— AFP/Rami al Sayed
Verstu jarðskjálftar sem orðið hafa í Tyrklandi og Sýrlandi í heila öld hafa nú þegar valdið dauða 3.600 manna. Jarðskjálftahrinan hófst kl. 4.17 að staðartíma í fyrrinótt þegar skjálfti, 7,8 að stærð, reið yfir suðurhluta Tyrklands og Aleppo-svæðið í norðurhluta Sýrlands

Verstu jarðskjálftar sem orðið hafa í Tyrklandi og Sýrlandi í heila öld hafa nú þegar valdið dauða 3.600 manna. Jarðskjálftahrinan hófst kl. 4.17 að staðartíma í fyrrinótt þegar skjálfti, 7,8 að stærð, reið yfir suðurhluta Tyrklands og Aleppo-svæðið í norðurhluta Sýrlands. Meira en fimmtíu eftirskjálftar gengu yfir í gær og eftir hádegið kom annar skjálfti sem var 7,5 að stærð. Talið er að meira en þrjú þúsund byggingar í Tyrklandi hafi hrunið og algjör óreiða ríkti á snæviþöktum götunum þegar fólk þusti út úr húsum sínum á náttfötunum skelfingu lostið.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, lýsti í gær yfir þjóðarsorg í sjö daga og biðlaði til umheimsins um aðstoð til handa tyrknesku þjóðinni.

Eygló Guðmundsdóttir sálfræðingur er í tyrknesku borginni Gazientep og sagði ástandið skelfilegt og margar byggingar rústir einar. Hún sagði mikla hræðslu ríkja og búist var við að skjálftarnir gætu orðið fleiri. Hún var stödd í skólahúsi þar sem borgaryfirvöld höfðu safnað saman fólki. Hún sagði í gærkvöldi að fólk og lítil börn væru að reyna að sofna eftir að hafa vakað frá því fjögur aðfaranótt mánudags.

„Þetta er alveg hræðilegt,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og talar um stöðugt hækkandi tölu látinna. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að Íslendingar muni leggja sitt af mörkum til aðstoðar á jarðskjálftasvæðunum bæði í Tyrklandi og í Sýrlandi. Hún segir fyrsta skrefið vera mannúðaraðstoð í formi fjárframlaga í gegnum Sameinuðu þjóðirnar með nágrannaþjóðunum. „Við erum að skoða það að senda sérfræðinga í aðgerðastjórnun í rústabjörgun.“ » 13