Í Feneyjum Ingibjörg, Eggert og börn ásamt tengdadóttur.
Í Feneyjum Ingibjörg, Eggert og börn ásamt tengdadóttur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingibjörg Valdimarsdóttir er fædd 7. febrúar 1973 á Akranesi og ólst þar upp til 12 ára aldurs en þá flutti fjölskyldan í Borgarnes og var þar í fjögur ár. Hún stundaði grunnskólanám bæði í Brekkubæjarskóla á Akranesi og við Grunnskólann í…

Ingibjörg Valdimarsdóttir er fædd 7. febrúar 1973 á Akranesi og ólst þar upp til 12 ára aldurs en þá flutti fjölskyldan í Borgarnes og var þar í fjögur ár.

Hún stundaði grunnskólanám bæði í Brekkubæjarskóla á Akranesi og við Grunnskólann í Borgarnesi og varð stúdent af Viðskipta- og hagfræðibraut frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi (FVA) um jólin 1992.

„Fljótlega eftir að ég kláraði stúdent ákvað ég að fara sem au-pair til Frakklands í 1 ár og lét verða að því haustið 1993 bæði þar sem mig langaði að prófa eitthvað nýtt, fannst franskan heillandi tungumál og svo gat ég ekki ákveðið mig hvað ég vildi læra í framhaldinu eða verða þegar ég yrði stór.“

Ingibjörg dvaldi í hálft ár með franskri fjölskyldu í smábæ sem heitir Talloires og er við borgina Annecy sem er við svissnesku landamærin. „Mér fannst sá staður allt of rólegur þó fallegur væri og ég ákvað því að skipta um fjölskyldu og færði mig um set í bæ rétt fyrir utan París sem heitir Saint-Germain-en-Laye. Þar var ég fram á sumarið en áður en ég kom aftur heim fór ég með tveimur öðrum stelpum sem ég hafði kynnst í París, á Interrail í mánuð en þá gátum við keypt lestarmiða sem gilti í mánuð í lestir um alla Evrópu. Það má segja að ferðabakterían hafi kviknað í þeirri ferð enda vorum við duglegar að ferðast um alla Evrópu með bakpokann okkar og fara vel út fyrir þægindarrammann.“

Svo hóf Ingibjörg hóf nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands haustið 1993 og flutti til Reykjavíkur. Hún útskrifaðist úr viðskiptafræðinni haustið 1997 og fékk í kjölfarið vinnu í Landsbréfum en á þessum tíma var hlutabréfamarkaðurinn að fara af stað fyrir alvöru. „Ég fann það fljótt að fjármálamarkaðurinn ætti ekki við mig þannig að ég færði mig yfir í markaðsmálin.“

Ingibjörg fékk starf hjá Eimskipafélagi Íslands árið 1998 sem markaðsstjóri innanlands. Þaðan flutti hún sig yfir í Línu.Net í stuttan tíma sem markaðsstjóri árið 2001 og loks í Orkuveitu Reykjavíkur sem deildarstjóri sölu- og markaðsdeildar. „Þá var raforkumarkaðurinn að fara á samkeppnismarkað og Vatnsveita Reykjavíkur, Hitaveita Reykjavíkur og Rafmagnsveita Reykjavíkur að sameinast undir merkjum Orkuveitu Reykjavíkur. Þar vann ég í níu ár eða frá árinu 2001 til ársloka 2010. Þá ákvað ég að söðla um þar sem ég var búin að taka allt of mikið að mér og varð að forgangsraða og velja hvert ég vildi stefna.“

Ingibjörg hafði nefnilega byrjað í mastersnámi í alþjóðaviðskiptum við Háskólann í Reykjavík með vinnu árið 2008 ásamt því að bjóða sig fram til bæjarstjórnar á Akranesi vorið 2010 og setjast í kjölfarið í bæjarstjórn en þar sat hún í átta ár. Sumarið 2010 tók hún einnig sumarönn í Copenhagen Business School sem hluta af mastersnámi sínu.

„Þegar þarna var komið sat ég í bæjarstjórn verandi í mastersnámi með fullri vinnu og þrjú börn heima og það yngsta 4 ára. Ég ákvað í kjölfarið að segja upp starfi mínu hjá OR í árslok 2010 eftir mörg góð ár þar, til að geta náð að klára ritgerðina mína og ljúka mastersnáminu.“ Ingibjörg útskrifaðist með mastergráðu frá HR vorið 2011.

„Það var í ársbyrjun 2011 sem nýtt tækifæri opnaðist þegar mér bauðst að taka við fyrirtækinu Ritari sem framkvæmdastjóri og gerast um leið meðeigandi að fyrirtækinu. Það fyrirtæki hafði verið stofnað þremur árum áður en stóð á krossgötum þar sem vantaði framkvæmdastjóra til að stýra því sem mátti helst ekki kosta neitt, eins og í mörgum frumkvöðlafyrirtækjum sem eru að stíga sín fyrstu skref. Ég ákvað að slá til og gerðist meðeigandi og tók við framkvæmdastjórastarfinu og hef verið í því síðan.“

Ritari er í dag í eigu Ingibjargar og eiginmanns hennar og býður útvistun á flestum þáttum skrifstofureksturs, eins og ritaraþjónustu, símsvörun og bókhaldsþjónustu og ýmsu öðru. Þau hjónin ráku einnig gistiheimilið Stay West á Akranesi og í Borgarnesi 2016-2022.

Í tengslum við bæjarpólitíkina hefur Ingibjörg setið sem formaður Fjölskylduráðs, Atvinnumálanefndar og Heilbrigðisnefndar Vesturlands og varaformaður SSV (Samtök Sveitarfélaga á Vesturlandi), setið í bæjarráði og í stjórn Faxaflóahafna auk þess að taka þátt í ýmsum starfshópum.

Hún situr í dag í stjórn Atvinnurekendadeildar FKA, hefur setið í stjórn FKA Vesturlands og sast nýverið í stjórn hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunnar Vesturlands (HVE).

Allt frá barnæsku hefur Ingibjörg verið dugleg að hreyfa sig, æft flestar íþróttir eins og sund, fótbolta og körfubolta með Skallagrími og handbolta og blak með ÍA. „Ég á frekar erfitt með að sitja auðum höndum og á auðvelt með að finna mér ný og skemmtileg verkefni.“

Helstu áhugamál Ingibjargar eru að ferðast, njóta náttúrunnar, stunda golf og fara á skíði og eiga góða stund með vinum. „Ég er í nokkrum vinahópum og tek það oftast að mér að skipuleggja næsta hitting eða ýta við öðrum að skipuleggja næsta hitting.

Í seinni tíð hef ég lært að meta það sem gefur lífinu gildi og veitir mér mestu ánægju. Ég hef sett mér það sem markmið að prófa eitthvað nýtt á hverju ári og fara reglulega út fyrir þægindarammann, flækja líf mitt ekki að óþörfu og njóta með vinum og fjölskyldu.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ingibjargar er Eggert Herbertsson, f. 8.2. 1971, framkvæmdastjóri. Þau eru búsett á Akranesi. Foreldrar Eggerts eru hjónin Herbert Hjelm, f. 3.9. 1950, verkstjóri og Borghildur Vilhjálmsdóttir, f. 8.12. 1951, ræstingastjóri. Þau eru búsett á Akranesi.

Börn Ingibjargar og Eggerts eru 1) Andri Freyr Eggertsson, f. 24.3. 2000, háskólanemi í Berlín. Kærasta hans er Sigurjóna Sigurðardóttir; 2) Arndís Lilja Eggertsdóttir, f. 31.3. 2003, háskólanemi í Bandaríkjunum; 3) Viktor Daði Eggertsson, f. 9.6. 2006, nemi við FVA.

Bræður Ingibjargar eru Arnar Valdimarsson, f. 18.1. 1976, mynd- og leikjapródúsent og býr í Reykjavík, og Davíð Valdimarsson, f. 28.7. 1981, grafískur hönnuður og býr í Reykjavík.

Foreldrar Ingibjargar eru hjónin Valdimar Björgvinsson, f. 8.3. 1950 og Jóhanna L. Jónsdóttir, f. 2.8. 1951. Valdimar vann lengst af sem húsasmiður og verslunarstjóri og Jóhanna vann lengst af sem forstöðukona og hárgreiðslumeistari. Þau búa á Akranesi.