Á „punty“ Elín færir skál frá blásturspípu yfir á svokallað „punty“. Glerblástursverkstæðið er vígi fagmálsins.
Á „punty“ Elín færir skál frá blásturspípu yfir á svokallað „punty“. Glerblástursverkstæðið er vígi fagmálsins. — Ljósmynd/Dave Rutherford
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég var náttúrulega að elta karlmann,“ segir Elín Ásvaldsdóttir, glerlistakona í Maplewood í Missouri í Bandaríkjunum, spurð hvernig á því standi að hún hafi verið búsett þar vestra í þrjá áratugi samfleytt, fimmtug kona sem á ættir sínar að rekja…

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Ég var náttúrulega að elta karlmann,“ segir Elín Ásvaldsdóttir, glerlistakona í Maplewood í Missouri í Bandaríkjunum, spurð hvernig á því standi að hún hafi verið búsett þar vestra í þrjá áratugi samfleytt, fimmtug kona sem á ættir sínar að rekja til Ísafjarðar og Þistilfjarðar auk þess að hafa unnið módelstörf í París.

„Ég kynntist sem sagt karlmanni á Íslandi þegar ég var í hléi frá því að módelast í París. Hann var við nám hér í St. Louis og það var annaðhvort að kynnast honum eða ekki svo ég sagði bara já og sagði mömmu að ég væri að fara til Bandaríkjanna í svona þrjá til sex mánuði.“ Þá yfirlýsingu fékk móðir Elínar árið 1993 og enn hefur dóttirin ekki snúið til baka.

„Hann var níu árum eldri en ég og ég þekkti hann ekki neitt. Við vorum saman í sirka þrjú ár held ég og svo kynntist ég öðrum manni sem er fæddur og uppalinn hér í St. Louis og það er ástæðan fyrir því að ég er enn hér,“ útskýrir Elín en Maplewood er úthverfi St. Louis og telst til hennar.

Auk glerblásturs við mjög heitar aðstæður, sem nánar verður lýst hér á eftir, og módelstarfa um árabil er Elín sminka og starfar við það á vegum fyrirtækis síns Makeup By Elin en glerið blæs hún á vegum annars fyrirtækis með nafnið Made By Elin. Hún virðist því víða hafa komið við í atvinnulífinu.

Býr við Route 66

„Upphaflega þegar ég flutti hingað var ég módel og gat ekki unnið við neitt annað en að vera módel og aðeins að sminka líka því atvinnuleyfið mitt bauð ekki upp á meira. Ég fékk atvinnuleyfi í sjö ár til að byrja með og það náði bara til módelstarfa,“ útskýrir Elín sem er mjög heimakær og hefur búið í sama húsinu í Maplewood síðan fyrir aldamót en hinn goðsagnakenndi bandaríski þjóðvegur Route 66 liggur örskammt frá heimili hennar.

Elín sinnti því fyrirsætustörfum fyrstu sjö árin í Bandaríkjunum en fyrirtækið sem hún starfaði hjá réð hana þó sem förðunardömu í hlutastarfi án þess að brotið teldist gegn atvinnuleyfinu. „Svo þegar ég fékk græna kortið gat ég farið að gera ýmislegt og ég er búin að vinna við allt mögulegt, ég er kannski dálítið ofvirk eins og margir í ættinni minni,“ segir Elín með brosi sem heyrist nánast yfir Atlantshafið.

Svo eitthvað sé nefnt starfaði Elín við það í rúma tvo áratugi að þýða enskan símsvörunartexta yfir á Norðurlandatungumálin. „Svo ef þú hringir í sum fyrirtæki hér geturðu heyrt mig segja þér á hvaða takka þú eigir að ýta til að komast í að kvarta yfir einhverju sem yfirmaðurinn þinn hefur gert,“ tekur Elín sem dæmi.

Þá rak hún eins konar prentverksmiðju, „þannig séð“, eins og hún orðar það, en sú starfsemi fólst í því að breyta ljósmyndum af fyrirsætum í forritinu Photoshop, svo sem að fjarlægja hrukkur og breyta því sem tískuljósmyndarar þessa heims telja óæskilegt. „Svo hef ég kennt vatnsleikfimi og ég átti líka fyrirtæki í nokkur ár sem réð módel á ráðstefnur og ýmsar sýningar, svo sem til að kynna vörur í básum, annaðhvort bara með því að vera þar eða koma fram sem fulltrúi viðkomandi fyrirtækis og ræða við gesti og gangandi.“

Þarfnast vægs kvalalosta

Undanfarin sjö ár hefur þó glerlistin átt æ meira upp á pallborðið hjá Elínu og stendur nú undir um það bil þriðjungi tekna hennar þótt hún telji förðunina enn sitt aðalstarf. „Ég myndi segja að ég væri meira í listageiranum en iðnaði, ég er að hanna mína eigin hluti sem verða til sem hugmyndir hjá mér og svo bý ég þá til. Ég get kannski talað um ólífuolíu- og sápuflöskurnar mínar sem iðnað af því að þær eru alltaf eins, bara í ólíkum litum, ég get bara selt þær og þarf ekkert að hugsa um það sem ég er að gera,“ segir Elín og hlær.

Listagyðjan sé þó ofar öllu slíku veraldlegu prjáli sem ólífuolíu- og sápuflöskum, vasar og skálar séu hins vegar allt annað auk þess sem viðskiptavinir heimsæki hana gjarnan með óskir um skrautmuni sem ætlað sé að falla að öðru á heimili þeirra.

Glerblástur er iðja sem blaðamaður tengir við hálfgerðan ævintýraheim sköpunar enda klaufskur með afbrigðum og yrði án nokkurs vafa álitinn stórslys í slíku umhverfi. Hvernig lærist slík iðja?

„Glerblástur er svona íþrótt þar sem þú þarft að búa yfir vægum kvalalosta, þetta er rosalega heitt og þungt og reynir á vöðva sem þú ert ekkert rosalega mikið að nota nema þú spilir á gítar eða eitthvað svoleiðis,“ segir listakonan og á við vöðva í framhandleggjum. Þá þurfi að þjálfa til að glerblásturinn verði auðveldur.

„Ég tók mér pásu í tvær vikur af því að sonur minn fór aftur í skólann og ég var ekki með neinn til að aðstoða mig. Svo þegar ég byrjaði aftur í gær voru handleggirnir á mér hreinlega logandi, þetta var bara eins og ef einhver bæði þig að gera tíu kviðkreppur með hundrað kíló í fanginu,“ segir Elín. Nokkurra daga hlé í greininni hafi sínar afleiðingar.

Ekki í kjallaranum heima

Bransinn er nokkuð árstíðabundinn upp á sölu að gera en þegar söluvæn tímabil eru í gangi þarf Elín að verja hluta af þremur til fjórum dögum í viku á verkstæði sínu ætli hún sér að eiga nothæfan sölulager. Núverandi árstími sé til dæmis mjög rólegur, í janúar og febrúar klóri flestir listamenn sér bara í hausnum og spyrji sig hvort þeir séu þá ekkert flinkir eftir allt saman.

„En það er bara ekki góður sölutími eftir jólin,“ útskýrir Elín sem nú er farin að dunda sér við að prjóna peysur yfir vetrarmánuðina og ferst vel úr hendi ef marka má myndir hennar á samfélagsmiðlum.

Hún segir marga verða hissa þegar þeir komast að því að hún er ekki að dunda sér við að blása glóandi heit listaverk úr bráðnu gleri í kjallaranum heima hjá sér. Glerblásturinn er örlítið fyrirferðarmeiri en að slíkt verði gert með góðu móti.

„Ég leigi aðstöðu hjá fyrirtæki sem heitir Third Degree og á ekkert sjálf nema litina og handtólin sem ég nota til að forma glerið. Það sem ég leigi er aðstaða fyrir brætt gler og ofnarnir sem kæla glerið niður í stofuhita,“ segir Elín og sú aðstaða er langt í frá ókeypis. „Í hvert sinn sem ég geng þar inn þarf ég að borga þeim 200 dollara [28.000 ISK] fyrir að fá að vinna þar í þrjá tíma. Ef ég er á lítilli holu þarf ég að borga 120 fyrir tvo og hálfan tíma því það fer alltaf lágmark hálftími í að ganga frá, en ef ég er á stóru holunni sem ég var á í gær þarf ég að borga 165,“ útskýrir Elín. Glerblásarar þurfa sem sagt holur til að stunda iðju sína og kallast „glory holes“ meðal innvígðra.

Blásturinn krefst enn fremur aðstoðarmanneskju sem tekur 20 dali á tímann og svo þarf að greiða álitlega upphæð fyrir liti. Elín býr þó svo vel að sleppa að mestu við borgaða aðstoðarmenn þar sem synir hennar eru nú orðnir nægilega gamlir til að geta hlaupið í það skarð. „Já já, ég bjó þá til og ég þjálfaði þá,“ segir hún hlæjandi en játar að sá eldri fái orðið greitt nokkra tugi dala á tímann.

Þrátt fyrir ríflegan kostnað er glerblástursbókhald Elínar allt í plús þar sem hún selur verk sín fyrir mun hærri upphæð en nemur kostnaðinum.

Leyndardómar Murano

En eru helstu áhrifavaldar ekki eitthvað sem þarf að ræða við listamenn í viðtölum? „Ég hef verið mjög hrifin af Dale Chihuly sem er heimsfrægur amerískur glerblásari. Hann er reyndar ekkert að blása lengur, er með fjögurra eða fimm manna teymi í því, en er bara að hanna og er mjög afkastamikill,“ svarar Elín.

Frá Chihuly komi meðal annars skálar en einnig hörpuskeljar „og ég fór að blása mikið gripi sem líktust því sem hann var að gera en auk þess fór ég í svona „masterclass“ hjá tveimur sem líka eru vel þekktir í bransanum, George Kennard, sem er aðalmaðurinn í þessu í New York, en hjá honum tileinkaði ég mér mikla tækni, hann er mikið í að búa til stóra hluti,“ segir Elín frá.

Hitt meistaranámskeiðið var á vegum Davide Fuin. Sá kemur að sögn Elínar frá Murano, einni þeirra 118 eyja sem mynda Feneyjar á Ítalíu, en þar var glerblásurum komið fyrir í öryggisskyni í fyrndinni svo þeir brenndu ekki allt landið til grunna ef slys yrðu.

„Fuin er í gamla stílnum sem gengur út á rosalega fíngerða og litla hluti sem maður getur varla tekið upp án þess að þeir brotni,“ segir Elín af listamanni þessum sem er af áttundu kynslóð glerblásara í ættinni, geri aðrir betur.

Hún segir frá því að mikil leynd hafi hvílt yfir glerblásturstækni listamannanna á Murano. „Enginn mátti sjá hvernig þetta var gert og enginn fékk að læra að búa neitt til nema hafa fæðst inn í þá fjölskyldu eða vera tekinn inn á verkstæði hjá einhverjum listamanni sem var ekki daglegt brauð,“ segir hún af eyjarskeggjum og iðju þeirra.

„Þessir snillingar, Kennard og Fuin, eru sem sagt hvor í sínum stílnum, annar með stóra og þunga hluti en hinn mjög fíngerða og létta, en að taka þessi námskeið hjá þeim gaf mér byr undir báða vængi í mínum glerblæstri,“ segir Elín og bætir því við að þótt Murano nálgist að vera vagga þessarar listar í Evrópu hafi gler verið blásið í Skandinavíu og Póllandi í grárri forneskju.

Aftur á fæðingardeildina

„Ekki eru nema 60 eða 70 ár síðan þetta byrjaði að einhverju ráði hérna í Bandaríkjunum, þegar almenningur fór að fást við þetta, og Chihuly var einn af frumkvöðlunum hér og stofnaði Pilchuck Glass School á vesturströndinni, í Stanwood, norður af Seattle. Svo var Ítalinn Lino Tagliapietra sá fyrsti frá Ítalíu sem kom hingað til Ameríku til að kenna,“ heldur listakonan áfram og hér þarf blaðamaður að stoppa hana af plássins vegna, manneskjan veit allt um fræðin, þar er engu logið.

Þessi forvitnilega iðja virðist taka sinn toll af tíma Elínar, glerharðan toll ef svo mætti segja, ofan á förðunarstörf. Er rými fyrir fleiri áhugamál en bráðið gler í lífi hennar?

„Ég er að vinna við öll áhugamálin mín. Þau eru að mála, blása gler, prjóna peysur og búa til kort og ég fæ borgað fyrir þetta allt. Ég er bara mjög heppin með það að fá borgað fyrir allt sem ég hef áhuga á. Þannig að ég hef voðalega lítinn áhuga á því að hætta að vinna,“ segir Elín og hlær.

Ferðalög og góður matur eru þó tvö áhugamál sem hún fær ekkert greitt fyrir – og líklega ekki hægt að kvarta innan um öll greiddu áhugamálin. „Ef ég væri ekki að gera allt hitt væri ég örugglega að ferðast og borða,“ segir Elín og kveðst reyndar geta hrósað happi yfir því að eiginmaður hennar sé betri kokkur en flestir veitingastaðir hafi á að skipa.

Þrátt fyrir að Elín hafi ekki alla tíð starfað við eintóm hobbí og listsköpun hefur hún ótrúlega víða komið við, ekki síst á íslenskum vinnumarkaði, en sem unglingur starfaði hún sem aðstoðarstúlka á Landspítalanum, en þar starfaði móðir hennar sem hjúkrunarfræðingur, ljósmóðir og að lokum yfirljósmóðir.

„Ég var í því í þrjú sumur, ég hætti að telja eftir hundrað fæðingar man ég. Þar fékk maður að upplifa allt, keisara, tvíbura, þríbura, börn fædd andvana og ég veit ekki hvað,“ rifjar Elín upp. Ekki þurfti neina formlega menntun á þessum tíma til að ganga í þessi störf sem voru þannig til komin að unglingsstúlkur voru ráðnar yfir sumarið og komu þá í stað nemenda í ljósmóðurfræðum sem þá voru í sumarfríi frá skóla.

„Þá þurfti að fá aðstoðarfólk í staðinn og þar komum við inn eins og reglurnar voru í gamla daga,“ segir Elín og á við árin um og fyrir 1990 þegar hún hafði þetta sumarstarf með höndum. „Við vorum að skipta á rúmunum, setja upp áhöld fyrir fæðingar og draga lyf á nál. Í fæðingunum sjálfum vorum við svo að rétta ljósmæðrunum áhöld, halda í höndina á feðrunum ef það var að líða yfir þá, svo tókum við fylgjuna og naflastrenginn og mældum hve mikið blóð kom úr þeim eftir fæðinguna og við fengum í raun bara að læra nánast allan verklega hlutann,“ segir hún frá.

Móðir Elínar, hjúkrunarfræðingurinn og yfirljósmóðirin fyrrverandi, er Guðrún Guðmunda Eggertsdóttir frá Laxárdal í Þistilfirði en faðir hennar Ásvaldur Jón Marisson bifvélavirki frá Bolungarvík. „Þau kynntust á balli í Glaumbæ,“ segir Elín til að útskýra tengsl foreldra af báðum endum landsins.

Systir Bootlegs-goðsagnar

Guðrún og Ásvaldur slitu samvistir síðar á lífsgöngunni en bróður Elínar munu einhverjir aðdáendur íslenskra þungarokksfrumkvöðla kannast við því þar fer enginn annar en Kristján „Stjúni“ Ásvaldsson, trommuleikari hinnar fornfrægu þungarokksveitar Bootlegs sem leit dagsins ljós árið 1986, tók þátt í Músíktilraunum árið eftir og skildi eftir sig tvær plötur á ferlinum.

„Hann er tölvunörd,“ segir Elín af iðju bróður síns í dag sem hefur haslað sér völl í forritunarvinnu hjá L.S. Retail. „Hann getur unnið hvar sem er og ferðast mikið en annars sækir hann þungarokkstónleika enn þá af miklum móð og hefur verið að fást við ljósmyndun á þeim við góðan orðstír. Hann er svona „atvinnutónleikaaðsóknarmaður“, er það orð til? Hann fer út um allan heim að sjá sín uppáhaldsbönd og tekur myndir á tónleikunum en það er samt bara áhugamál hjá honum. Hann er einmitt að koma hingað til að sjá Metallica í nóvember á næsta ári hérna í St. Louis,“ segir systirin.

Hann er líka tölvunörd

Sem börn hafi þau Kristján verið í sveit á sumrin á æskuslóðum móður sinnar í Laxárdal í Þistilfirði og rifjar Elín upp að hún hafi verið orðin fjórtán ára þegar hún lét af sumardvöl þar eystra en foreldrar þeirra bjuggu á Þórshöfn þegar þau systkinin voru kornung, 1973 til '74.

Eiginmaður Elínar er Dale Edward Ficken. „Hann hætti að vinna fyrir tæpum þremur árum og byrjaði með sitt eigið fyrirtæki, hann er líka svona tölvunörd og er að vinna við eitthvert dæmi sem ég get ekki útskýrt af því að ég er ekki tölvunörd,“ segir Elín og hlær.

„Hann sinnir einhverjum ráðgjafarstörfum núna sjálfstætt en við erum búin að skipta alveg um hlutverk annars, fyrir nokkrum árum sagði ég honum að nú skyldi ég bara sjá um að vinna fyrir okkur og hann fór bara inn á heimilið að þrífa og kaupa í matinn og svona, þetta er mjög huggulegt,“ segir Elín enda þegar komið fram að eiginmaðurinn er listakokkur.

Synir þeirra eru Alexander Daleson Ficken og Erik Dalesson Ficken og hér er ekki innsláttarvilla á ferð því annar heitir Daleson og hinn Dalesson. Skýringin er einföld: „Já, við gleymdum auka s-inu hjá Alexander og hann vildi svo ekki breyta því,“ útskýrir Elín. Einfalt mál.

Allt sem þú gerðir ekki

Þeir bræður verða 18 og 20 ára núna í febrúar, „svo ég á börn eins og er, en á eftir að eiga karlmann og barn núna í febrúar. Þeir eru báðir í framhaldsskóla, annar býr enn hjá okkur en hinn er fluttur út – alla vega á veturna,“ segir Elín sem kveðst hafa lagt mikla áherslu á að synirnir töluðu íslensku og hafði sitt fram þar, þeir tala bæði málin og sá eldri frönsku að auki.

„Þeir hafa alltaf farið til Íslands að minnsta kosti einu sinni á ári alla sína ævi en við ferðumst líka mikið um Evrópu og ég sé ekki fyrir mér að þeir verði alla ævi í Bandaríkjunum, mig grunar að þeir flytji til Evrópu áður en langt um líður. Sá eldri hefur til dæmis mikinn áhuga á Póllandi og var alveg dolfallinn þegar við fórum til Kraká. Hann gæti hins vegar vel hugsað sér að starfa hjá einhverju bandarísku fyrirtæki en búa í Evrópu og vinna fjarvinnu,“ segir móðirin, enda sá lífsstíll óðum að ryðja sér til rúms, ekki síst í kjölfar heimsfaraldurs.

Lífsspeki glerblásarans í St. Louis er ekki flókin. „Eftir tuttugu ár áttu ekki eftir að sjá eftir því sem þú gerðir heldur mun frekar vera með bakþanka yfir því sem þú gerðir ekki. Njóttu lífsins, stundaðu þín hobbí og ég vona bara að ég hafi heilsu, sjón og líkamsstyrk til að halda áfram í öllu sem ég er að gera til 90 ára aldurs,“ segir Elín Ásvaldsdóttir, listakona í Missouri, að lokum.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson