Tónlist Magnús segir samstarfið við aðra tónlistarmenn gefandi.
Tónlist Magnús segir samstarfið við aðra tónlistarmenn gefandi. — Morgunblaðið/Hallur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarmaðurinn Magnús Jóhann Ragnarsson, sem er gestur Dagmála, frétta- og dægurmálaþáttar Morgunblaðsins, segir dagatalið í símanum vera lykilinn að því hvernig hann fer að því að láta þéttpakkaða dagskrá sína ganga upp

Dagmál

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnhedurb@mbl.is

Tónlistarmaðurinn Magnús Jóhann Ragnarsson, sem er gestur Dagmála, frétta- og dægurmálaþáttar Morgunblaðsins, segir dagatalið í símanum vera lykilinn að því hvernig hann fer að því að láta þéttpakkaða dagskrá sína ganga upp. Hann hefur verið afar virkur í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár, bæði gefið út sína eigin tónlist og unnið í samstarfi við aðra.

Magnús hefur starfað sem tónlistarstjóri í Idol-þáttunum sem hafa verið sýndir á Stöð 2 undanfarnar vikur og lýkur með úrslitakvöldi á föstudag. Þá hefur hefur hann einnig unnið mikið á bak við tjöldin að verkefnum tónlistarmanna á borð við Bríeti, GDRN, Aron Can, Flóna, Herra Hnetusmjör, Friðrik Dór og hljómsveitina Moses Hightower, sem upptöku- og tónlistarstjóri, píanóleikari og tónskáld svo eitthvað sé nefnt.

Árið 2021 gaf Magnús út plötuna Án tillits, með tónskáldinu og bassaleikaranum Skúla Sverrissyni. Í september síðastliðnum gáfu þau Guðrún Ýr Eyfjörð, eða GDRN, síðan út plötuna Tíu íslensk sönglög. Þau munu fagna útgáfunni með tvennum tónleikum í Hörpu á laugardag, 11. febrúar. „Þeir verða vonandi fágaðir og elegant. Við ætlum að vera með skemmtilega stemningu þarna í Norðurljósasalnum, við verðum á miðju gólfinu með sérsmíðað hringsvið sem vonandi býr til góða stemningu.“

Það eru ýmis verkefni í bígerð, platan Rofnar sem hefur að geyma tónlist úr leikverkinu Helgi Þór rofnar, og plata með Óskari Guðjónssyni saxófónleikara. Þá er von á samstarfsverkefni með Bubba Morthens í vor.

Kærulaus og æðrulaus

Í hans eigin tónsmíðum mætist nýklassík, djass, spuni og raftónlist. „Ég veit ekki hvernig er best að útskýra þetta en ég hef smekk fyrir einhverju ákveðnu tónmáli, hljóðferlum og hljóði sem ég vona að skili sér í einhverjum rauðum þræði.“ Spurður út í það skref að fara að gefa út undir eigin nafni segir hann: „Maður hefur alltaf þurft að vera svolítið kærulaus og æðrulaus gagnvart þessu. Það er berskjöldun fólgin í því að gefa eitthvað út,“ segir hann. Það eigi bæði við um það sem hann gefi út sjálfur og með öðrum. Hann segist hafa verið heppinn að hafa haft mörg tækifæri til þess að koma fram frá því hann var unglingur. „Stóri sannleikurinn sem maður hefur komist að er sá að maður spilar aldrei gigg sem er fullkomið. Ég held að allt ungt tónlistarfólk læri það á endanum.“

Magnús viðurkennir að það geti verið erfitt að ná að sinna öllu því sem hann vill, bæði sinni eigin sköpun og verkefnum með öðrum en sem betur fer eigi verkefnin það til að koma í törnum og púslast ágætlega. Stundum sé þó lítill tími til þess að einbeita sér að sínum eigin tónsmíðum. „En þetta helst þannig í hendur að það er inspírerandi og gefandi að vinna með öðru fólki sama þótt það sé kannski í allt öðru músíkölsku samhengi en ég er að fást við í minni músík. Ég myndi ekki vilja vera án þess en ég er undanfarin ár búinn að vera að breyta hlutföllunum aðeins. Maður þarf gagngert að skapa sér tíma fyrir sjálfan sig, fara í smá frí inni á milli og velja verkefnin af kostgæfni.“

Hann segir mikilvægt að njóta ferlisins, ekki aðeins lokaútkomunnar. „Ef maður er alltaf að hugsa um að klára, af hverju er maður þá að þessu? Ég er að mörgu leyti heppinn að vera að lifa drauminn, að vinna með vinum sínum og fólki sem mann langar að vinna með að músík sem manni finnst spennandi. Það eitt og sér er stórkostlegt. Og svo lengi sem ég get haldið því áfram, sama í hvaða samhengi það er, þá er ég kátur.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir