Tyrkland Birkir býr í Adana.
Tyrkland Birkir býr í Adana. — Ljósmynd/Robert Spasovski
Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Adana Demirspor í Tyrklandi, hefur tilkynnt að hann sé óhultur eftir að stærðarinnar jarðskjálfti reið yfir suðausturhluta Tyrklands, þar sem Birkir er búsettur

Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Adana Demirspor í Tyrklandi, hefur tilkynnt að hann sé óhultur eftir að stærðarinnar jarðskjálfti reið yfir suðausturhluta Tyrklands, þar sem Birkir er búsettur.

Í gærkvöldi voru 2.600 manns látnir, þar af 1.651 í Tyrklandi og 968 í Sýrlandi, en fjölda manns er enn saknað. Upptök jarðskjálftans voru við landamæri landanna tveggja, skammt frá borginni Gaziantep í Tyrklandi, og náði skjálftinn meðal annars til Adana, borgarinnar þar sem íþróttafélagið Adana Demirspor er og Birkir býr. Á facebooksíðu sinni tilkynnti Birkir, sem er leikjahæsti landsliðsmaður karla í knattspyrnu frá upphafi, að hann væri óhultur. Hann var ekki heima hjá sér í Adana þar sem lið hans átti að spila á útivelli í gær gegn Ümraniyespor í Istanbúl.

Christian Atsu, knattspyrnumaður frá Gana sem áður lék með Newcastle og fleiri enskum liðum, er á meðal þeirra sem er saknað. Cemal Kutahya, landsliðsmaður Tyrklands í handknattleik og leikmaður Hatayspor, er líka í hópi þeirra sem eru sagðir týndir eftir skjálftann. Fleiri knattspyrnumanna er saknað því B-deildarfélagið Yeni Malatyaspor hefur staðfest að markvörðurinn Eyup Turkaslan sé týndur. Fjölmiðillinn Haber Global segir að leikmenn úr knattspyrnuliði Marasspor hafi verið á hóteli sem eyðilagðist í skjálftanum. Í það minnsta tvö blaklið, annað skipað stúlkum 14 ára og yngri, hafi lent í vandræðum og fjölmiðillinn Birgun segir að hópur glímumanna sé fastur í húsarústum.

Öllum íþróttaviðburðum í Tyrklandi hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna jarðskjálftans.