Matthildur Björnsdóttir
Matthildur Björnsdóttir
Matthildur Björnsdóttir: "Þjóðin hikar ekki við að setja þá út sem gera ekki það sem hún þarf."

Ég hafði aldrei hugsað um hvaða hugmynd réð því hvernig stjórnvöld kæmu til. Eða hvernig þjóðir veldu leiðtoga og slíkt. Ég vissi þó að Jón Sigurðsson hafði barist fyrir að Íslendingar fengju að eiga land sitt sjálfir og ráða sínum málum. Og að þjóðhátíðardagurinn væri haldinn á afmælisdegi hans í tilefni sigurs hans.

En hér í Ástralíu lærði ég að það væri skylda að kjósa. Og við að hugleiða það og sjá svo hvernig þjóðin er tengd því sem ríkisstjórnir og fylkisstjórnir gera. Þjóðin hikar ekki við að setja þá út sem gera ekki það sem hún þarf.

Auðvitað gerir það að hafa kosningaskyldu málin ekki algerlega fullkomin. Það gerir það þó að fólk er almennt með nokkuð sterka meðvitund og ákveðið í að snúa dæminu við þegar augljóst er að stefna þeirrar ríkisstjórnar er að láta nauðsynlega þjónustu eins og heilsuvernd verða að litlu sem engu.

Það var til dæmis tilfellið á síðasta ári með þá stjórn sem hafði verið við völd í átta ár hér. Þeir höfðu náð að sitja með því að nota hræðsluáróður um Labour-planið. En í þetta skiptið var henni ýtt í burtu. Þjóðin sá að hún þjónaði henni ekki eins og þyrfti. Það gerðist hér á árinu 2022.

Þjóðin hafði fengið nóg af sjálfsdekri hægriflokkahugsunar og valdi miðju-vinstrileiðarstjórn um málin. Flokkur sem venjulega gefur sig út fyrir að hafa mannúðarlegri stefnu. Og það er búist við að fleiri hægristjórnir fái uppsögn við næstu fylkiskosningar, sem verða á þessu ári, 2023.

Það tekur þó því miður sinn tíma að snúa afleiðingum síðustu hægristefnu við hvað varðar mál eins og til dæmis heilbrigðisgeirann. Og þetta með fækkun lækna víða um heim, hér í Ástralíu og á Íslandi sem og víðar, er ógnvænleg þróun. Spurningin er: Hvað eru stjórnvöld að gera sem veldur slíkri þróun?

Slíkt undirstrikar frekar mikilvægi þess að allir þegnar, hverrar þjóðar sem er, hugsi um slíkt og fari þá á kjörstað. Hvort sem það er lögboðið í því landi að mæta þar eða ekki. Það er auðvitað um mikilvægi þess að öll þjóðin sé meðvituð um hvaða verðgildi hún vill að sé í huga þeirra sem verja skattpeningum hennar.

Þá erum við komin að mikilvægum atriðum um það að kjósendur velji þá sem sjá um að verja skattpeningum þjóðarinnar. Og auðvitað er það heilsa í fjölbreyttri mynd sem er svo mikilvæg. Við, allt mannkyn, viljum geta gengið að góðum og færum læknum ef og þegar við þurfum á þeim að halda þegar eigin heilsugæsla er ekki nóg.

Það er sorglegt að verða vitni að því að einstaklingum finnist sér ekki koma það neitt við hvað ríkisstjórn gerir við skattpeninga þeirra. Og konur á Íslandi sem ég nefndi það við sáu sig ekki hafa neitt með það að gera að skipta sér af því. Það algera hugarfarslega tengslarof er sorglegt. Að sjá ekki að það er mikilvægt fyrir alla hvað þessir einstaklingar í þinghúsinu eru að gera með peninga þjóðarinnar.

Til dæmis að virðast ekki viðurkenna þá staðreynd að læknisþjónustu og öðru í mikilvægri þjónustu hefur farið aftur. Að það sé því að kenna að þeir sem eyða peningum þjóðarinnar séu bara þeir sem vilja gera ríka vini sína ríkari og hafi ekki orðið mjög veikir. Og að þeir sem kjósa þá vilji þá í stjórn sem geri þá ríkari eru hræðilegar fréttir.

Það er auðsjáanlegt að hægriflokkar eiga það til að sjá heilbrigðiskerfin sem botnlausa hít. Holu sem þeir eru ekki tilbúnir að sjá um að hafa fyllta. Hvað þá verja þeim upphæðum í þau sem þjóðin þarf.

Ef þeir sjá ekki heldur mikilvægi þess að hvetja fólk til að læra læknisfræði og tilheyrandi greinar fyrir alla heilsu og hafa þjónustuna greidda af skattpeningum þjóðarinnar, þá er mannkyn í slæmum málum.

Hér er að koma í ljós að stefna margra yngri lækna er frekar að verða sérfræðingar en heimilislæknar. Eða kannski læknar á sjúkrahúsi þar sem þjónustan er kostuð úr almannasjóðum. Það virkar eins og verið sé viljandi að fækka mannkyni. Láta fólk deyja si svona af því að enginn læknir fyrirfinnst í sjúkrahúsinu eða ekki með næga kunnáttu í þeim öðrum einkennum sem sjúklingar koma með. Nýja ríkisstjórnin hér vinnur að því að heila „Medicare“-sjúkrasamlagið sem var við það að deyja.

Ef dekurbörn þjóðarinnar eru þau einu sem kjósa þá eru það gildi þeirra sem ráða í stefnu stjórnar. Og það á við um kosningar hvar sem er í heiminum. Auðvitað eru ótal önnur málefni mikilvæg, en þessi vega ansi þungt á skalanum.

Höfundur býr og starfar í Adelaide, Ástralíu.