Langstökk Irma Gunnarsdóttir úr FH státar af næstbesta árangri íslenskrar konu í langstökki innanhúss og þeim besta í þrístökki innanhúss. Hér tekur hún þátt í langstökki á Reykjavíkurleikunum á sunnudag.
Langstökk Irma Gunnarsdóttir úr FH státar af næstbesta árangri íslenskrar konu í langstökki innanhúss og þeim besta í þrístökki innanhúss. Hér tekur hún þátt í langstökki á Reykjavíkurleikunum á sunnudag. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Frjálsíþróttakonan Irma Gunnarsdóttir úr FH stóð uppi sem sigurvegari í langstökki kvenna innanhúss á frjálsíþróttamóti Reykjavíkurleikanna í frjálsíþróttahöll Laugardalshallarinnar á sunnudag. Þar hjó hún ansi nærri sínum besta árangri, 6,36 metrum, með því að stökkva lengst 6,34 metra

Frjálsar

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Frjálsíþróttakonan Irma Gunnarsdóttir úr FH stóð uppi sem sigurvegari í langstökki kvenna innanhúss á frjálsíþróttamóti Reykjavíkurleikanna í frjálsíþróttahöll Laugardalshallarinnar á sunnudag. Þar hjó hún ansi nærri sínum besta árangri, 6,36 metrum, með því að stökkva lengst 6,34 metra.

„Ég er bara mjög ánægð með frammistöðu mína. Ég hefði viljað fá fleiri gild stökk en ég fer samt sem áður mjög sátt héðan,“ sagði Irma í samtali við Morgunblaðið á sunnudag. Aðeins tvö stökk af sex voru dæmd gild.

Spurð hvað hafi vantað upp á til þess að jafna eða bæta sinn besta árangur, sem hún setti á Stökkmóti ÍR í síðasta mánuði, sagði hún:

„Ég er ekki alveg viss. Það voru tvö stökk sem voru mjög lítið ógild þannig að með smá heppni hefði þetta kannski komið.“

Stökk Irmu í síðasta mánuði er næstbesti árangur íslenskrar konu innanhúss í greininni. Íslandsmetið í langstökki kvenna innanhúss á Hafdís Sigurðardóttir, sem stökk 6,54 metra árið 2016.

Mjög sætt að ná metinu

Auk þess að vera annar besti langstökkvarinn innanhúss hér á landi stórbætti hin 25 ára gamla Irma 25 ára gamalt Íslandsmet kvenna í þrístökki innanhúss skömmu fyrir síðustu jól.

Met Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur upp á 12,83 metra hafði staðið óhaggað frá árinu 1997. Irma bætti það hins vegar um 30 sentímetra er hún stökk 13,13 metra á stökkmóti FH.

„Það var mjög góð tilfinning. Ég var búin að vera að reyna að ná þessu svolítið lengi þannig að það var mjög sæt tilfinning að ná þessu allt í einu,“ sagði hún um Íslandsmetið.

Eftir þessar miklu bætingar Irmu í greinunum tveimur að undanförnu lék blaðamanni forvitni á að vita í hvorri þeirra hún væri sterkari að eigin mati.

„Eins og er þá er langstökkið aðeins sterkara. Ég er búin að keppa meira í langstökki á þessu tímabili en ég er spennt að sjá hvað ég get gert í þrístökkinu í vetur, ég á alveg smá meira inni þar,“ sagði Irma.

Hún hefur það því að augnamiði að bæta eigið Íslandsmet enn frekar í þrístökki.

Vildi halda áfram hjá þjálfaranum sínum

Irma hóf ferilinn hjá Breiðabliki en skipti árið 2021 yfir til FH. „Þetta er annað tímabilið mitt í FH, það er um eitt og hálft ár síðan ég skipti,“ útskýrði hún.

Ástæðuna fyrir skiptunum sagði Irma vera einfalda.

„Ég var eiginlega að eltast við þjálfarann. Hann er mjög góður þjálfari og mig langaði að æfa lengur hjá honum. Ég var að æfa hjá honum á meðan ég var í Breiðabliki þannig að ég ákvað að skipta og fylgja honum. Þjálfarinn minn heitir Hermann Þór Haraldsson. Ég fékk að æfa hjá honum í FH síðasta árið mitt í Breiðabliki og hélt síðan áfram í þjálfun hjá honum þegar ég skipti yfir í FH.“

Stefnan sett á EM

Spurð hvað væri á döfinni hjá henni sagði Irma: „Ég er að fara að keppa í langstökki á Norðurlandamótinu um næstu helgi þannig að það er bara að gera sitt besta þar. Svo væri líka gaman að geta stefnt á stærri mót, eins og Evrópumeistaramótið í sumar.“

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson