Friðþjófur Sigurðsson 20. júlí 1924. Hann lést 15. janúar 2023.

Útför hans fór fram 26. janúar 2023.

Leiðir okkar Friðþjófs lágu saman 1975 er hann fór að vera tíður gestur á Öldugötunni í boði mömmu. Tók ég honum heldur fálega og hafði mínar efasemdir um að þetta væri rétti maðurinn fyrir mömmu. Hann sagðist vera byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar en minnti meira á Clint Eastwood og ók um á Dodge Dart!

Honum fylgdi lítil rauðhærð stúlka, Gunnvör, og var henni yfirleitt komið fyrir hjá mér og gerði ég mitt besta til að kynna henni meistara Bowie. En ástin blómstraði þrátt fyrir heimaríkan ungling. Eftir því sem ég kynntist Friðþjófi betur því betur kunni ég við hann og ekki skemmdi fyrir að hann var Arsenal-maður. Mér er minnisstætt þegar ég var að gera hosur mínar grænar fyrir fyrrverandi og hafði boðið henni í bíó, þá rétti hann mér bíllyklana sína og sagði: Þú verður að vera á almennilegum bíl (hann átti Mustang þá!). Eða þegar við höfðum áhuga á að kaupa litla ósamþykkta íbúð á Skólavörðuholtinu þá kom hann með okkur að skoða og fór að spyrja fasteignasalann hvað baðherbergið væri stórt, og fasteignasalinn sagði sirka 10 fermetrar. Það var ekkert sirka hjá honum Friðþjófi og allt í einu er hann kominn með tommustokk í hendurnar og fer að mæla í gríð og erg. 6,8 fermetrar mælir Friðþjófur baðherbergið. Skemmst er frá því að segja að fasteignasalinn féllst á umtalsverða lækkun eftir að Friðþjófur gerði sig líklegan til að mæla alla íbúðina með tommustokkinn að vopni. Svona var Friðþjófur, alltaf boðinn og búinn að rétta hjálparhönd.

Þung áföll í báðum fjölskyldum tóku á, en saman tókust þau á við sorgina. Þá kom í ljós hversu heill og sterkur Friðþjófur var. Þegar mamma var orðin veik vék hann vart frá henni, síðar þegar á líknardeild var komið þá var ég hjá henni þegar Friðþjófur kemur og dregur upp sjóvarpsdagskrá og hafði dregið hring með rauðum penna um þætti sem henni þættu áhugaverðir. Ég hefði ekki getað hugsað mér mömmu í betri höndum.

Friðþjófur var glæsilegur maður með hjarta úr gulli. Takk fyrir allt. Sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til barna og barnabarna.

Ólafur Þór.