 2023.

Í Jónshúsi mátti oftast finna hann afa minn þar sem hann sat með kaffibolla við dökkbrúna skrifborðið sitt og vann við tölvuna. Jónshús var þó ekki hús eins og nafnið gefur til kynna heldur lítið skrifstofuherbergi þar sem afi geymdi bækurnar sínar, myndverk eftir langafa og innrammaðar fjölskyldumyndir. Það fór ekki mikið fyrir honum afa mínum. Hann hélt sig yfirleitt til hlés, sótti í rólegheit og sagði lítið. En þótt það hafi farið lítið fyrir honum þá var hann okkur alltaf sýnilegur. Við öll tilefni þar sem fjölskyldan kom saman mátti sjá afa, hvort sem um heimsóknir, ferðalög eða matarboð var að ræða. Öll æsku- og fullorðinsár mín eru því lituð af minningum af honum og elskulegri ömmu minni. Við afi og amma áttum margar góðar stundir saman og sótti ég mikið í félagsskap þeirra. Það er því sárt að hugsa til þess að þau séu nú bæði farin.

Á aðfangadegi jóla mættu afi og amma alltaf heim í veislu og héldu upp á jólin með okkur. Um hver jól tók ég á móti þeim í anddyrinu heima þar sem þau stóðu hátíðleg í sparifötunum sínum. Þegar þau mættu var búið var að kveikja á kertaljósum, hátíðarhljómar heyrðust í útvarpinu og húsið lyktaði af dýrindis jólamat. Afi og amma báru alltaf með sér gæfu og velvilja. Síðastliðin jól voru þó með öðru sniði en þau áður hafa verið því afi var búinn að vera veikur. Við heimsóttum afa á jóladag og áttum með honum yndislegar stundir. Áður en við lögðum af stað heimleiðis óskaði ég honum gleðilegra jóla og kvaddi hann eins og forðum daga í Jónshúsi, með knúsi og kossi á kinn. Hann brosti til mín og óskaði mér gleðilegra jóla sömuleiðis. Þær óskir voru hans hinstu orð til mín.

Amma og afi

Það eru jólin amma og afi eru hjá okkur

við borðum jólamat namm

Seiir amma altíeinu

nú opnum við pakkana

amma, afi pabbi og mamma voru lengi að borða

Við erum búin að opna pakkana

nú kveðjum við ömmu og afa bles

(Sæunn Elín 6-9 ára)

Sæunn Elín

Ragnarsdóttir.