Eldur Vandasamt getur verið fyrir slökkvilið að fást við eld í rafbílum.
Eldur Vandasamt getur verið fyrir slökkvilið að fást við eld í rafbílum. — Morgunblaðið/Stefán Einar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Miklar áskoranir eru fyrir slökkvilið að takast á við eld í rafbílum og öðrum farartækjum sem búin eru endurhlaðanlegum rafhlöðum. Af þeim sökum fylgist Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vel með þróun mála hjá kollegum sínum úti í heimi og þeim tækninýjungum sem bjóðast. Þetta kom fram í máli Birgis Finnssonar, varaslökkviliðsstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, á fræðsludegi um rafvæðingu farartækja sem Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hélt á dögunum.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Miklar áskoranir eru fyrir slökkvilið að takast á við eld í rafbílum og öðrum farartækjum sem búin eru endurhlaðanlegum rafhlöðum. Af þeim sökum fylgist Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vel með þróun mála hjá kollegum sínum úti í heimi og þeim tækninýjungum sem bjóðast. Þetta kom fram í máli Birgis Finnssonar, varaslökkviliðsstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, á fræðsludegi um rafvæðingu farartækja sem Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hélt á dögunum.

„Við höfum fjárfest í ákveðnum grunnbúnaði og fylgjumst vel með því hvað aðrir eru að gera,“ segir Birgir í samtali við Morgunblaðið. Mikil fjölgun rafbíla hér á landi felur í sér áskoranir enda getur verið erfitt að eiga við eld þegar hann kemur upp. „Ef það kviknar í rafmagnsbílum og hitinn fer í rafhlöðuna þá getur það skapað stór vandamál fyrir slökkvilið. Innan í rafhlöðuhulstri eru endurhlaðanlegar rafhlöður og þar getur skapast keðjuverkandi hitamyndun. Þetta höfum við aðeins verið að sjá í minni rafhlöðum, svo sem á rafhlaupahjólum. Það fylgir þessu ákveðin áhætta,“ segir Birgir. Hann tekur þó skýrt fram að öll tölfræði bendi til þess að minni líkur séu á því að eldur komi upp í rafmagnsbílum en hefðbundnum dísel- eða bensínbílum. Nýjar áskoranir felist hins vegar í rafmagnsbílunum.

Birgir segir að margt áhugavert hafi komið fram í öðrum fyrirlestrum á fræðsludeginum, til að mynda frá erlendum gestum sem fengnir voru hingað. Meðal þess sem var til umræðu er hvernig bregðast skuli við ef eldur kviknar í rafmagnsbíl inni í bílskúr eða bílastæðahúsi. Víða erlendis hafa slökkvilið búnað til að geta dregið bílinn út úr húsinu. „Það er gott að geta fjarlægt bílinn enda er mjög erfitt að slökkva í svona rafhlöðu. Inni í svona rafhlöðuhulstri eru sellur og í hverri sellu er fullt af rafhlöðum. Við getum verið búin að slökkva eldinn en það er enn þá hitamyndun þarna inni og eldur getur kviknað aftur eftir nokkra klukkutíma.“

Birgir segir ennfremur að mörg slökkvilið, til að mynda í Danmörku, séu nú komin með gáma sem eru eins og sundlaugar. „Þá er bíllinn bara settur ofan í vatnsbað í ákveðinn tíma til að kæla rafhlöðuna niður og tryggja að eldur kvikni ekki á ný.“

Hér á landi er nú til búnaður sem auðveldar slökkviliðsmönnum að koma bílum út úr húsum. Um er að ræða létt tæki sem lyftir bílnum svo auðveldara sé að draga hann burt. „Við erum komin með stór eldvarnarteppi sem við getum pakkað bílnum inn í. Við getum til dæmis breitt yfir bíla inni í bílastæðahúsi sem lengir tímann sem við höfum til ná honum út. Svo erum við að undirbúa okkur fyrir það að geta sett bíla í svona vatnsbað. Hins vegar er mikil þróun í þessu og nú er að koma búnaður sem gerir okkur kleift að komast inn í rafhlöðuboxið til að geta kælt það niður. Það eru samt skiptar skoðanir á þessu, sumir framleiðendur segja að það megi alls ekki gera gat á rafhlöðubox.“

Birgir segir að mikilvægt sé að notendur noti réttan búnað við hleðslu. „Við höfum fengið vísbendingar um að það sé misjafnlega að þessu staðið hér og við höfum fengið nokkra bruna út frá minni tækjum, rafhlaupahjólum. Fólk þarf að gæta sín með þessi tæki.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon