Seyðisfjörður Tíu skip við bryggju og ungir menn áberandi í áhöfnum.
Seyðisfjörður Tíu skip við bryggju og ungir menn áberandi í áhöfnum. — Morgunblaðið/Pétur Kristjánsson
Á fjórða tug loðnuskipa voru í gær í höfnum á Austurlandi komin í skjól vegna aðsteðjandi vetrarlægðar sem stefndi að landinu. Alls 25 skip voru í höfnum Fjarðabyggðar, það er 8 á Eskifirði, fimm á Reyðarfirði og 11 á Fáskrúðsfirði

Á fjórða tug loðnuskipa voru í gær í höfnum á Austurlandi komin í skjól vegna aðsteðjandi vetrarlægðar sem stefndi að landinu. Alls 25 skip voru í höfnum Fjarðabyggðar, það er 8 á Eskifirði, fimm á Reyðarfirði og 11 á Fáskrúðsfirði. Tíu skip voru inni á Seyðisfirði.

„Núna er tíunda skipið að sigla inn fjörðinn og hér er þétt raðað á bryggjurnar,“ sagði Rúnar Gunnarsson yfirhafnarvörður á Seyðisfirði í samtali við Morgunblaðið í gærdag. „Veðurspáin fyrir næstu daga er ekki beint spennandi og þeir skipstjórar sem ég hafði tal af sögðust búast við að vera hér inni á Seyðisfirði eitthvað fram í vikuna. Á hverju skipi eru gjarnan 10-12 menn, yfirleitt ungir strákar sem eru líflegir. Því má búast við að fjör verði hér á svæðinu; margir fara hér í matvöruverslunina og svo munu þeir væntanlega koma til dæmis við á því eina veitingahúsi bæjarins sem nú er opið.“

Hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði hefur nú í vikunni verið landað úr átta norskum skipum. „Í augnablikinu eru hér alls ellefu skip sem voru á miðunum hér 50-60 sjómílur úti, sem gerir 4-5 tíma siglingu,“ sagði Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar í samtali við Morgunblaðið.

Samkvæmt samningum mega 30 norsk skip á hverjum tíma vera í íslensku lögsögunni meðan á loðnuvertíðinni stendur. Kvótinn tilheyrir þó talsvert fleiri skipum. Loðnan sem veidd er telst vera íslenskur stofn, sem fer svo víða um höf að veiðar eru einnig heimilar Grænlendingum og Norðmönnum. sbs@mbl.is