Helena Bonham Carter er vön að leika konur sem í raun og veru voru til.
Helena Bonham Carter er vön að leika konur sem í raun og veru voru til. — AFP/Chris Delmas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar maður rekst á frétt um nýjan sjónvarpsmyndaflokk um löngu látna og löngu gleymda sápuóperustjörnu sem engir þekktu nema allra skjáelskustu Bretarnir þá hlýtur forvitnin að fá lausan tauminn. Noele Gordon sagði mér ekki neitt né heldur Nolly, en það var þessi ágæta kona víst kölluð á sinni tíð

Þegar maður rekst á frétt um nýjan sjónvarpsmyndaflokk um löngu látna og löngu gleymda sápuóperustjörnu sem engir þekktu nema allra skjáelskustu Bretarnir þá hlýtur forvitnin að fá lausan tauminn. Noele Gordon sagði mér ekki neitt né heldur Nolly, en það var þessi ágæta kona víst kölluð á sinni tíð. Og þátturinn sem hún lék í? Crossroads eða Krossgötur. Munið þið eftir honum? Nei, ég hélt ekki.

Fleiri voru í myrkrinu. „Noele Gordon var heillandi, margslungin og kjörkuð kona – sem ég hafði ekki hugmynd um fyrr en ég las handrit Russells T. Davies,“ sagði aðalleikkonan í nýju þáttunum, Helena Bonham Carter, í samtali við Manchester Evening News, þegar tökur voru að hefjast í fyrra. Manchester Evening News alltaf fyrst með fréttirnar. „Ég er í skýjunum með að taka þátt í því að segja sögu Nolly sem flestir eru búnir að gleyma. Þetta var löngu tímabært. Handrit Russells er snilldin ein og ég vona að ég valdi hvorki honum né Nolly vonbrigðum.“

Sjálfur beið Davies lengi eftir að segja þessa sögu. „Eitt af fyrstu verkefnum mínum í sjónvarpi var að skrifa prufuhandrit fyrir Krossgötur og mig hefur í 40 ár langað að skrifa söguna af því sem átti sér stað að tjaldabaki. Loksins mun sannleikurinn koma fram.“

Breska sjónvarpsstöðin ITV, en þar var Nolly frumsýnd í vikunni, segir í kynningu að þættirnir séu „ástarbréf til sjónvarpsgoðsagnar og sturluðu sápunnar sem hún lék í“. Ennfremur er rætt um snarpt, hlýtt og hjartnæmt portrett af gleymdri gyðju.

Polly Hill, dagskrárstjóri leikins efnis hjá ITV, segir handrit Davies mergjað og frábæran virðingarvott við Nolly sjálfa. „En um leið er það virðingarvottur við ást okkar á sápuóperum og þær ótrúlegu konur sem þær hafa fært okkur. Helena Bonham Carter verður stórkostleg Nolly.“

Hjartað og sálin

Nolly var hjartað og sálin í Krossgötum sem hófu göngu sína á ITV árið 1964. Hún lék móteleigandann Meg Richardson (síðar Meg Mortimer) en hlutverkið var þróað með hana í huga. Breska þjóðin tók ástfóstri við Nolly og frá 1969-79 varð hún átta sinnum hlutskörpust í kjöri TV Times á sjónvarpsleikkonu ársins. Geri aðrir betur! Hún var líka eini leikarinn í myndaflokknum sem var á föstum samningi.

Flestum brá því í brún þegar Nolly var án fyrirvara rekin úr Krossgötum árið 1981. Breyting hafði orðið á eignarhaldi framleiðslufyrirtækisins og nýju stjórnendunum bar skylda til að halda áfram með Krossgötur. Þeir vildu hins vegar fórna sápunni fyrir menningarlegra efni og hvað gera menn í þeirri snúnu stöðu? Jú, segja aðalstjörnunni upp í þeirri von að vinsældir þáttarins dvíni, þannig að taka megi hann af dagskrá. Það gekk á hinn bóginn ekki eftir og Krossgötur voru áfram á skjánum til 1988. Þátturinn sneri svo stuttlega aftur frá 2001-03. Nolly kom inn úr kuldanum í tveimur þáttum 1983 – sem urðu hennar síðustu.

Nolly var þá orðin veik af magakrabbameini og hafði gengist undir tvær meiriháttar aðgerðir. Hún dró sig síðan í hlé heima í Birmingham og lést 1985 af veikindum sínum, 65 ára að aldri.

Mótleikari hennar í Krossgötum, maður sem ber það ágæta nafn Tony Adams, komst með þessum hætti að orði í eftirmælum sínum: „Það hefur aldrei verið nein stjarna í Krossgötum en Nolly var hins vegar Krossgötur.“

Fæddist á jóladag

Nolly fæddist á jóladag 1919 og þaðan kemur nafnið, Noele, sem merkir vitaskuld jól. Foreldrar hennar skutu raunar nafninu Joan framan við en okkar kona losaði sig snemma við það. Jóna Jól var ekki að gera sig! Ung lærði hún að dansa og skemmtibransinn togaði í hana. Hermt er að Nolly sé fyrsta konan til að sjást í lit í sjónvarpi en hún tók þátt í fyrstu litútsendingunni sem John Logie Baird stóð fyrir 3. júlí 1928, þá átta ára.

Nolly lagði stund á nám í Royal Academy of Dramatic Art í Lundúnum og þaðan lá leiðin í leikhúsin á West End. Hún lék t.a.m. 685 sinnum í söngleiknum Brigadoon. Þá kom hún fram í tveimur breskum kvikmyndum fljótlega eftir stríð. Nolly gerð hlé á leikferli sínum 1955 þegar hún gerðist þáttastjórnandi hjá Associated Television í Lundúnum, stýrði allra fyrsta þætti stöðvarinnar, Helgarþættinum. Nolly hafði alla tíð brennandi áhuga á sjónvarpi og lærði þau fræði um tíma vestur í Ameríku.

Eftir að Krossgötuævintýrinu lauk 1981 hafði hún áform um að snúa aftur sem þáttastjórnandi í sjónvarpi en af því varð ekki vegna skuldbindinga í leikhúsinu.

Lék Margréti og Elísabetu

Helena Bonham Carter á langan feril að baki og er í góðri æfingu þegar kemur að því að leika raunverulegar persónur en góður rómur var gerður að túlkun hennar á Margréti drottningarsystur í hinum geysivinsælu þáttum Krúnunni á Netflix. Bonham Carter spreytti sig einnig á Elizabeth Taylor í sjónvarpsmyndinni Burton & Taylor 2013, Enid Blyton í sjónvarpsmyndinni Enid 2010 og Anne Boleyn í sjónvarpsþáttum um Hinrik VIII. 2003. Stóri munurinn er hins vegar sá að allir þekkja þessar konur.

Hvað hét okkar kona aftur? Jú, Noele Gordon, Nolly.

Fyrirferðarmikið nafn

Russell T. Davies er fyrirferðarmikið nafn í bresku sjónvarpi. Af myndaflokkum sem hann hefur skrifað og framleitt má nefna A Very English Scandal og It’s a Sin, sem báðir slógu rækilega í gegn. Sá fyrrnefndi fjallar um Jeremy Thorpe-hneykslið á áttunda áratugnum og fór Hugh Grant með aðalhlutverkið. Sá síðarnefndi gerist í alnæmisfárinu á níunda áratugnum og í miðdepli eru nokkrir samkynhneigðir breskir karlar. Olly Alexander fékk mikið lof fyrir leik sinn í aðalhlutverkinu.

Greinilega mikill períóðumaður, Davies.

Hann er líka framtíðarmaður, eins og síðasti myndaflokkur hans vitnar um, Years and Years, sem gerist á árunum 2019-34. Davies tileinkaði þá þætti eiginmanni sínum, Andrew Smith, sem lést 2018.