Fundur Volodimír Selenskí og Rishi Sunak í Downingstræti 10 í gær.
Fundur Volodimír Selenskí og Rishi Sunak í Downingstræti 10 í gær. — AFP/Dan Kitwood
„Bretar voru meðal fyrstu þjóða til að rétta Úkraínu hjálparhönd,“ skrifaði Volodimír Selenskí forseti Úkraínu á samfélagsmiðla við komuna til Bretlands í gær og kvaðst vilja færa breskum almenningi persónulega þökk sína

„Bretar voru meðal fyrstu þjóða til að rétta Úkraínu hjálparhönd,“ skrifaði Volodimír Selenskí forseti Úkraínu á samfélagsmiðla við komuna til Bretlands í gær og kvaðst vilja færa breskum almenningi persónulega þökk sína. Selenskí var fagnað ákaft og hann notaði heimsóknina til að heimsækja breska þingið og ræða við Rishi Sunak forsætisráðherra. Hann hitti einnig Karl III. Bretakonung í gær og þakkaði honum fyrir aðstoð við úkraínska flóttamenn.

Selenskí notaði tækifærið til að hvetja bandamenn sína til að senda orrustuflugvélar til stríðshrjáðs lands síns – og „gefa honum vængi“ svo hann gæti unnið stríðið. Bresk stjórnvöld tilkynntu í gær aukinn stuðning við Úkraínu, m.a. með þjálfun úkraínskra hermanna í flug- og sjóhernum, en á dagskránni var heimsókn til úkraínskra hermanna sem eru í þjálfun á Suðvestur-Englandi. Rússnesk yfirvöld brugðust strax við í gær og sögðu að hart yrði tekið á sendingum orrustuflugvéla til Úkraínu.

Frá Bretlandi var ferð Selenskís heitið til Frakklands í gær til að hitta forsetann Emmanuel Macron og Olaf Scholz kanslara Þýskalands. Í dag er förinni heitið til Brussel þar sem hann mun funda með leiðtogum Evrópusambandsins.