Kolbrún Baldursdóttir
Kolbrún Baldursdóttir
Kolbrún Baldursdóttir: "Gera á störf á leikskóla eftirsóknarverð. Hækka þarf laun og bæta starfsaðstæður. Það er verkefni meirihlutans sem heldur utan um buddu borgarsjóðs"

Mannekluvandinn hefur fengið að festa sig í sessi og meirihlutinn í borgarstjórn hefur gefist upp. Mannekla er orðin að lögmáli. Mannekla við uppbyggingu leikskólakerfisins í Reykjavík hefur loðað við leikskóla borgarinnar árum saman og ekki hefur verið gripið til fullnægjandi ráðstafana til að leysa málið. Foreldrar, starfsfólk leikskóla og leikskólastjórar hafa um langan tíma sent ítrekuð áköll til meirihlutans í borgarstjórn vegna ástandsins en ekki haft erindi sem erfiði.

Hér er brot úr bréfi frá leikskóla sem foreldrar fjölda leikskólabarna hafa fengið: „Kæru foreldrar, við erum í miklum vandræðum með mönnun þessa dagana. Eins og þið hafið eflaust orðið vör við höfum við þurft að vera að bregðast við hvern dag og höfum verið að senda börn heim ýmist allan eða hálfan daginn. Af þessum ástæðum þurfum við að bregðast við fram í tímann og setja upp skipulagða skerðingu sem ég held að verði að gilda í næstu viku.

Auk veikinda þurfa starfsmenn að komast í sína vinnustyttingu og enginn er til að leysa af. Eins og staðan hefur verið eru kennarar ekki að ná þessum tíma en bæði stytting og undirbúningur eru kjarasamningsbundin réttindi og ber að virða. Okkur bráðvantar 5-6 stöðugildi bara hér í þetta hús til þess að geta sinnt starfinu eins og lög og reglur gera ráð fyrir.“

Forgangsröðun röng og skortur á skilvirkni

Þetta er sorglegt að lesa. Starfsfólk leikskólanna reynir að halda sjó við þessar erfiðu aðstæður. Hversu lengi á þetta ástand eiginlega að vara?

Það verður að gera störf á leikskóla eftirsóknarverð. Hækka þarf laun og bæta starfsaðstæður. Ekki gengur til lengdar að foreldrar ungra barna gangi stöðugt um með kvíðahnút og að starfsfólk leikskólanna sé að bugast vegna mikils álags í starfi. Mörg hundruð börn bíða eftir leikskólaplássi. Á sama tíma státar Reykjavíkurmeirihlutinn af því að borgin sé barnvæn og ætli að verða barnvænsta borg í heimi.

Reykjavík stendur sig illa í þessum málum en ætti að standa sig „best“ enda stærst sveitarfélaga. Sveitarfélög víða um land eru komin fram úr Reykjavík, bæði við að eyða biðlistum og bæta þjónustu við börnin og foreldrana. Dæmi eru um leikskóla með gjaldfrjálsan mat og jafnvel einstök sveitarfélög hafa fellt niður leikskólagjöld.

Þetta ástand kemur sérlega illa niður á foreldrum með lágar tekjur og sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ungir foreldrar eru ekki allir með foreldra sína og stórfjölskyldu í Reykjavík til að hlaupa undir bagga. Fjölmargar fjölskyldur eru búnar að nýta öll úrræði sem þeim býðst og hafa engin frekari ráð til að fá pössun fyrir börn sín. Hvernig eiga foreldrar að geta stundað vinnu sína eða nám?

Þriðjudaginn 7. febrúar er umræða um mannekluvandann að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins í tengslum við tillögu Flokks fólksins um heimgreiðslur til foreldra. Um er að ræða greiðslur til foreldra yngstu barnanna á meðan beðið er eftir leikskólaplássi. Þetta úrræði væri val fyrir þá foreldra sem hafa tækifæri til að vera áfram heima eftir fæðingarorlof. Heimgreiðsluúrræðið myndi því mögulega létta á álagi vegna manneklu og stytta biðlista leikskólanna.

Höfundur er oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Höf.: Kolbrún Baldursdóttir