Yfirlæknisbústaður Vinnupallar eru allt umhverfis húsið og utanhússframkvæmdir enn í fullum gangi.
Yfirlæknisbústaður Vinnupallar eru allt umhverfis húsið og utanhússframkvæmdir enn í fullum gangi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Yfirlæknisbústaðurinn á Vífilsstöðum var í „skelfilegu ástandi“ þegar hafist var handa um viðgerðir á húsinu haustið 2021. Þak var ónýtt og sama gilti um útveggi og glugga.

Sviðsljós

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Yfirlæknisbústaðurinn á Vífilsstöðum var í „skelfilegu ástandi“ þegar hafist var handa um viðgerðir á húsinu haustið 2021. Þak var ónýtt og sama gilti um útveggi og glugga.

Þetta segir Karl Pétur Jónsson, upplýsingafulltrúi Ríksieigna/Framkvæmdasýslu ríkisins. Búist er við að utanhússviðgerðum ljúki í byrjun júní. Minjavernd annast framkvæmdir. Verkið var ekki boðið út en um 120 milljónir króna hafa verið eyrnamerktar því.

Lá undir skemmdum

Morgunblaðið vakti í lok ágúst 2021 athygli á slæmu ástandi hússins sem er steinsnar fyrir austan Vífilsstaðaspítala. Það hafði þá staðið autt og ónotað í um tvo áratugi og lá undir skemmdum. Aldurs síns vegna er húsið friðað og nýtur verndar sem menningarminjar. Í kjölfarið bað fjármálaráðuneytið Ríkiseignir að leggja mat á kostnað við að verja húsið að utan og kanna hvort mögulegt væri að ráðast í viðhald á ytra byrði þess þá um haustið.

Yfirlæknisbústaðurinn var á þessum tíma í umsjón Landspítalans. Ákvað ráðuneytið jafnframt að færa umsjón hússins og fleiri fasteigna á Vífilsstaðalóðinni, sem Landspítalinn þurfti ekki fyrir sína starfsemi, yfir til Ríkiseigna.

Rætt á Alþingi

Málið kom einnig til umfjöllunar á Alþingi í byrjun september 2021. Upplýsti fjármálaráðherra þá að á vegum Ríkiseigna lægi fyrir greinargerð um byggingarnar á Vífilsstöðum sem unnin var í byrjun árs 2021. Þar væri einnig að finna ítarlegt mat á kostnaði vegna nauðsynlegrar viðgerðar á yfirlæknisbústaðnum. Væri talið að heildarkostnaður við viðgerðir og endurbætur á húsinu að utan yrði í kringum 120 milljónir króna.

Sagði ráðherra að á grundvelli fjárfestingarátaks stjórnvalda hefði fjármagn verið tryggt til að hægt yrði að hefja framkvæmdir á eigninni.

Mikilla viðgerða þörf

„Þegar verkið hófst var grafið í kringum húsið og drenlagnir settar í jörð. Sökkull var lagfærður og nýjar lagnir og fráveita lögð. Þá var reistur vinnupallur kringum húsið. Á tímabili var húsið alveg þakið dúk, til að halda veðri og vindum frá því,“ segir Karl Pétur Jónsson. Hann segir að þakið hafi verið endurnýjað. „Sperrur voru illa farnar og járn ónýtt. Nú er verið að ganga frá þakköntum. Háaloft var klætt að nýju og skorsteinar steyptir upp að nýju. Þeir voru ónýtir.“

Þá segir Karl Pétur að búið sé að smíða gluggafög og glerja þau. Í húsinu verði franskir gluggar með um 400 rúðum.

„Útveggir hússins eru tvöfaldir, steinsteyptir með holrými á milli. Upprunalega var húsið einangrað með mó. Ytri veggurinn var farinn að springa og lekið hafði inn í holrýmið. Mórinn var blautur og kekkjóttur. Var hann hreinsaður út, innri veggurinn gataður og hreinsað úr öllum hólfum. Nú er búið að einangra húsið upp á nýtt með öðrum og nýtískulegri hætti. Gert var vandlega við sprungur á ytra byrði útveggja sem nú eru tilbúnir til málningar,“ segir Karl Pétur.

Hann segir að nýlega hafi svo komið í ljós að steinsteypt anddyri hússins og svalir ofan á því væru ónýt. Yrði anddyrið rifið og reist að nýju.

Heimili yfirlækna

Á öldinni sem leið bjuggu yfirlæknar Vífilsstaðaspítala í húsinu ásamt fjölskyldum sínum. Það var teiknað af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins og tekið í notkun árið 1920. Það þótti þá óvenju glæsilegt. Þáverandi yfirlæknir, Sigurður Magnússon, var bróðir Jóns Magnússonar, sem gegndi embætti forsætisráðherra frá 1917 til 1922, og kann það að hafa ráðið einhverju um að fé til framkvæmda var ekki skorið við nögl. Á neðri hæðinni var stór borðstofa, sem var viðarþiljuð og með bitum á lofti, og setustofa þar sem var arinn. Dyr voru úr þeirri stofu út í garðinn. Að auki var á hæðinni eldhús og húsbóndaherbergi.

Á teikningu Guðjóns var enn fremur gert ráð fyrir svonefndu boudoir, húsfreyjuherbergi, sem ætlað var fyrir saumaskap og hannyrðir læknisfrúarinnar. Svefnherbergi voru á efri hæðinni, hjónaherbergi og 5 minni herbergi, þar af eitt sem sérstaklega var ætlað þjónustustúlku og var sérstigi upp í það. Hann var fjarlægður á áttunda áratugnum, enda hafði síðasti yfirlæknirinn á staðnum engar þjónustustúlkur.

Engar ákvarðanir liggja fyrir um framtíðarnot hússins. Landið er í eigu Garðabæjar.

Höf.: Guðmundur Magnússon