Lærdómur Mæðgurnar lærðu saman fyrir lokapróf á síðustu önn.
Lærdómur Mæðgurnar lærðu saman fyrir lokapróf á síðustu önn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Sennilega er ekki algengt að mæðgur séu saman í krefjandi námi en Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, og Karen Helga Díönudóttir, rekstrarstjóri vöruhúss Landspítala, byrjuðu í MBA-námi í Háskóla Íslands í haust.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sennilega er ekki algengt að mæðgur séu saman í krefjandi námi en Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, og Karen Helga Díönudóttir, rekstrarstjóri vöruhúss Landspítala, byrjuðu í MBA-námi í Háskóla Íslands í haust.

Díana er með BS-gráðu í geislafræði og meistarapróf í lýðheilsuvísindum. Hún segist hafa lagt áherslu á endurmenntun og hafi meðal annars bætt við sig námi í stjórnun og rekstri á sviði heilbrigðisþjónustu. Í fyrra hafi hún hugað að nýrri námsleið til að efla sig í starfi og MBA-námið, sem er tveggja ára nám með vinnu, hafi orðið fyrir valinu. „Karen var að hætta í handboltanum og mér fannst kjörið fyrir hana að nýta tímann sem myndaðist til að mennta sig meira. Hún var til í það og við tókum slaginn saman.“

Góður tími á parketinu

Handboltinn hefur lengst af tekið upp mestan frítíma Karenar Helgu. Hún lék með meistaraflokki Hauka frá 15 ára aldri í 15 ár og þar af í 12 ár sem fyrirliði. Hún segir undarlegt að vera hætt að spila en það sé einnig skemmtilegt og gefandi að vera með móður sinni í náminu. Hún segist lengi hafa haft á bak við eyrað að fara í frekara nám og gripið tækifærið þegar það gafst. „Það er skemmtilegra að gera þetta saman frekar en hvor í sínu lagi, en vissulega sakna ég þess að vera ekki lengur á parketinu.“

Kennslustundir eru klukkan níu til fimm á föstudögum og laugardögum aðra hverja viku í háskólanum. Þess á milli eru dæmatímar á samskiptaforritinu Teams á netinu. „Námið byggist mikið á heimavinnu og teymisvinnu,“ útskýrir Díana. Karen Helga segir það tímafrekara en hún hafi átt von á, en allt gangi upp með góðri skipulagningu.

Fram kemur hjá mæðgunum að þær séu mjög samrýndar. „Við gerum margt saman og okkur fannst þetta skemmtilegt tækifæri,“ segir Díana og leggur áherslu á að hún hafi stutt börnin sín þrjú í áhugamálum þeirra og fylgt þeim eftir í því sem þau hafi gert. „Hún er flottur námsmaður og gaman er að hvetja hana áfram með þessum hætti.“ Þær sitji saman í skólanum og læri oft saman um fríhelgar. „Hún kemur þá yfir heiðina til mín í sveitina.“ Karen Helga tekur undir þetta. „Okkur finnst báðum gaman að læra og hún er mín helsta fyrirmynd. Allt sem hún tekur sér fyrir hendur gerir hún einstaklega vel og það gerir mig mjög stolta þegar mér er líkt við hana.“

Námsönnin sem er í gangi núna fjallar um fjármál og rekstur fyrirtækja auk hagfræði. Mæðgurnar segja gott að fara yfir þessa hluti saman, spá og spekúlera í sameiningu. „Gott er að hafa einhvern sér við hlið til þess að kafa ofan í málin saman,“ segir Díana. „Karen er með sína verkfræðimenntun, sem er mjög gott, og ég með töluverða reynslu í atvinnulífinu og stjórnunarstörfum. Við getum því rætt málin út frá ýmsum hliðum, sem er hollt og gott.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson