Ástand Neðsti hluti Urriðaholtsvallar lítur ekki vel út þessa dagana. Framkvæmdastjórinn segir ástandið þó alvanalegt á þessum árstíma.
Ástand Neðsti hluti Urriðaholtsvallar lítur ekki vel út þessa dagana. Framkvæmdastjórinn segir ástandið þó alvanalegt á þessum árstíma. — Morgunblaðið/Kristján Johannessen
„Þetta er ekkert óvenjulegt. Við höfum séð það verra en þetta. Nú erum við komin með nágranna og því sér fólk þetta kannski betur en áður,“ segir Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri golfklúbbsins Odds í Garðabæ

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er ekkert óvenjulegt. Við höfum séð það verra en þetta. Nú erum við komin með nágranna og því sér fólk þetta kannski betur en áður,“ segir Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri golfklúbbsins Odds í Garðabæ.

Heldur nöturleg sjón blasti við vegfarendum við völl klúbbsins, Urriðaholtsvöll, um helgina. Mikið vatn er yfir vellinum og fyrir þá sem ekki þekkja til virðist útlitið ekki bjart fyrir golfsumarið. Þorvaldur segir að fólk þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur. „Þetta er mjög eðlilegt og gerist alltaf í leysingum á veturna. Þá myndast stórt stöðuvatn niðri á Ljúflingi sem við köllum, neðsta svæðinu hérna. Það gerist á hverju vori þegar búið er að vera mikið frost, þá nær vatnið ekki að seytla niður í jarðveginn.“

Framkvæmdastjórinn segir að ef nú kæmi mikið frost í kjölfar leysinga gætu orðið frostskemmdir á vellinum. Ekkert bendi þó til þess eins og sakir standa. „Mér sýnist völlurinn meira og minna í fínu lagi,“ segir hann og kveðst vonast til að geta opnað í fyrstu eða annarri viku maímánaðar, venju samkvæmt. „Það fer þó eftir því hvenær við komumst inn á völlinn til undirbúnings.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon