Haraldur F. Gíslason
Haraldur F. Gíslason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Hafnarfjarðarbær ákvað að ráðast í verkefni sem ætlað er að samræma starfstíma í leik- og grunnskólum bæjarins, með það að markmiði að fjölga fagfólki í leikskólunum og auka sveigjanleika. Er Hafnarfjörður fyrst sveitarfélaga til að stíga þetta skref. Verkefnið hlaut nýverið viðurkenninguna Orðsporið, sem veitt er af Félagi leikskólakennara og Félagi stjórnenda í leikskólum.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Hafnarfjarðarbær ákvað að ráðast í verkefni sem ætlað er að samræma starfstíma í leik- og grunnskólum bæjarins, með það að markmiði að fjölga fagfólki í leikskólunum og auka sveigjanleika. Er Hafnarfjörður fyrst sveitarfélaga til að stíga þetta skref. Verkefnið hlaut nýverið viðurkenninguna Orðsporið, sem veitt er af Félagi leikskólakennara og Félagi stjórnenda í leikskólum.

Full vinnutímastytting hefur verið innleidd í öllum leikskólum í Hafnarfirði og unnið er eftir útfærslum sem henta starfseminni á hverjum stað. Nýtt vinnutímafyrirkomulag nær til alls starfsfólks leikskólanna og er útfærslan ólík á milli starfsfólks og starfsstöðva. Stærsta breytingin er að frá 15. desember sl. er starfsár starfsfólks í Félagi leikskólakennara og annars háskólamenntaðs starfsfólks innan leikskóla Hafnarfjarðarbæjar orðið sambærilegt starfsári grunnskólakennara.

Þetta þýðir að starfsfólkið mun taka út fulla vinnutímastyttingu í kringum hátíðir, vetrarfrí og með lengra fríi á sumrin. Samhliða er unnið að endurskipulagningu á starfsári leikskólanna með það fyrir augum að færa skipulagið nær skipulagi grunnskólastarfsins með virku og faglegu námi stóran hluta ársins og faglegu tómstunda- og frístundastarfi.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri segir það mikla viðurkenningu fyrir Hafnarfjörð að fá Orðsporið, það hvetji bæjar- og skólayfirvöld til áframhaldandi aðgerða og umbóta.

Hún segir ákvörðun um aðgerðir hafa verið tekna út frá þeirri þróun sem hafi átt sér stað innan leikskólaumhverfisins síðustu ár.

„Staðreyndin er sú að eftir að eitt leyfisbréf fyrir kennara tók gildi árið 2020 hefur fagfólki í leikskólum fækkað á landsvísu og margir fagmenntaðir verið að færa sig yfir á grunnskólastigið eða í aðrar atvinnugreinar. Á sama tíma er krafa um faghlutfall innan leikskólanna sterk, atvinnuleysi í sögulegu lágmarki og eftirspurn eftir þjónustunni mikil, með tilheyrandi áhrifum á líf og störf foreldra,“ segir Rósa og telur löngu tímabært að bjóða upp á raunverulegar lausnir til lengri tíma litið innan leikskólanna. Einnig að bjóða upp á raunhæf tækifæri til faglegs starfs í aðlaðandi, sveigjanlegu og skapandi starfsumhverfi.

„Hér í Hafnarfirði er t.d. nóg af plássum í boði innan leikskóla bæjarins, en það vantar starfsfólk til að sinna börnunum. Þetta var stór ákvörðun en við erum sannfærð um réttmæti hennar,“ segir Rósa og bætir við:

„Aðgerðirnar kosta en gleymum því ekki að það kostar líka að vera með óraunhæfar kröfur í krefjandi starfsumhverfi og foreldra sem komast ekki út á vinnumarkaðinn. Við erum þegar farin að upplifa árangur og leikskólakennarar farnir að skila sér heim í Hafnarfjörð. Það hefur verið ljóst um alllangan tíma að eitthvað róttækt verði að gera í dagvistarúrræðum barna í samfélaginu öllu. Við í Hafnarfirði erum að gera okkar í þeim efnum.“

Tímabært skref

„Það er löngu orðið tímabært að stíga það skref að stilla af starfstíma leik- og grunnskóla. Eftir að ákvörðun um eitt leyfisbréf fyrir bæði skólastigin var tekin árið 2019 hafa of margir kennarar á leikskólastigi valið að kenna á grunnskólastigi,“ segir Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, um verkefnið sem Hafnarfjarðarbær réðst í.

„Hafnarfjarðarbær á hrós skilið fyrir þá forystu sem sveitarfélagið hefur tekið í því að bæta starfsaðstæður leikskólakennara. Það verður spennandi að fylgjast með þróuninni og sjá hvort þetta skref muni fjölga leikskólakennurum í leikskólum sveitarfélagsins og jafna flæðið á milli,“ segir Haraldur.

Í lögum 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er kveðið á um að 2/3 (67%) hlutar þeirra er sinna uppeldi og menntun í leikskólum eigi að hafa leyfisbréf kennara. Hlutfallið var 28% árið 2020 í leikskólum sem reknir eru af sveitarfélögum og aðeins 19% í einkareknum leikskólum. „Er það von okkar að önnur sveitarfélög fylgi í kjölfarið og fari þannig að bjóða upp á raunverulegar lausnir til lengri tíma litið,“ segir Haraldur ennfremur.

Höf.: Björn Jóhann Björnsson