Magnús Guðjónsson fæddist á Reykjum í Vestmannaeyjum 24. janúar 1929. Hann lést á Dvalarheimilinu Hraunbúðum 23. janúar 2023.
Hann var sonur hjónanna Guðjóns Jónssonar skipstjóra, f. 10. febrúar 1892 á Selalæk á Rangárvöllum, d. 14. maí 1967, og Bergþóru Jónsdóttur, f. 10. október 1894 í Bakkakoti undir Austur-Eyjafjöllum, d. 20. desember 1989. Þau hjónin fluttu til Vestmannaeyja árið 1920. Þar ólst Magnús upp ásamt systkinum sínum í húsi sem faðir hans reisti við Vestmannabraut og nefnist Reykir.
Systkini Magnúsar voru níu: Jón Óskar, f. 26.6. 1917, d. 25.4. 1940, Guðmundur, f. 9.2. 1920, d. 5.8. 2008, Þórhallur Ármann, f. 8.2. 1921, d. 4.5. 1921, Jóhanna, f. 5.6. 1922, d. 26.6. 2017, Guðbjörn, f. 14.4. 1924, d. 24.4. 2012, Þorleifur, f. 23.6. 1926, d. 24.11. 1974, Þórhallur Ármann, f. 27.10. 1931, Lilja, f. 10.4. 1933, d. 3.1. 1941, og Haukur, f. 13.3. 1938.
Magnús kvæntist Sif Edith Skorpel Jóhannesdóttur, f. 7. júlí 1934, d. 3. apríl 2018, hinn 24. desember 1954. Börn þeirra eru: 1) Jón Grétar, f. 28.6. 1955, maki Guðrún Ingibjörg Gylfadóttir, f. 16.11. 1966. Börn hennar eru a) Birgir Karel Johnsson, f. 1993, maki Krystal Xu. Dóttir þeirra er Astrid Xu. b) Þóra Guðrún Johnsdóttir, f. 1995, maki Friðrik Ingi Óskarsson. Börn þeirra eru Embla Guðrún og Máney Ósk. 2) Jóhanna Elísa, f. 2.5. 1961, maki Karl Logason, f. 28.6. 1962. Börn þeirra eru a) Helga, f. 1988, maki Magnús Ágúst Magnússon. b) Erla Sif, f. 1991. c) Bergþóra, f. 1999.
Magnús hóf snemma þátttöku á vinnumarkaðnum. Fyrst í stað ýmis störf en lengst af við gosdrykkjaframleiðslu hjá Efnagerð Vestmannaeyja. Magnús eignast sinn fyrsta vörubíl árið 1946 sem var Ford árgerð 1941 og fékk skömmu síðar inngöngu í Bifreiðastöð Vestmannaeyja (BSV). Þar gerði hann út vörubifreið sína í 47 ár. Magnús gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bílstjórana, var m.a. stjórnarformaður BSV í 28 ár. Síðustu 11 ár starfsævi sinnar vann hann hjá útgerð mb. Guðrúnar við að skera af netum og fella net á teina auk þess að aka vörubifreið útgerðarinnar.
Útför Magnúsar fer fram frá Landakirkju í dag, 4. febrúar 2023, kl. 13.
Kæri afinn minn. Ég sakna þín og mun ávallt gera, enda varstu mér mjög góður. Það sem huggar mig þó er að vita til þess að þú ert núna eins sterkur, orkuríkur og þrautseigur og þú ávallt varst.
Þú kenndir mér margt um hversu sterkum vinaböndum hægt er að tengjast dýrum. Hversu hrein sú ást er. Hvernig þú gast tengst öllum dýrum með væntumþykju og stöðugleika. Mér verður hugsað til þess þegar kindurnar komu hlaupandi þegar þú kallaðir, glaðar að sjá þig.
Þú varst einstakur í því að sjá fegurðina í hlutum sem aðrir álitu gagnslausa. Varst duglegur að tjá þig um þessa fegurð og reyna að fá aðra að sjá hana.
Þú varst einstaklega fjölskyldurækinn maður. Ást þín til mín var aldrei vafaatriði, eins og ég vona að þú hafir fundið að ég endurgalt hana.
Þitt kæra barnabarn,
Helga.
Móðir mín, Jóhanna Guðjónsdóttir, og Maggi bróðir hennar voru alltaf mjög samrýnd eins og öll systkinin frá Reykjum. Það var því oft þegar ég var krakki að þegar einhver bræðranna úr Eyjum átti erindi til Reykjavíkur að gist var hjá Jóhönnu systur og þá hlökkuðu allir til að fá þá góðu gesti.
Hluta úr mörgum sumrum fékk ég að vera hjá Beggu ömmu á Reykjum. Ekki leið sá dagur að Maggi liti ekki við og mér er alltaf minnisstætt hvissið í handbremsunni þegar Maggi lagði vörubílnum í Vestmannabrautinni og birtist síðan brosandi í eldhúsinu. Ósjaldan fékk ég svo að sitja í þegar Maggi var í hinum ýmsu verkefnum á vörubílnum, s.s. í löndun eða að keyra vatn í brunnana við íbúðarhúsin í Eyjum áður en vatnsveitan kom. Á þjóðhátíð var vörubílnum breytt í bekkjabíl og þegar ég hafði aldur til fékk ég að vera á pallinum og rukka fargjaldið og þótti það heilmikil upphefð hjá peyjunum í Eyjum.
Þegar mér bárust fréttir af andláti Magga var ég einmitt að lesa nýlega góða bók með frásögn lögreglumanns af gosinu í Eyjum. Við þann lestur rifjuðust upp margar sögur Magga af því sem á gekk á gostímanum. Það var oft sem setið var við eldhúsborðið á Illugagötunni með sínu góða útsýni eða við eldhúsborðið á Reykjum að farið var yfir þær ótrúlegu aðstæður sem björgunarmenn í gosinu upplifðu og Maggi var einn af þeim. Í þeim stuttu fríum sem hann tók frá björgunarstörfum var hann mikið hjá okkur og fréttum við þá frá fyrstu hendi hvernig aðstæður voru í Eyjum. Það var líka margur bíltúrinn sem við Maggi fórum í saman þegar útrétta þurfti á höfuðborgarsvæðinu, í þessum fríum, þar sem hann var með bílprófið en ég átti að rata.
Nú þegar komið er að leiðarlokum hjá mínum kæra frænda Magga á Reykjum, þá fyllist hugur minn af óendanlegu þakklæti fyrir allar góðu samverustundirnar og allt það góða sem hann gerði fyrir mig og mína fjölskyldu á lífsleiðinni.
Ég sendi Jóni Grétari, Jóhönnu Elísu og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Guðjón Þór Victorsson og fjölskylda.
Blessuð sé minning Magga frá Reykjum.
Vigdís og Sigurður.
Ég var mjög ungur þegar ég fékk að sitja í rauða Ford-vörubílnum með Magga frænda sem mér þótti mjög spennandi þar sem lítið var um einkabíla í Eyjum á þessum tíma. Magnús starfaði á Bifreiðastöð Vestmannaeyja frá 17 ára aldri allt til ársins 1993 og gegndi formennsku í félaginu til margra ára. Eftir að Magnús hætti hjá BSV réðst hann í vinnu hjá okkur í Nethamri þar sem hann sá um netaviðgerðir og akstur. Það var enginn svikinn af vinnubrögðunum hans Magga, enda erfitt að finna vandvirkari mann en hann starfaði hjá Nethamri til 75 ára aldurs.
Í gosinu reyndi mikið á starfskrafta Magga. Hann sagði mér frá því að þegar allir voru að yfirgefa Eyjuna gosnóttina miklu hefði Einar Bjarnason, yfirlæknir á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja og nágranni Magga, haft samband við sig. Einar bað hann að vera eftir í Eyjum og hjálpa til við að flytja sjúklinga og aldraða upp á flugvöll. Þar sem Maggi var með kranabíl, sem ekki voru margir í Eyjum, var hann einnig beðinn að aðstoða við að flytja veiðarfæri í bátana sem voru að undirbúa loðnu- og vetrarvertíð. Þrátt fyrir þetta mikla áfall sem gosið var þurfti nauðsynlega að halda áfram og koma skipunum á sjó. Eftir 15 daga vinnutörn þar sem unnið var daga og nætur ætlaði hann að skreppa upp á land og heimsækja fjölskyldu sína en eftir aðeins tvo daga var haft samband við Magga og hann beðinn að koma aftur heim til Eyja þar sem verkefnin gengju ekki eins vel í fjarveru hans.
Maggi kynntist Edith einkonu sinni þegar hún flutti til Vestmannaeyja. Edith var frá Þýskalandi og kom til Eyja með togaranum Neptúnusi árið 1952 og var hún búin að ráða sig í vist til að passa Helgu, dóttur Irmu og Hallbergs á Steinsstöðum. Maggi og Edith bjuggu alla tíð í Eyjum og eignuðust tvö börn, Jón Grétar og Jóhönnu Elísu.
Maggi var mikill Vestmannaeyingur og vildi hvergi annars staðar vera. Hann var einnig mikill bóndi í sér og var alla tíð með fjárbúskap með fjölskyldunni á Reykjum og seinna Dallasbændum.
Síðustu árin kom hann alltaf í kaffi á morgnana til okkar í Nethamri og fannst gott að byrja daginn á því að hitta aðra fastagesti kaffistofunnar og fengum við að heyra margar skemmtilegar og áhugaverðar sögur sem hann átti nóg af.
Að leiðarlokum minnist ég Magga frænda með miklum hlýhug og vil þakka fyrir vináttuna og samveruna í gegnum tíðina.
Guðjón R. Rögnvaldsson.