Síðastliðinn sunnudag fór ég loksins á mitt fyrsta frjálsíþróttamót sem íþróttafréttamaður, þrátt fyrir að vera nú á mínu fjórða ári í starfinu. Einhvern veginn hefur það atvikast þannig, sem er nokkuð miður, þar sem mótið var hin allra besta…

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Síðastliðinn sunnudag fór ég loksins á mitt fyrsta frjálsíþróttamót sem íþróttafréttamaður, þrátt fyrir að vera nú á mínu fjórða ári í starfinu.

Einhvern veginn hefur það atvikast þannig, sem er nokkuð miður, þar sem mótið var hin allra besta skemmtun og allt í tengslum við það til mikillar fyrirmyndar.

Um frjálsíþróttamót Reykjavíkurleikanna var að ræða, sem fór fram í Laugardalshöll.

Sérstaka athygli mína vakti fyrirmyndarskipulag Frjálsíþróttasambands Íslands. Allt gekk snurðulaust og afar hratt fyrir sig án þess að það tæki neitt frá upplifuninni.

Upplýsingagjöf var regluleg og einkar skýr, starfsfólk var yfirmáta hjálplegt og hafði góða þekkingu á málum og vinnuaðstaðan fyrir fjölmiðlafólk við hlið hlaupabrautarinnar var með besta móti.

Margt af okkar fremsta frjálsíþróttafólki var mætt til keppni. Að öðrum ólöstuðum stal Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH senunni þegar hann stórsló eigið Íslandsmet í 200 metra hlaupi.

Það var eina Íslandsmetið sem féll á sunnudag en Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR hjó ansi nærri eigin Íslandsmeti í 60 metra hlaupi og Irma Gunnarsdóttir úr FH, sem er rætt við hér til hliðar, var afar nálægt sínu besta í langstökki.

Þá var gaman að sjá Arnar Loga Brynjarsson úr ÍR hafna í þriðja sæti í 60 metra hlaupi, þar sem Kolbeinn Höður reyndist einnig hlutskarpastur. Arnar Logi er aðeins 15 ára gamall og því ljóst að um gífurlegt efni er að ræða.