Ólína Margrét Sveinsdóttir fæddist 2. mars 1948. Hún lést 15. janúar 2023.
Útförin fór fram 23. janúar 2023.
Sárt verður þín saknað, amma mín, en minningar mínar um þig og okkar samveru verða ávallt til staðar í hjarta mínu.
Mér fannst þú geta gert allt og alltaf með svo góð ráð og það einhvern veginn skipti engu máli hvað kom upp á, það var bara að dusta af sér rykið og halda áfram, sama hvað, því þú sagðir að við gætum allt ef við vildum. Þau ráð voru sönn og fannst mér þú geta allt, hvort sem það var að syngja eða vera á hestbaki. Þú varst klettur í óðu hafi sem ég gat alltaf einhvern veginn haldið í, sama hvað, og ég veit fyrir víst að þú dvelst nú uppi í draumahöll.
Dómald D.
Elsku amma. Margar voru þær, minningarnar okkar, bústaðaferðirnar óteljandi, alltaf jafn gaman að spila við þig i spilum og alltaf endaði það með tapi fyrir þeim sem spiluðu á móti þér. Að koma heim til þín að læra sem var alltaf jafn gaman fyrir utan það að maður þurfti alltaf að læra. Læt eitt ljóð fylgja fyrir þig elsku amma, hvíldu í friði.
Elsku Ólí amma, sárt þín verður saknað
bið ég guð og himinn þig að vakta
þó ég kveðji þig að sinni
alltaf þú verður mér í hjarta og minni.
Sveinn Óli.
Magnús Stígur
Dómaldsson.
Ljóð, Minningar, eftir Svein afa:
Aftaneldar loga
allt er kyrrt og bjart
út við vík og voga
vefur sólin skart.
Væri ég ungur aftur
ætti von og þrá
vorsins kynngikraftur
kennir margt að sjá.
Blóm úr dái djúpu
dregur sólin hlý
heyrast hljóð frá rjúpu
hljómar dirrindí
þegar litla lóan
leikur glöð og frjáls.
Við köll og kvak um móann
kem ég til mín sjálfs.
Liðinn langur vetur
lömbin hoppa um mó
eftir innisetur
æskan neitar ró
lífsins ljúfi kliður
leikur milt og þýtt
linda og lækja niður
landið bjart og frítt.
(Sveinn Sæmundsson)
Sveinn Óli Dómaldsson,
Magnús Stígur Dómaldsson,
Eyþór Burkni Dómaldsson.
Við vorum saman á fundum í talsverðan tíma. Svo mörgum hef ég orðið samferða í gegnum öll árin að ég undraðist þegar ég mundi strax eftir henni þegar ég sá hana í blaðinu. Hvers vegna man ég hana svona vel, hafandi ekki verið henni samtíða lengi? Jú, hún hafði svo góða og eftirminnilega nærveru og það var alltaf svo gott og gaman að tala við hana. Hún var hreinskiptin og með allt uppi á borðinu. Þetta var á Burkna-skeiðinu og ekki spillti nafnið fyrir minninu, auk þess sem mér finnst það fallegt. Ég vildi óska að ég hefði vitað af veikindum hennar, þá hefði ég svo sannarlega haft samband. En það er svona með þennan hóp að hann hittist, fólk fer og kemur og ekki nokkur leið að halda tengslum við alla. Stundum koma fréttir, en því miður ekki af henni. Þannig er það bara, mér finnst það slæmt, en við því er ekkert að gera nema skrifa minningu. Ég sendi ykkur sem þótti vænt um hana innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.
Rúna Knútsdóttir.
Tengslanet, reynsla og vinsældir hennar voru byggð á ósérhlífinni þátttöku í ýmsum félagasamtökum sem hún hafði starfað í. Þar á meðal voru Breiðablik, Ungmennasamband Kjalanesþings, Ungmennafélag Íslands og Kvenfélag Kópavogs. Ólína var fyrst kvenna til að taka að sér formennsku í Breiðabliki og var sterkur hlekkur í því að gera félagið að einu stærsta og öflugasta ungmenna- og íþróttafélagi landsins. Hún var tveggja ára þegar félagið var stofnað og segja má að hún hafi alist upp með félaginu, Foreldar hennar, þau Sveinn og Ingibjörg, voru allt frá byrjun öflugir bakhjarlar Breiðabliks. Aðalsvæði félagsins fyrstu áratugina var í Vallargerði gegnt heimili hjónanna og dætranna tveggja. Gagnvegir voru sannarlega milli Vallargerðisvallar og Vallargerðis 2. Ólína fékk æðstu viðurkenningar frá Breiðabliki og Sögufélagi Kópavogs fyrir frábær störf í þágu félaganna.
Hún vann um langt árabil við bókhald og skrifstofustjórn í Sparisjóði Kópavogs sem á þeim tíma var ein helsta peningastofnunin sem bæjarbúar leituðu til með þjónustu. Þar tók Ólína á móti viðskiptavinum með ljúfri lund og bros á vör og átti án efa stóran þátt í vinsældum sjóðsins.
Þegar sögu sparisjóðanna lauk tók við hjá Ólínu bókhaldsþjónusta og kennsla hjá Hringsjá sem er náms- og starfsendurhæfingarmiðstöð fyrir einstaklinga sem vegna ýmissa áfalla þurfa á endurhæfingu að halda. Í því umhverfi nutu mannkostir Ólínu sér vel. Kennsla hennar í bókhaldi skipti sköpum fyrir fjölmarga nemendur hennar sem starfa nú við bókhald.
En sól tér sortna. Illvíg veikindi síðustu árin drógu smátt og smátt mátt úr Ólínu en hugurinn var óbugandi. Hún stóð hetjulega meðan stætt var og sýndi aðdáunarverðan kjark og æðruleysi. En Parkinn eins og hún kallaði veikindin lagði hana að velli að síðustu.
Sögufélag Kópavogs kveður einstaka konu með kæru þakklæti fyrir samstarfið og vináttuna og sendir börnum hennar og fjölskyldum þeirra innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Ólínu Sveinsdóttur.
Þórður St. Guðmundsson
og Frímann I. Helgason.