Samhugur með Tyrkjum og Sýrlendingum er mikill

Jarðskjálftinn sem reið yfir Tyrkland og Sýrland í gærmorgun hefur haft skelfilegar afleiðingar. Ekki er vitað hvað margir létust í skjálftanum, en í gær var ljóst að á þriðja þúsund manns hefðu látið lífið. Engin leið er að átta sig á því að svo stöddu hvað margir slösuðust eða umfangi eyðileggingarinnar. Skjálftinn mældist 7,8 stig á Richter.

Hið mikla mannfall má rekja til þess að skjálftinn reið yfir á þéttbýlu svæði um miðja nótt þegar fólk var í fastasvefni og híbýli þess hrundu vegna þess að þau voru ekki nógu sterkbyggð. Húsin breyttust í dauðagildrur.

Jarðskjálftar eru tíðir á þessum slóðum, en ef til vill hafa yfirvöld sofið á verðinum vegna þess að tiltölulega kyrrt hefur verið á sprungunni þar sem skjálftinn varð í tvær aldir. Þá er þetta mesti skjálfti á svæðinu í næstum heila öld.

Öflugir eftirskjálftar héldu áfram í gær og mældist sá stærsti 7,5 á Richter. Stóri skjálftinn sást vel á mælum Veðurstofu Íslands og margir eftirskjálftanna einnig.

Tyrkir hafa lagt áherslu á að reisa mannvirki sem standast jarðskjálfta eftir að 17 þúsund manns fórust þar í jarðskjálfta árið 1999. En það þarf einnig að huga að þeim húsum sem fyrir eru.

Náttúruhamfarirnar í Tyrklandi og Sýrlandi eru skelfilegar. Aðstoð þarf að berast hratt og örugglega og kom fram í gær að íslenskir sérfræðingar í leit og rústabjörgun væru tilbúnir yrði óskað eftir framlagi þeirra.

Samhugur með Tyrkjum og stríðshrjáðum Sýrlendingum er mikill, ekki síst á Íslandi þar sem náttúruöflin minna iðulega á sig.