Sjókvíar Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi eru veikburða.
Sjókvíar Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi eru veikburða. — Morgunblaðið/Eggert
„Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hafa reynst veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar síðustu ár.“ Þetta er niðurstaða stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirliti með sjókvíaeldi hér á landi

„Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hafa reynst veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar síðustu ár.“

Þetta er niðurstaða stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirliti með sjókvíaeldi hér á landi. Í skýrslunni „Sjókvíaeldi: lagaframkvæmd, stjórnsýsla og eftirlit“ er að finna 23 ábendingar um úrbætur sem stofnunin telur að þurfi að gera á stjórnsýslu málaflokksins.

„Fáheyrt er að settar séu fram svo margar ábendingar í stjórnsýsluúttektum stofnunarinnar,“ segir í tilkynningu Ríkisendurskoðunar. Stofnunin fullyrðir að „samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinna gegn því að auðlindin skili hámarksávinningi fyrir ríkissjóð hefur fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda. Verðmætum í formi eldissvæða og leyfa til sjókvíaeldis hefur verið úthlutað til lengri tíma án endurgjalds og dæmi eru um að uppbygging sjókvíaeldis skarist á við aðra mikilvæga nýtingu strandsvæða, svo sem siglingaleiðir og helgunarsvæði fjarskipta- og raforkustrengja.“

Þó nokkrar breytingar voru gerðar á lagaumhverfi sjókvíaeldis árin 2014 og 2019. Breytingarnar skiluðu þó takmörkuðum árangri að mati Ríkisendurskoðunar. „Hvorki tókst að skapa aukna sátt um greinina né hefur eldissvæðum eða heimildum til að nýta leyfilegan lífmassa á tilteknum hafsvæðum verið úthlutað með útboði eins og til stóð.“