Notkun ADHD-lyfja hér á landi heldur áfram að aukast og jókst hún um 12,3% á seinasta ári frá árinu á undan. Heldur hefur þó dregið úr aukningunni á milli ára, sérstaklega meðal barna, ef miðað er við ört vaxandi notkun á undanförnum árum

Notkun ADHD-lyfja hér á landi heldur áfram að aukast og jókst hún um 12,3% á seinasta ári frá árinu á undan. Heldur hefur þó dregið úr aukningunni á milli ára, sérstaklega meðal barna, ef miðað er við ört vaxandi notkun á undanförnum árum. Var fjölgunin meiri hjá konum en körlum í fyrra og eru konur nú meirihluti fullorðinna notenda. Sömuleiðis var meiri fjölgun hjá stúlkum en drengjum í fyrra.

Þetta kemur fram í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis, þar sem birt er úttekt á notkun ADHD-lyfja á Íslandi á árunum 2013-2022. Þau lyf sem eru mest notuð við ADHD innihalda metýlfenidat sem er í flokki svonefndra adrenvirkra lyfja sem verka á miðtaugakerfið og var notkun þeirra rúmlega 57 dagskammtar á hverja þúsund íbúa á dag á seinasta ári.

Allt frá árinu 2014 hefur notkun adrenvirkra lyfja aukist að meðaltali um 11% á ári hjá börnum og um rúmlega 17% meðal fullorðinna. Á seinasta ári jókst notkun þessara lyfja um 5% meðal barna en 15% meðal fullorðinna. Fram kemur að í fyrra fengu alls 20.680 einstaklingar ávísuð lyf í þessum lyfjaflokki, þar af voru 6.807 börn yngri en 18 ára og 13.873 fullorðnir. Samsvarar það því að 55 af hverjum 1.000 íbúum landsins hafi verið ávísað slíkum lyfjum í fyrra. Hlutfallið er þó mun hærra meðal barna en fullorðinna en 81 af hverjum þúsund börnum fékk ávísuð slík lyf í fyrra samanborið við 47 af hverjum þúsund fullorðnum.

Í greininni segir að þegar á heildina sé litið séu karlar meirihluti notenda adrenvirkra lyfja. Í fyrra fengu 10.900 karlar, í öllum aldursflokkum, eða 56 af hverjum þúsund, slíkt lyf ávísað á móti 9.755 konum eða 43 af hverjum þúsund konum. Notkun lyfjanna er tæplega tvisvar sinnum meiri hjá drengjum en stúlkum, áður fyrr var óverulegur kynjamunur á notkun þessara lyfja meðal fullorðinna. Nú hefur hins vegar orðið breyting þar á. Notkun lyfjanna hefur aukist meira hjá konum en körlum á undanförnum árum og er nú svo komið að konur eru meirihluti fullorðinna notenda. „Þannig fékk 51 af hverjum 1.000 konum ávísuð slík lyf árið 2022 á móti 30 af hverjum 1.000 körlum […].“

Védís Helga Eiríksdóttir höfundur greinarinnar bendir einnig á að á undanförnum árum hafi færst í vöxt að melatóníni sé ávísað samhliða ADHD-lyfjum til meðhöndlunar á svefnröskunum hjá einstaklingum með ADHD. „Af þeim 20.680 einstaklingum sem fengu ávísuð ADHD-lyf á árinu 2022 fengu 3.908 einstaklingar einnig ávísað melatónín,“ segir í greininni.

Hægari vöxtur notenda ADHD-lyfja á seinasta ári gæti að mati Védísar verið vísbending um að hámarki kunni að verða náð á næstu árum en fleiri skýringar gætu þó verið á þessari þróun. omfr@mbl.is