Arndís Erlingsdóttir fæddist 2. júlí 1932 á Galtastöðum í Flóahreppi, þá Gaulverjabæjarhreppi. Hún lést 28. janúar 2023 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Foreldrar hennar voru Guðlaug Jónsdóttir, f. 21. júlí 1894, d. 6. maí 1981, frá Syðra-Velli í sömu sveit, og Jón Erlingur Guðmundsson, f. 1. ágúst 1899, d. 27. maí 1985 frá Fjalli á Skeiðum, bændur á Galtastöðum. Arndís var önnur í röð fjögurra systkina er upp komust og eina dóttirin en áður höfðu þau hjón misst tvær dætur: Stúlku, f. 21. febr. 1929, d. sama dag og Rannveigu, f. 18. jan. 1930, d. 2. febr. 1930. Bræður Arndísar: 1) Guðmundur Erlingsson, f. 7. apríl 1931, d. 2. des. 2009. 2) Sigurjón Þór, f. 12. okt. 1933. 3) Árni Sverrir, f. 3. júlí 1935, d. 2. júlí 2019.

Arndís giftist Brynjólfi Guðmundssyni árið 1952. Synir þeirra eru: 1) Erlingur, f. 17. des. 1952, d. 5. febr. 2017. Sambýliskona hans var Sigurey Finnbogadóttir. Börn þeirra eru Brynjólfur og Freyja Katra. Kona Brynjólfs Erlingssonar er Kristín Rannveig Snorradóttir og eiga þau þrjú börn. 2) Ragnar Geir, f. 31.3. 1961. Kona hans er Maria Geraldine B. Cuizon. Börn Ragnars og Mariu eru Rúnar Gerard, Bragi Daníel og Bryndís Emilía.

Brynjólfur og Arndís unnu á búi foreldra Brynjólfs í Kolsholtshelli í Villingaholtshreppi og höfðu þar framfærslu frá vori 1952 til vors 1956, fluttu þá að Galtastöðum og bjuggu þar til ársins 1990. Þá fluttu þau að Tunguvegi 1 á Selfossi. Þar bjuggu þau til ársins 2005 er þau fluttu í íbúð fyrir eldri borgara í Grænumörk 2, Selfossi.

Arndís tók fullnaðarpróf frá Barnaskóla Gaulverjabæjarhrepps. Var næsta vetur í kvöldtímum í dönsku og að læra ensku eftir útvarpinu. Hún stundaði nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur veturinn 1950-51. Hún lærði einnig ensku í Bréfaskóla SÍS og Námsflokkum Selfoss, sótti námskeið í förðun hjá Þjóðleikhúsinu, í þjóðdönsum hjá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur og bókfærslu, frönsku og myndmennt í öldungadeild FSu.

Arndís var ritari ungmennafélagsins Samhygðar og tók þátt í leikstarfsemi þess. Hún kenndi handavinnu stúlkna einn vetur í Gaulverjaskóla. Hún var ritari Kvenfélags Gaulverjabæjarhrepps og síðar formaður þess félags. Gjaldkeri Sambands sunnlenskra kvenna var hún um tíma og fulltrúi sambandsins á landsþingum Kvenfélagasambands Íslands. Í kjörstjórn Gaulverjabæjarhrepps og formaður eitt kjörtímabil. Hún var stofnfélagi Kirkjukórs Gaulverjabæjarkirkju og söng með kórnum með sex ára hléi þar til flutt var á Selfoss. Hún var fyrsta konan í stjórn Kaupfélags Árnesinga og varaformaður þess í nokkur ár. Hún var fulltrúi kaupfélagsins á ársfundum SÍS í u.þ.b. áratug auk þess að vera starfsmaður kaupfélagsins frá 1990-1999. Hún var í Félagi framsóknarkvenna í Árnessýslu og fulltrúi þess á kjördæmisþingi og flokksþingi Framsóknarflokksins. Hún var formaður kórs eldri borgara í Árborg, Hörpukórsins, frá 2005-2015.

Útförin fer fram frá Selfosskirkju í dag, 7. febrúar 2023, klukkan 13.

„Hún Dísa er sveitastúlkan mín,“ sagði sonur okkar þegar hann var sjö ára. Í hans huga var hún glæsilegur fulltrúi sveitarinnar en í raun var hún heimskona. Hún var fljúgandi gáfuð og allt lék í höndum hennar. Foreldrum mínum var í mun að ég (Helga) tæki mér hana til fyrirmyndar í einu og öllu. Sannarlega reyndi ég mitt besta en erfitt var það. Hún var dökk yfirlitum en ég litlaus. Hún var lágvaxin og fíngerð en ég var þvengjalengja. Hún hafði gott tóneyra og fallega söngrödd en ég laglaus. Hún var fyrirmannleg eins og drottning en ég var skellibjalla. Hún naut sín vel í fjölmenni og sérstaklega ef hún hafði krefjandi hlutverk, enda hafði hún mikla forystuhæfileika. Eftirminnilegar eru margar frábærar samverustundir sem við áttum með þeim hjónum, Dísu og Brynjólfi, þeim mikla heiðursmanni. Í fjöldamörg ár vorum við gestir á heimili þeirra á nýársdag, fyrst á Galtastöðum í Flóa en síðar á Selfossi. Víða höfum við setið boð í veröldinni en engin hafa þau tekið fram veislum þeirra Dísu og Binna en þau voru einfaldlega matreiðslusnillingar. Öll umgjörð veislunnar einkenndist af frumleik og næmu fegurðarskyni. Bæði voru þau sagnameistarar enda mjög fróð og höfðu næma tilfinningu fyrir hinu markverða í tilverunni. Sögur þeirra voru skemmtilegar en aldrei á annarra kostnað. Gestrisni þeirra og hjartahlýja var einstök. Bæði höfðu áhuga á ljóðlist, bókmenntum og listum almennt. Þau báru virðingu fyrir náttúrunni og voru miklir náttúruverndarsinnar ekki bara í orði heldur á borði.

Brynjólfur reisti af miklum hagleik sérstakan blómaskála kringum innganginn á Galtastöðum handa Dísu sinni. Höfugur ilmur rósa tók móti gestum sem þangað lögðu leið sína. Það var blátt áfram ævintýralegt að stíga þar yfir þröskuld. Þvílík fegurð og fjöldi vandræktaðra eðalrósa. Þar var gaman að drekka kaffi og njóta fegurðar Flóans handan glersins, þeirrar fegurðar sem pabbi lýsti oft fyrir mér sem barni en sumir aðrir komu aldrei auga á. Eitt var það sem einkenndi Dísu sérstaklega en það var hversu vel hún fylgdist með öllu sem gerðist í veröldinni. Gilti þar einu hvort um var að ræða tísku eða tækni. Vandfundið mun fólk á tíræðisaldri sem kann skil á tækninýjungum eins og Dísa gerði. Hún var fljót að tileinka sér tölvutækni og notaði sér það óspart. Í síðasta símtali okkar, fáum dögum áður en hún kvaddi, talaði hún við okkur gegnum snjallúrið sitt. Dísa varð fyrir þeirri miklu sorg að missa Erling, eldri son sinn, eftir erfið veikindi langt um aldur fram. Hann var cand. mag. í sagnfræði og kenndi um árabil við FSU. Annan son á Dísa, Ragnar Geir, tölvunarfræðing og kerfisstjóra, sem kennt hefur í fjöldamörg ár við FSU.

Við eigum Dísu ótal margt að þakka og kveðjum hana með virðingu og miklum söknuði.

Helga Friðfinnsdóttir

og Gunnar Grettisson

Þegar Dísa systir er fallin frá hverf ég í huganum til æskuára okkar systkina á Galtastöðum. Það er bjart yfir þessum minningum. Við áttum bú austur við túngarð í dálítilli móaspildu sem ekki var slegin. Þarna gátum við dundað við búskap löngum stundum, þó einhverjir smásnúningar fyrir foreldra okkar gengju fyrir. Bærinn hennar Dísu hét Setberg, minn bær Aðalból og bær Árna Flúðir. Bústofninn var kindahorn, kindaleggir og kindakjálkar. Hornin fyrir sauðfé, leggirnir fyrir hesta og kjálkarnir fyrir kýr. Einhvern tíma löngu síðar lét Dísa prenta í nokkrum eintökum bernskuminningar sínar. Þar segir hún m.a. frá þessum búskap á greinargóðan hátt þar sem mér kom allt kunnuglega fyrir sjónir. Við höfðum byggingarnefndarfundi í þessum búskap. Ég geymi ennþá „hreppsskjölin“. Hreppsnefndarfundur fór fram í fjósinu og þar sé ég tillögu frá Dísu þar sem segir: „Mega fundarmenn leyfa sér að hafa dalla til að hvíla sitjandann á!“ Í tillögu frá mér er bannað „að grípa fram í fyrir ræðumanni“.

Dísa var prýðilega hagmælt og ekki alls fyrir löngu gaf hún mér heilmikla syrpu af kveðskap sínum, vísur, kvæði og gamanvísur sem hún flutti í Félagslundi þegar þau Brynjólfur bjuggu á Galtastöðum. Við systkinin öll fjögur fengumst við vísna- og ljóðagerð. Ég held að við höfum viljað heiðra minningu Þorsteins Erlingssonar ömmubróður okkar með þessu.

Það var gaman að heimsækja Dísu og hennar fjölskyldu að Galtastöðum. Þau Brynjólfur fluttu á Selfoss 1980 og eftir lát hans bjó hún ein í íbúð hér í Grænumörk. Heilsan lét undan síga síðustu árin en við náðum þó að heimsækja hvort annað. Mér er hlýtt í huga þegar ég minnist hennar. Góð kona er gengin. Hennar nánustu færi ég innilegar kveðjur.

Sigurjón Erlingsson.