Í stuði Syngjandi stuðningsmenn í stúku.
Í stuði Syngjandi stuðningsmenn í stúku. — Morgunblaðið/Eggert
Dagskrá RÚV riðlast reglulega vegna alls kyns boltaleikja. En nú er þetta boltafár frá – í bili. Það mun aftur halda innreið sína. Um leið verður ætlast til að við komum okkur öll í það banastuð sem stuðningsmenn íþrótta eru þekktir fyrir

Kolbrún Bergþórsdóttir

Dagskrá RÚV riðlast reglulega vegna alls kyns boltaleikja. En nú er þetta boltafár frá – í bili. Það mun aftur halda innreið sína. Um leið verður ætlast til að við komum okkur öll í það banastuð sem stuðningsmenn íþrótta eru þekktir fyrir. Það vill bara svo til að sumum okkar er alveg hjartanlega sama hver vinnur hvaða leik.

Íþróttaáhugamenn hafa takmarkaðan sjóndeildarhring. Á HM í fótbolta, sem lauk loksins, héldu þeir með Englandi, Argentínu, Brasilíu og öðrum stórþjóðum. Í veikburða tilraun til að koma sér upp áhuga á keppninni hélt sú sem þetta skrifar með Suður-Kóreu og Japan. Leikmenn þessara þjóða voru prúðir og hógværir og alls ólíklegir til að vera skattsvikarar og hórkarlar eins og of margir leikmenn stórþjóðanna.

Svo kom HM í handbolta og manni skildist að þar myndi íslenska liðið komast á verðlaunapall, hreint formsatriði væri að spila leikina. RÚV setti sig í gírinn og lét eins og áhorf á leiki væri borgaraleg skylda. Það eina sem maður vildi var samt að kvöldfréttir yrðu á réttum tíma. Svo gat íslenska liðið ósköp lítið, eins og maður þóttist reyndar vita en gætti þess að hafa ekki orð á. Það voru hinir syngjandi íslensku stuðningsmenn sem björguðu því sem bjargað varð.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir