Kristín Þóra Kjartansdóttir er staðarhaldari í Menningarhúsi í Sigurhæðum á Akureyri.
Kristín Þóra Kjartansdóttir er staðarhaldari í Menningarhúsi í Sigurhæðum á Akureyri.
Yfirleitt er langflest sem ég les vinnutengt eða hefur með verk að gera sem ég er að vinna að. Við vorum að undirbúa komandi starfsár í Menningarhúsi í Sigurhæðum á Akureyri og rannsóknarvinnunni þar fylgir mikill lestur

Yfirleitt er langflest sem ég les vinnutengt eða hefur með verk að gera sem ég er að vinna að. Við vorum að undirbúa komandi starfsár í Menningarhúsi í Sigurhæðum á Akureyri og rannsóknarvinnunni þar fylgir mikill lestur. Til að vinna mig inn í tíðarandann áratugina kringum 1900 las ég til að mynda bókina Minningar eftir rithöfundinn Guðrúnu Borgfjörð. Kannski ekki alveg svona það sem er fremst í hillum bókabúðanna í dag, en frábær lesning, vel gerð bók og fallegur gripur.

Gamlar ferðadagbækur um Ísland geta líka verið góð leið inn í gamla samfélagið hér og lestur þeirra veitir líka innblástur varðandi það hvernig fólk ferðast um landið. Við erum svo innstillt inn á það í dag að upplifa og leiðsegja um þá staði sem aðrir hafa sett á samfélagsmiðla eða sem eru í ferðahandbókum. Tungumálamaðurinn Matthías Jochumsson, okkar maður hér í Sigurhæðum, sté ungur stuttlega einmitt inn í stétt leiðsögumanna fyrir erlenda ferðamenn, en það var ákveðin tískubylgja meðal efri stétta og menntafólks á nítjándu öld að koma í ævintýraferðir til Íslands.

Ég á líka mikinn fjölda mjög ólíkra bóka og handleik þær gjarnan eða fletti í inn á milli, líka til að viðra hugann eða að fá smá hvíld. Þar er vinsælt hjá mér verk sem Einar Falur Ingólfsson gaf út í Pastel-ritröð í fyrra og heitir Griðarstaður. Verkið er meira myndlestur en lestur texta og í því er einstaklega vel heppnað jafnvægi festu og breytileika. Verk sem ég hvíli vel í við lesturinn.