Eitt lögmál rekstrar hins opinbera er að fjárþörf opinberra stofnana er aldrei hægt að fullnægja. Forsvarsmenn og starfsmenn stofnananna, auk þeirra sem mestra hagsmuna eiga að gæta af starfseminni, telja aldrei að nóg sé gert og hafa gjarnan uppi orð eins og fjársvelti.

Eitt lögmál rekstrar hins opinbera er að fjárþörf opinberra stofnana er aldrei hægt að fullnægja. Forsvarsmenn og starfsmenn stofnananna, auk þeirra sem mestra hagsmuna eiga að gæta af starfseminni, telja aldrei að nóg sé gert og hafa gjarnan uppi orð eins og fjársvelti.

Í þessu sambandi breytir engu þó að útgjöld hins opinbera blási út á ógnarhraða, eins og til að mynda í tilviki ríkissjóðs þessi misserin. Dæmi um meintan stöðugan fjárskort koma reglulega fram í umræðum um heilbrigðismál, en í þann málaflokk fer mikið og vaxandi fé sem þó dugar aldrei.

Annað dæmi um slíkan meintan fjárskort mátti lesa í viðtali við forseta Stúdentaráðs Háskóla Íslands hér í blaðinu í gær. Þar kom fram að forsetinn telur HÍ búa við fjársvelti, en um leið að skólinn fái 31,4 milljarða króna í framlag frá ríkinu á þessu ári. Fjársveltið felst í því, að mati forsetans, að einn milljarð enn vanti til að dæmið gangi upp.

Einn vandinn er sá að útgjöld eru notuð sem gæðaviðmið og það felur í sér að aldrei má spara því að allur sparnaður er af hinu illa. Þannig kom fram í viðtalinu við forsetann að tiltekna upphæð vanti upp á til að Ísland eyði því sama á háskólanema og gert sé í hinum norrænu löndunum. Aukin útgjöld eru þá orðin sérstakt markmið, ekki gæði námsins eða gagnsemi þess.