Skorar Arnór Snær Óskarsson fer fram hjá dönsku heimsmeisturunum Mads Mensah og Simon Hald í fyrri leik Vals og Flensburg á Hlíðarenda.
Skorar Arnór Snær Óskarsson fer fram hjá dönsku heimsmeisturunum Mads Mensah og Simon Hald í fyrri leik Vals og Flensburg á Hlíðarenda. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valsmenn hefja í kvöld lokasprettinn í riðlakeppni Evrópudeildar karla í handknattleik þegar þeir mæta þýska stórliðinu Flensburg á heimavelli þess, Flens-Arena, í nyrstu borg Þýskalands við dönsku landamærin

Evrópudeild

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Valsmenn hefja í kvöld lokasprettinn í riðlakeppni Evrópudeildar karla í handknattleik þegar þeir mæta þýska stórliðinu Flensburg á heimavelli þess, Flens-Arena, í nyrstu borg Þýskalands við dönsku landamærin.

Teitur Örn Einarsson og samherjar hans í Flensburg eru efstir í B-riðli keppninnar en þeir hafa unnið fimm af sex leikjum sínum og verða örugglega í hópi þeirra fjögurra liða sem komast í sextán liða úrslit keppninnar. Sex lið eru í riðlinum og fjögur þeirra fara áfram.

Valsmenn eru í fjórða sætinu en þeir fengu fimm stig í fyrstu sex leikjunum. Byrjun þeirra á mótinu var glæsileg í haust en þeir unnu þá Ferencváros frá Ungverjalandi, 43:39, á Hlíðarenda og lögðu Benidorm að velli á Spáni, 32:29, í fyrstu tveimur umferðunum. Þar náðu þeir sér í fjögur dýrmæt stig.

Í kjölfarið kom ósigur gegn Flensburg að Hlíðarenda, 32:37, þar sem Teitur var í miklu stuði og skoraði sjö mörk fyrir Flensburg. Valsmenn töpuðu fyrir Aix, liði Kristjáns Arnar Kristjánssonar, 32:29 í Frakklandi en fengu fimmta stigið með jafntefli gegn Ferencváros í Ungverjalandi, 33:33.

Síðasti leikurinn fyrir jól, heimaleikurinn gegn Ystad frá Svíþjóð, tapaðist síðan, 29:32.

Ógnarsterkt lið Flensburg

Leikurinn í kvöld verður án efa erfiðasti leikur Vals í riðlinum, enda er Flensburg eitt af stóru liðunum í Evrópu og er núna í fimmta sæti þýsku 1. deildarinnar, sterkustu deildar heims. Með liðinu leika m.a. sex leikmenn úr liði nýkrýndra heimsmeistara Danmerkur, þeir Mads Mensah, Emil Jakobsen, Simon Hald, Jóhan Hansen, Lasse Möller og markvörðurinn Kevin Möller. Þar eru líka norsku landsliðsmennirnir Göran Johannessen og Magnus Röd og þýski landsliðsmaðurinn Johannes Golla.

Besti maður Svía, Jim Gottfridsson, er líka leikmaður Flensburg en hann meiddist á HM og verður ekki með í kvöld.

Flensburg er með 10 stig, Ystad 8, Aix 6, Valur 5, Benidorm 4 og Ferencváros 3. Segja má að Valsmenn séu í baráttu við Benidorm og Ferencváros um fjórða sætið og standa vel að vígi í innbyrðis úrslitum gegn báðum liðum. Það kann að ráða úrslitum ef liðin enda jöfn að stigum eftir umferðirnar tíu.

Úrslitaleikur eftir viku

Úrslitin í riðlakeppninni ráðast á næstu fjórum þriðjudögum. Eftir viku eiga Valsmenn heimaleikinn gegn Benidorm, sem kann að verða nánast hreinn úrslitaleikur fyrir bæði lið. Þriðjudaginn 21. febrúar er aftur spilað á Hlíðarenda þegar Valur mætir Aix, en í lokaumferðinni viku síðar leika Snorri Steinn Guðjónsson og hans lærisveinar við Ystad á útivelli.

Takist Valsmönnum að ná því markmiði að hafna í einum af fjórum efstu sætunum fara þeir í sextán liða útsláttarkeppni um sigur í Evrópudeildinni. Eins og staða þeirra er núna, fjórða sæti í B-riðli, myndu þeir mæta franska stórliðinu Montpellier í 16-liða úrslitum en Montpellier hefur unnið alla sína leiki og virðist allöruggt með sigur í A-riðlinum.

Ef Valsmenn myndu hins vegar ná þriðja sætinu mæta þeir líkast til annað hvort Göppingen frá Þýskalandi eða Kadetten frá Sviss, liði Óðins Þórs Ríkharðssonar og þjálfarans Aðalsteins Eyjólfssonar, í sextán liða úrslitunum.

Höf.: Víðir Sigurðsson