Brynhildur Lýðsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 12. nóvember 1949. Hún andaðist á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 20. janúar 2023.

Brynhildur var dóttir Auðar Guðmundsdóttur, f. 27.1. 1918, d. 1.2. 2003, og Lýðs Brynjólfssonar, f. 25.10. 1913, d. 12.3. 2002.

Brynhildur átti tvo bræður; Ásgeir, f. 27.12. 1942, og Skúla, f. 9.11. 1951.

Hún giftist Ólafi Ólafssyni 8.8. 1980, þau skildu.

Starfsferill Brynhildar var lengst af hjá Icelandair innanlandsflugi og síðar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fyrir fjórtán árum fékk hún heilablóðfall sem breytti lífi hennar til frambúðar. Í kjölfarið fluttist hún í Hátún 12 þar sem hún undi hag sínum vel.

Útför hennar fór fram í kyrrþey 2. febrúar 2023.

Elsku Brynka, alltaf svo hlý og góð, mikill fagurkeri sem fegraðir bæði líf þitt og annarra. Við munum sakna þín en höldum í allar góðu stundirnar sem við fengum með þér.

Við minnumst þess sérstaklega þegar við komum í Æsufellið og þú tókst á móti okkur með hlýju og glettni. Alltaf varstu í góðu skapi og gafst þér tíma til þess að tala við okkur krakkana.

Lífið var þér ekki alltaf auðvelt eða sanngjarnt en þú barst það svo sannarlega ekki utan á þér og lést áföllin ekki stoppa þig. Þau voru ófá skiptin sem við rákumst á þig á „rúntinum“ á Rauðu eldingunni þar sem þú varst að skoða þig um í bænum eða verslunarmiðstöðvum. Oftar en ekki varstu að leita eftir gjöfum til þinna nánustu, enda er erfitt að finna gjafmildari manneskju en þig, þá sérstaklega þegar kom að börnunum okkar og varst þú þeim sem ská-langamma. Það var alltaf gaman að heimsækja þig, ávallt glöð að sjá okkur og áhugasöm um þær sögur sem við höfðum að segja. Krökkunum þótti líka svo gaman að koma til þín, stundum voru þau hikandi í fyrstu en oftast voru þau farin skríkja og leika við þig eftir nokkrar mínútur enda alltaf stutt í glettnina og leikinn í þér. Það finnast örugglega ekki margir staðir þar sem krakkar máttu leika sér með eins fínt skraut og flottar uppstillingar og hjá þér.

Elsku Brynka, stærra hjarta en þitt er erfitt að finna og er söknuðurinn mikill núna þegar við erum að kveðja þig, þú munt alltaf eiga stað í hjörtum okkar sem og smá hluta af okkur og börnunum okkar.

Sindri Ólafsson, Rán Ólafsdóttir og

Saga Ýr Ívarsdóttir.