Moskvuvaldið Innrásarlið Rússlandsforseta hefur nú leitt til þess að staða Rússlands hefur hríðfallið á lista þeirra sem meta ríki heims.
Moskvuvaldið Innrásarlið Rússlandsforseta hefur nú leitt til þess að staða Rússlands hefur hríðfallið á lista þeirra sem meta ríki heims. — AFP/Guneyev Sputnik
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Rannsóknarfyrirtækið Economist Intelligence Unit, EIU, gaf nýverið út nýja skýrslu um stöðu lýðræðis í heiminum fyrir árið 2022 og er Ísland þar í þriðja sæti með einkunnina 9,52 af 10 mögulegum. Eru það einungis Noregur, með 9,81, og Nýja-Sjáland, með 9,61, sem fá hærri meðaleinkunn en Ísland. Rússar eru í hópi þeirra fáu þjóða sem fá verri einkunn milli úttekta og er innrásarstríð þeirra í Úkraínu sagt ástæðan. EIU er hluti samsteypunnar sem gefur út breska blaðið The Economist.

Baksvið

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Rannsóknarfyrirtækið Economist Intelligence Unit, EIU, gaf nýverið út nýja skýrslu um stöðu lýðræðis í heiminum fyrir árið 2022 og er Ísland þar í þriðja sæti með einkunnina 9,52 af 10 mögulegum. Eru það einungis Noregur, með 9,81, og Nýja-Sjáland, með 9,61, sem fá hærri meðaleinkunn en Ísland. Rússar eru í hópi þeirra fáu þjóða sem fá verri einkunn milli úttekta og er innrásarstríð þeirra í Úkraínu sagt ástæðan. EIU er hluti samsteypunnar sem gefur út breska blaðið The Economist.

Þeir þættir sem mældir voru í úttekt EIU eru kosningar og lýðræðisþátttaka, virkni ríkisstjórnar, stjórnmálaþátttaka borgaranna, stjórnmálamenning og staða borgaralegra réttinda.

Samkvæmt úttektinni fyrir 2022 voru 72 af þeim 167 ríkjum sem litið var til talin vera lýðræðisríki, eða 43,1%. Þau ríki sem telja má til „algjörra lýðræðisríkja“ eru 24, en voru 21 árið 2021. Ríkin þrjú sem bættu stöðu sína milli úttekta og náðu þannig þessum eftirsótta titli eru Síle, Frakkland og Spánn. Til að teljast til „algjörra lýðræðisríkja“ þarf að ná einkunn 8 eða hærra.

Moskva fær falleinkunn

Mikla athygli vekur algjört hrun Rússa í úttekt EIU á milli ára, eru nú einungis með 2,28 stig af 10 mögulegum, féllu þannig um 22 sæti á einu bretti og skipa nú 146. sæti listans. Aðeins 21 ríki stendur sig verr, þ. á m. bandamenn þeirra í Hvíta-Rússlandi sem er í 153. sæti. Féll það um 7 sæti á milli ára.

„Áhersla lýðræðisskýrslu þessa árs er á innrásarstríð Rússlands í Úkraínu og mikilvægi þess fyrir framtíð lýðræðis í Evrópu og á heimsvísu. Sú ákvörðun Úkraínumanna að berjast fyrir þeim rétti að ákveða eigin framtíð er öllum innblástur. Hún sýnir hvernig kraftur og gildi lýðræðislegra hugmynda getur sameinað þjóð í leit sinni að lýðræðinu,“ segir í skýrslu EIU.

Sé baráttuandi Úkraínumanna og vilji þeirra til að verja landamærin dæmi um lýðræði í framkvæmd þá eru brot Rússlands á fullveldi Úkraínu afkvæmi heimsvaldastefnu Rússlandsforseta, segja höfundar.

„Sá draumur Vladimírs Pútíns að endurvekja stöðu Rússlands sem heimsveldi er að molna. Eftir meira en tíu mánuði af bardögum í Úkraínu var það ljóst í lok árs 2022 að Rússland var ekki einungis að tapa á vígvellinum, heldur ætti það einnig erfitt með áróðursstríðið heima og heiman. Klúðursleg hernaðaraðgerð Rússa hefur kallað á gagnrýni frá hinum hörðustu þjóðernissinnum á sama tíma og fjöldi látinna og klaufaleg herkvaðning Kremlverja hefur fært stríðið inn á heimili hins venjulega Rússa og valdið þar uppnámi,“ segir í skýrslu EIU, en jafnframt er bent þar á að ekkert annað ríki hafi fallið jafn hratt niður listann.

„Rússland hefur í langan tíma verið á hraðri leið frá lýðræði og minnir nú helst á einræðisríki.“

Bandamenn Rússa á botninum

Talibanaríkið Afganistan er nú í neðsta sæti lista EIU, sæti sem oft hefur fallið í skaut Norður-Kóreu. Eru Afganir þannig í 167. sæti með 0,32 stig af 10. Stigagjöfin þarf ekki að koma nokkrum á óvart, öfgafull stjórnvöld sem engum eira.

Helstu bandamenn Rússa í Úkraínustríðinu, þjóðir sem annaðhvort styðja við stríðsreksturinn með beinum hætti eða tala ekki gegn honum, falla allar eða standa í stað á milli ára. Kína fellur um 8 sæti, er með alls 1,94 stig; Hvíta-Rússland féll sem fyrr segir um 7 sæti, er með 1,99 stig og Sýrland féll um 1 sæti, er með 1,43 stig. Norður-Kórea stendur í stað með 1,08 stig og Íran sömuleiðis með 1,96 stig.

Norðurlöndin á toppnum

Í sex efstu sætum lista EIU má finna Norðurlöndin auk Nýja-Sjálands. Þannig er Noregur í efsta sæti með 9,81 stig; Nýja-Sjáland í öðru með 9,61 stig; Ísland í þriðja með 9,52 stig; Svíþjóð í fjórða með 9,39; Finnland í fimmta með 9,29 stig og Danmörk í sjötta með 9,28 stig. Af þeim er það einungis Finnland sem fellur á milli ára, missir 2 sæti, en hin ríkin annaðhvort standa í stað eða bæta við sig.

„Ríki í Vestur-Evrópu fylla 8 af 10 efstu sætum lýðræðislistans og eru meira en helmingur (14) þeirra 24 ríkja sem kallast „algjör lýðræðisríki“. Vestur-Evrópa er einnig það svæði sem stendur sig best árið 2022 þegar kemur að því að bæta stigagjöf sína,“ segir í skýrslu EIU, en þar er einnig bent á að ríki Vestur-Evrópu hafi náð sér vel á strik eftir afléttingu aðgerða vegna Covid-19. Hið sama á ekki við um öll svæði heims, enda séu aðgerðir enn í gangi á sumum svæðum.

Einnig má geta þess að Úkraína er í 87. sæti listans, féll um 1 sæti á milli ára og er með 5,42 stig í heildina. Þá féllu Bandaríkin um 4 sæti á milli ára, eru í 30. sæti með 7,85 stig.

Höf.: Kristján H. Johannessen