Bandaríska körfuboltastjarnan Steph Curry tekur ekki þátt í leikjum ríkjandi NBA-meistara Golden State Warriors næstu vikurnar, eftir að hann meiddist á fæti. Curry, einn besti skotmaður körfuknattleikssögunnar, varð fyrir meiðslunum í sigri Golden State á Dallas Mavericks aðfaranótt sunnudags

Bandaríska körfuboltastjarnan Steph Curry tekur ekki þátt í leikjum ríkjandi NBA-meistara Golden State Warriors næstu vikurnar, eftir að hann meiddist á fæti. Curry, einn besti skotmaður körfuknattleikssögunnar, varð fyrir meiðslunum í sigri Golden State á Dallas Mavericks aðfaranótt sunnudags. Golden State tilkynnti á sunnudaginn að efra liðband við sköflung hefði rifnað smávægilega auk þess sem hann hafi hlotið áverka neðar á fótleggnum.

Camila Pescatore, landsliðskona Venesúela í knattspyrnu, er gengin til liðs við ÍBV og hefur samið um að leika með liðinu á komandi keppnistímabili. Hún er 22 ára, fjölhæfur leikmaður en hefur mest spilað sem vinstri bakvörður, og kemur frá William Carey-háskóla í Bandaríkjunum þar sem hún hefur leikið undanfarin ár.

Veronika Guseva og Ævar Freyr Valbjörnsson fögnuðu sigri í Hermannsgöngunni á gönguskíðum sem fram fór í Kjarnaskógi á Akureyri um helgina. Veronika og Ævar, sem bæði keppa fyrir Skíðafélag Akureyrar, komu fyrst í mark í 24 kílómetra göngu. Í 12 kílómetra göngu komu Róbert Bragi Kárason Skíðafélagi Akureyrar og Svava Rós Kristófersdóttir Skíðafélagi Ólafsfjarðar fyrst í mark. Það var svo Viktóría Rós Guseva sem fagnaði sigri í 4 kílómetra göngu kvenna og Jökull Ingimundarson kom fyrstur í mark karlamegin.

Knattspyrnukonan Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir er gengin til liðs við Víking í Reykjavík og hefur samið við félagið til tveggja ára. Kolbrún er 23 ára gömul og ólst upp hjá Fjölni en hefur síðan spilað með Stjörnunni, Haukum og síðast með Fylki. Alls á hún að baki 37 leiki í efstu deild. Víkingur hafnaði í 3. sæti 1. deildar á síðasta tímabili, þremur og fjórum stigum á eftir FH og Tindastóli sem fóru upp í Bestu deildina.