Eyjapistill Gísli Helgason í hljóðveri í Útvarpshúsinu á Skúlagötu 4 vorið 1973. Tæknimaður er Þorbjörn Sigurðsson sem sést í forgrunni.
Eyjapistill Gísli Helgason í hljóðveri í Útvarpshúsinu á Skúlagötu 4 vorið 1973. Tæknimaður er Þorbjörn Sigurðsson sem sést í forgrunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Í dag er hálf öld liðin frá því að fyrsti Eyjapistillinn, útvarpsþáttur tvíburabræðranna Arnþórs og Gísla Helgasona, fór í loftið á vegum Ríkisútvarpsins. Þættinum, sem var á dagskrá í rúmlega eitt ár, var ætlað að greiða fyrir samskiptum Vestmannaeyinga og liðsinna þeim á ýmsan hátt eftir að þeir urðu að flýja heimili sín í eldgosinu sem hófst 23. janúar 1973.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Í dag er hálf öld liðin frá því að fyrsti Eyjapistillinn, útvarpsþáttur tvíburabræðranna Arnþórs og Gísla Helgasona, fór í loftið á vegum Ríkisútvarpsins. Þættinum, sem var á dagskrá í rúmlega eitt ár, var ætlað að greiða fyrir samskiptum Vestmannaeyinga og liðsinna þeim á ýmsan hátt eftir að þeir urðu að flýja heimili sín í eldgosinu sem hófst 23. janúar 1973.

„Þeir Stefán Jónsson fréttamaður og Stefán Karlsson, þáverandi formaður útvarpsráðs, fóru saman til Eyja stuttu eftir að gosið hófst og í samtölum við bæjarstjórnina buðu þeir að sérstökum útvarpsþætti yrði haldið úti til að greiða götu íbúanna á fastalandinu,“ segir Gísli Helgason í samtali við Morgunblaðið þegar hann rifjar upp aðdragandann.

Ekki lá í augum uppi hverjum ætti að fela umsjón með þættinum en Stefán Jónsson tók af skarið um það, hringdi í Gísla og tilkynnti honum að þeir bræður, þá rúmlega tvítugir, ættu að sjá um fimmtán mínútna langan útvarpsþátt og byrja strax daginn eftir. Stefán var góðvinur Helga Benediktssonar, föður Arnþórs og Gísla, og þekkti bræðurna einnig ágætlega.

Trúði þessu ekki fyrst

Gísli sagðist í fyrstu hafa haldið að þetta gæti ekki staðist, en Stefán hefði hins vegar verið mjög skýr í tali. „Það er búið að ákveða þetta, sagði hann og það væri ekkert undanfæri, þetta yrði enginn vandi,“ segir Gísli. Við fengjum þá hjálp sem við þyrftum. „Þið skiptið þáttunum í nokkur efnisatriði, kveðjur, tilkynningar, fréttir og spjall og þetta verða sirka tveir tímar á dag, sem fara í þetta hjá ykkur,“ hafi Stefán sagt.

Í Eyjapistli var flutt mjög fjölbreytt efni sem eingöngu var miðað við þarfir Vestmannaeyinga, fréttir, viðtöl, frásagnir og auglýsingar. Gísli segir að útvarpið hafi verið mun alvörugefnari stofnun á þessum árum en nú og stjórnendur þess stífir á öll formsatriði og kröfuharðir um málfar sem ekki mátti víkja frá gullaldarsniði og virðuleika. Þeir bræður hafi hins vegar leyft sér sitt af hverju og ekki verið mjög hátíðlegir.

„Við lögðum mikla áherslu á að hafa yfirbragðið með léttu móti, við spjölluðum beint við hlustendur, lásum tilkynningar og spjölluðum um það sem var á seyði. Þá áttum við stundum til að útvarpa samtölum við hlustendur beint. Við vorum alltaf með segulbandstæki við símann og oft urðu samtölin mjög skemmtileg. Einnig vorum við með mörg viðtöl og reyndum að láta skemmtiefni fljóta með eftir því sem kostur var,“ segir Gísli.

Svokölluð snældutæki voru á þessum tíma nýlega komin á markað sem almenningseign. „Við urðum fyrstir til að nota slík tæki við öflun viðtala og efnis hjá Ríkisútvarpinu. Þetta var að mörgu leyti miklu léttara þó að tóngæðin væru ef til vill ekki eins og skyldi. Tækið, sem við notuðum mest er nú komið á Byggðasafnið í Eyjum,“ segir Gísli sem afritaði flesta Eyjapistlana fyrir nokkrum árum og gerði þá aðgengilega á netinu. Þættirnir voru undir lokin fluttir vikulega, sá síðasti 25. mars 1974. Samtals urðu Eyjapistlarnir 264 og heildarlengd þeirra 90 klst.