Óviðjafnanleg Beyoncé tekur við 32. Grammy-verðlaunagripnum.
Óviðjafnanleg Beyoncé tekur við 32. Grammy-verðlaunagripnum. — AFP/Valerie Macon
Beyoncé þakkaði eiginmanni sínum Jay-Z og hinsegin samfélaginu þegar hún tók við verðlaunum í flokki bestu dans- og raftónlistarplötunni fyrir hljómplötuna Renaissance á 65

Beyoncé þakkaði eiginmanni sínum Jay-Z og hinsegin samfélaginu þegar hún tók við verðlaunum í flokki bestu dans- og raftónlistarplötunni fyrir hljómplötuna Renaissance á 65. Grammy-verðlaunahátíðinni sem fram fór í Los Angeles á sunnudagskvöld. Beyoncé hlaut fern Grammy-verðlaun á hátíðinni og varð þar með sá tónlistarmaður sem hlotið hefur flest Grammy eða 32 talsins. Önnur verðlaun sem féllu henni í skaut voru besta R&B lagið („Cuff It“), besta dans- og raftónlistarupptakan („Break My Soul“) og besti hefðbundni R&B flutningurinn („Plastic Off the Sofa“).

Það var hinn breski Harry Styles sem hlaut helstu verðlaun kvöldsins þegar plata hans, Harry’s House var valin besta hljómplata ársins en að auki hlaut hann verðlaun í flokknum besti poppsöngvarinn. Harry var auðmjúkur í þakkarávarpi sínu og sagði m.a.: „Á kvöldum sem þessum er mikilvægt að muna að það er ekkert til sem heitir bestur í tónlist … svona lagað gerist ekki oft fyrir fólk eins og mig.“

Meðal annarra verðlaunahafa má nefna hina bresku Adele sem hlaut verðlaun fyrir bestu sóló poppflutninginn fyrir lagið „Easy on Me“ og hefur hún þar með hlotið 16 Grammy-verðlaun alls.

Kendrick Lamar var verðlaunaður fyrir besta rapp-flutninginn („The Heart Part 5“), besta rapp-lagið („The Heart Part 5“) og bestu rapphljómplötuna (Mr. Morale & the Big Steppers).

Lizzo hlaut verðlaun fyrir upptöku ársins fyrir „About Damn Time“ og tileinkaði verðlaunin Prince auk þess sem hún þakkaði Beyoncé fyrir hennar framlag og áhrif á líf sitt og list.

Þá ber að nefna að leikkonan og framleiðandinn, Viola Davis komst á sunudagskvöldið í þann virta EGOT-klúbb en þar sitja þeir sem hafa hlotið Emmy (sjónvarp), Grammy (tónlist), Oscar (kvikmyndir) og Tony (leikhús) verðlaun. Hlaut hún Grammy fyrir hljóðbókarútgáfu sjálfsævisögunnar Finding Me.